sunnudagur, mars 31, 2013

Lof og last

Margt af því sem ég nefni hér á eftir er margumrætt á öðrum vettvangi (og stundum vísa ég til þeirrar umræðu) og fólk sem les sömu miðla og ég fær sjálfsagt ekkert úr þessari samantekt minni á hverjir eiga að mínu mati lof eða last skilið. En mér þykir þetta nokkuð sáluhjálparatriði (sáluhjálp er mér auðvitað ofarlega í huga um páska, sannkristinni manneskjunni) því ég þoli ekki þegar ég átta mig á að ég hafi algerlega sleppt því að minnast á einhver mál sem mér eru eða hafa verið hugleikin, svona eins og mér hafi alveg staðið á sama um þau. Þannig er lof og last reddingin ekki bara til að mér verði ekki brigslað um afstöðuleysi heldur aðallega svo að ég verði ekki í framtíðinni hneyksluð á sjálfri mér.

LOF

Það var gott að Jenný Anna benti á hina ágætu ræðu Álfheiðar Ingadóttur, og hrósaði henni og Jóhönnu í pistli sínum, því ekki hafði ég geð(heilsu) á að fylgjast með þinginu daginn sem vantrauststillagan var rædd (eða flesta aðra daga, það eru takmörk). Hér má lesa ræðu Álfheiðar.

Svandís Svavarsdóttir fær lof fyrir að vekja athygli á málþófi karla á þingi, en karlar töluðu 92% ræðutímans.

Síðasti bakþankapistill Kolbeins Óttars Proppé um konur í fjölmiðlum.

Talandi um pistla. Ármann Jakobsson skrifar frábæra pistla sem Smugan birtir samviskusamlega. Sá sem fjallar um næstum uppskurð Ármanns og margumræddan niðurskurð heilbrigðiskerfisins er t.d. alveg fyrirtak og ekki var sá um Geirfinnsmálið síðri.

Lof fá félagsmenn VR fyrir að losa sig við siðpillta karlkynsformanninn og kjósa konu, Ólafíu Björk Rafnsdóttur, sem formann félagsins, þá fyrstu í 122 ára sögu félagsins.

Lof fá Grænlendingar fyrir að kjósa í fyrsta sinn konu, Alequ Hammond, í stól landsstjóra.

Sömuleiðis fá Samtökin '78 lof fyrir að kjósa konu, Önnu Pálu Sverrisdóttr, sem formann — en þar hafa reyndar jafnmargar konur og karlar verið formenn samtakanna. Það er nú bara enn lofsverðara!

Hugmyndir borgarráðs um stofnun borgargarðs (sbr. þjóðgarðs) í Elliðaárdal. Þótt ótrúlegt megi virðast stóð til að reisa slökkvistöð í dalnum, með tilheyrandi raski á byggingartíma, brunaæfingum, útköllum með sírenuvæli og hugsanlegri mengun frá bílunum, svo fátt eitt sé talið. Verði af stofnun borgargarðs dettur sjálfsagt engum framar í hug að leggja Elliðaárdalinn undir fyrirtæki eða stofnanir, hversu nauðsynleg sem sú starfsemi annars er.

Öfugmæla-lofræða Björns Vals Gíslasonar um ríkisstjórnina, þar er nú andskoti góður afrekalisti — og fyrir afrekin fær ríkisstjórnin líka lof.

Að loknum lofsyrðaaustri skal því hér fagnað að Skrúður ('skrúðgarður' er dregið af heiti hans) hefur fengið alþjóðleg verðlaun fyrir garðlist. Þetta er góð ástæða til að leggja land undir fót í sumar og skoða garðinn, sem er að Núpi í Dýrafirði.



LAST

Þingmenn stjórnarandstöðunnar almennt, en sérstaklega fyrir málþófið, vantrauststillögurnar og endalausa spádóma (nánast frá fyrsta degi) um að ríkisstjórnin væri að falla og myndi ekki lifa kjörtímabilið.

Egill Helgason sagði ekki múkk um brotthvarf Steinunnar Stefánsdóttur frá Fréttablaðinu — fyrr en tveir karlkyns blaðamenn hættu hjá blaðinu. Þá er hennar lítillega getið, körlunum hrósað í hástert „og hið sama má segja um Steinunni“.

Vigdís Hauksdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vigdís Hauksdóttir. Nú síðast fyrir þau heimskupör — í kjölfar margra annarra — að viðra þá andstyggilegu skoðun að þróunarhjálp ætti enginn að veita nema allt sé í 100% lagi heima fyrir. Væru allir sama sinnis myndi ekkert ríki veita þróunaraðstoð.

Lesa má um þróunarandstyggð Vigdísar m.a. hér og hér að viðbættum ummælum Ásgerðar Flosadóttur hjá Fjölskylduhjálpinni.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, mars 28, 2013

Að loknu þingi

Það varð ekki góður endir á þinginu. Á síðustu metrunum fór nánast allt í handaskol og mikilvæg málefni náðu ekki fram að ganga. Eins og ég hef áður sagt þá fannst mér ekki liggja lífið á að semja nýja stjórnarskrá en mér þykir samt afar leitt hvernig fór fyrir stjórnarskrármálinu, að því leyti skil ég vel sárindi Birgittu Jónsdóttur.

Persónulega fannst mér enn sárara að sjá Steingrím taka hamskiptum og hygla kjördæmi sínu á mjög opinskáan hátt — og svona rétt í kjölfarið á fréttum um Lagarfljót er helvíti hart að verið sé að höggva svo nærri Mývatni.

Vatnalögin og kvótamálið voru gríðarlega mikilvæg mál sem ekki komust í gegn, það er líka verulega svekkjandi. Ég skil vel að Jóhönnu Sigurðardóttir hafi fundist nýliðið þing vera dapurt tímabil, það var ömurlegt að horfa uppá hvernig stjórnarandstaðan hegðaði sér, eins og hún hefur reyndar gert allt kjörtímabilið.

Ríkisstjórnin gerði sitt besta að til að virða stjórnarandstöðuna og gefa henni rými, en eftirá að hyggja virðist það hafa verið mikil mistök. Í stað þess að stoppa málþóf og beita valdi og þvinga mál í gegn var sífellt reynt að tala við stjórnarandstöðuna og semja við hana eins og þar færi heiðarlegt fólk með góðan vilja. Það gekk ekki upp.

Sjálfstæðisflokkurinn, æfur yfir að vera ekki við stjórnvölinn, bakkaður upp af LÍÚ og samtökum atvinnurekenda auk allra helstu bankabófa landsins, brá fæti fyrir ríkisstjórnina ekki bara í hverju málinu á fætur öðru heldur til þess að önnur mál kæmust ekki á dagskrá. Málþófið sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt uppi með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins, sinnar helstu hækju, lamaði þingið og drap t.a.m. stjórnarskrármálið. Framsóknarflokkurinn vill auðvitað ekki jafnt vægi atkvæða eins og nýja stjórnarskráin hefði kveðið á um, Sjálfstæðisflokkurinn bregst eins og Drakúla við hvítlauksknippi þegar talað er um auðlindir í þjóðareign. Að því leyti var stjórnarskrármálið miðlægt í allri umræðu, gegn því var barist á öllum stigum málsins.

Þannig lauk þingi vetrarins og þannig lauk því kjörtímabili þar sem hér sat vinstri stjórn sem tók við skítahaug og reyndi að moka honum burt við andskotans engar undirtektir. En nú virðast kjósendur vilja — þrátt fyrir að býsnast yfir óþolandi umræðuhefð á þingi — fá þá við stjórnvölinn sem hafa haft uppi mestu gífuryrðin, þæft mál sem lengst og þvælst fyrir öllum góðum málum.

Það er, ef eitthvað er, enn dapurlegra en allt hitt.



Efnisorð: ,

þriðjudagur, mars 26, 2013

Litli dýravinurinn kætist

Mikið er nú gott og gaman að frumvarp um velferð dýra hafi verið samþykkt og sé orðið að lögum.

Fyrsta grein laganna hljóðar svo:
Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Sérstakt hrós fá Steingrímur J. Sigfússon fyrir að leggja fram frumvarpið og Ólína Þorvarðardóttir sem var framsögumaður nefndarálits atvinnuveganefndar (og skrifaði þar að auki ágætan pistil um frumvarpið undir heitinu „Dýravelferð í siðuðu samfélagi“).

Þessum lögum fagna dýravinir.

Efnisorð:

mánudagur, mars 25, 2013

Eitt eldgos, takk

Þá er komin skýrsla sem sýnir framá, sem lengi hefur verið vitað, að játningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru fengnar fram með því að beita grunaða harðræði. Skýrslan er auðvitað áfellisdómur yfir lögreglu- og fangelsisapparati síns tíma, og öllum þeim einstaklingum sem þar lögðu hönd á plóg. En ekki er skýrslan skárri vitnisburður fyrir dómskerfið — bæði þegar dómar féllu og þegar reynt var að fá málið tekið upp síðar. Þá voru allir sakborningarnir löngu búnir að segja sögu sína í fjölmiðlum og ævisögum en samt leit ríkissaksóknari og dómsmálaráðherra fram hjá því hvernig játningarnar voru fengnar.

Það er rétt hjá Illuga Jökulssyni að „Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sýndi með skipan þessa starfshóps [sem vann skýrsluna] meiri dug og djörfung en samanlagður stabbinn af dómsmálaráðherrum og öðrum viðkomandi mektarmönnum í nærri 40 ár.“

Núna liggja þeir, sem bera ábyrgð á rannsókn málsins og að hafa dæmt sakborningana eða hafnað upptöku málsins, eflaust á bæn og vona að það komi eins og eitt hressilegt eldgos svo skýrslan falli í gleymsku og verði bara enn ein skýrslan sem þvælist fyrir tímabundið.

Efnisorð: ,

sunnudagur, mars 24, 2013

Ólíku saman að jafna

Í kvöld sýndi Ríkissjónvarpið umdeildan þátt úr þáttaröðinni Höllinni (Borgen). Í þættinum var tekist á um hvort banna ætti kaup á vændi, eins og í Svíþjóð og Noregi (Ísland gleymdist) eða hvort vændi ætti að vera algerlega viðurkennd starfsgrein. Birgitte Nyborg tók í fyrstu afstöðu með banni á kaupum á vændi — sem setja átti á í kjölfarið á mansalsmáli — en eftir að hafa kynnt sér málið betur snerist hún gegn því og vildi lögleiðingu starfsgreinarinnar.

Það sem réði úrslitum var vændiskona sem var einnig talskona kynlífsstarfsmanna. Hún reyndist ágætur fulltrúi fyrir það sem stundum verið kallað „hamingjusama hóran“ — hafði sjálf valið sér starfið, fannst það jákvætt, var ekki með hverjum sem er heldur valdi úr viðskiptavinum, var ekki þolandi neinskonar ofbeldis, var ekki í dópi, hafði ekki undan neinu að kvarta. Semsagt, nokkuð hamingjusöm bara — en benti auðvitað á að hún væri ekki alltaf kát í vinnunni frekar en aðrir, svona til að slá á mýtuna um hamingjusömu hóruna.

Nema hvað, vændiskonan tók þátt í pallborðsumræðum með fólki úr ýmsum áttum sem vildi banna kaup á vændi og þar var hún algerlega töluð í kaf, reynt var að þagga niður í henni og svo voru sýndar falsaðar tölur frá einhverju vændiskvennaathvarfi sem hún ein sá í gegnum. Allt bar þetta að sama brunni: það var verið að þagga niður í talskonu vændiskvenna og sýna henni lítilsvirðingu. Að fundi loknum sagði hún að á tólf ára starfsferli sínum í vændinu hefði hún aldrei verið eins niðurlægð en „á fundinum fannst henni eins og henni hefði verið nauðgað“. Það er nú alltaf skemmtileg samlíking við hvað sem er. En þar sem hún kom með þessa „mér var sýnt yfirlæti á málþingi og það jafngildir nauðgun“ yfirlýsingu við Katrine hefði áhorfandi haldið að þaulreynda fréttakonan myndi spyrja hvort henni hefði verið nauðgað í starfi eða einhverntímann á lífsleiðinni, hvaðan hún hafði þessa samlíkingu — en nei. Þetta var skýringarlaus athugasemd í þættinum.

Þetta er bara eitt af því sem böggaði mig við þáttinn. Verra þótti mér þó hvernig vændi var látið eiga sér samsvörun í framhjáhaldi og skuldbindingalausu kynlífi. Milli þess sem rætt var um vændi á hápólitískum eða persónulegum forsendum (kærasti Birgitte Nyborg verður svo einmana á linnulausum ferðum sínum um heiminn að hann hefur „tvisvar eða svo“ keypt vændi, henni þykir það nett óþægilegt en strax á eftir finnst henni samband þeirra komið á það stig að kynna hann fyrir börnunum sínum) var verið að segja frá framhjáhaldi móður Katrinea, sýna framhjáhald Torbens Friis og Piu og síðan skuldbindingalaust kynlíf Katrine og yfirmanns hinna tveggja á sjónvarpsstöðinni. En vændiskonan sagði einmitt að þetta væri allt það sama, skuldbindingalaust kynlíf, framhjáhald og vændi, svona til að hnykkja á því að vændi er nú bara kynhegðun sem við eigum ekkert með að fordæma.

Ég hef einu sinni áður minnst á Borgen hér á blogginu, þá sagði ég að ég væri „hrikalega ánægð með þáttinn af Höllinni (Borgen) þar sem Birgitte Nyborg …“ Nú er jafn óánægð með þáttinn og ég var áður ánægð. Ég sé ekkert samasem merki milli vændis þar sem annar aðilinn á lifibrauð sitt undir því að stunda kynlíf með ókunnugum og framhjáhaldi (jafn siðferðilega vafasamt og það er) eða skuldbindingalausu kynlífi jafningja.

En mikið held ég að vændiskúnnar og aðrir andfeministar hljóti að hafa verið glaðir með þennan þátt.

___
Viðbót: Knúzið birtir þýðingu á danskri grein þar sem farið er yfir staðreyndavillur sem haldið var fram í þættinum.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, mars 21, 2013

Bakþankar og aðrir lestrarþankar

Ein ástæða þess að ég les Fréttablaðið er að mér þykir gott að lesa meðan ég maula morgunmatinn. Fréttirnar í blaðinu hafa flestar birst deginum áður á öllum fréttamiðlum á netinu en ég er sólgin í að lesa greinar og pistla af öllu tagi sem eru ýmist eftir blaðamenn, pistlahöfunda eða fólk útí bæ.

Nú berast ótt og títt fréttir af uppsögnum pistlahöfunda blaðsins og hafa Kolbeinn Proppé, Brynhildur Björnsdóttir og Sigurður Árni Þórðarsson verið látin hætta bakþankaskrifum, og er það leitt. Sigurður Árni segir í dag, í aðsendri grein, frá ástæðum þess að pistlar hans eru héreftir afþakkaðir af hálfu ritstjórnar.
„Ástæða uppsagnar var ekki að pistlar mínir væru lélegir og ekki heldur að ég væri prestur. Ástæðan var aldur minn. Blaðið þyrfti að sækja inn á æskumarkaðinn. Lesendum Fréttablaðsins í hópi 50 ára og eldri hefur fjölgað, er stærsti lesendahópurinn og er þar með mikilvægur markhópur auglýsenda. Í stað þess að styrkja þjónustuna við þetta fólk ætlar blaðið aðallega að sækja inn í æskugeirann með yngri höfundum.“
Þarna þykist ég sjá handbragð Mikaels ritstjóra og styrkir það mig í þeirri skoðun að koma hans á blaðið muni gera það verra en áður.

Fleiri ágætir pistlahöfundar hafa skrifað reglulega í blaðið (þó ekki bakþankapistla), og má þar nefna Guðmund Andra Thorsson og Jón Orm Halldórsson. Sá síðarnefndi birti í dag áhugaverða grein, eins og þessi brot sýna.
„Flestum sem fá pólitísk völd virðist koma á óvart hvað erfitt er að beita þeim til gagns. Þetta er ört að versna en er þó ekki nýtt. Möguleikar stjórnmálamanna til að ráða niðurstöðum með því valdi sem þeim er gefið hafa alltaf verið minni en mönnum er títt að ætla. Nákvæmar greiningar á liðnum atburðum leiða í ljós að viðtekin söguskoðun er oft byggð á miklum einföldunum. Samhengið á milli þess sem ráðandi menn vildu og þess sem varð er oftast flóknara og minna en viðtekin saga gefur til kynna.

Glöggir og hreinskilnir stjórnmálamenn í öllum álfum heimsins kvarta undan þessu máttleysi sín á milli, ekki síst við útlenda kollega. En einn er sá hópur sem stjórnmálamenn ræða þó ekki við um þessi vaxandi vandræði. Það eru kjósendur. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að gagnvart kjósendum verða stjórnmálamenn að sýnast þess megnugir að breyta því sem þeir lofa að breyta. Leikrit stjórnmálanna byggist á því. Kjósendur kvarta jafnan hástöfum undan litlum efndum en krefjast um leið nýrra loforða.“
Lokaorð Jóns Orms eru þessi.
„Af öllum þessum ástæðum ættu menn ekki að láta kosningar, þetta svolítið deiga verkfæri lýðræðisins, snúast um einstök mál. Þau munu hvort sem er öll fá annan endi en lofað er. Heldur ættu menn að spyrja um almenn leiðarljós fólks og flokka í þeim þétta skógi af sífellt flóknari og óvæntari álitaefnum sem fram undan er. Það skiptir kjósendur meira máli að vita hvar þeir hafa menn, svona almennt talað, en að heyra um einstaka drauma þeirra. Nákvæm fyrirheit lenda fljótt í fjallháum bunkum svikinna kosningaloforða. Almenn afstaða ræður hins vegar hvernig menn vinna úr flóknum og óvæntum málum.“

Meðan ég á von á svona lesningu við morgunverðarborðið mun ég lesa þetta annars vandræðablað.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, mars 20, 2013

Rekstrargrundvelli kippt undan okurbúllum

Á mánudag var samþykkt frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, ráðherra og fyrrverandi formanns VG, um neytendalán. Hin nýju lög setja smálánafyrirtækjum þröngar skorðar til gjaldtöku, þau mega nú aðeins rukka 10% af því sem þau gerðu áður.

Útlán — samtök fjárlánafyrirtækja án umsýslu, eða smálánafyrirtækjanna — sendi umsögn um frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar. Í henni sagði:
„Það er mat Útlána að verði sett inn ákvæði í lög um neytendalán sem kveður á um 50% hámark á árlega hluttfallstölu kostnaðar verði það til þess að smálánafyrirtækin leggist af þar sem starfsemin verður ekki lengur arðbær.“

Það sem mér hefur fundist einna ógeðlegast við smálánafyrirtækin,* fyrir utan hina gróðafíknu starfsemi þeirra, er sú staðreynd að þau spruttu upp eftir bankahrunið. Ekki nóg með að búið væri að ræna stóru bankana innanfrá heldur var tekið til við að leggjast á fólk sem hafði aldrei haft nema smápeninga milli handanna. Árangur áfram, ekkert stopp.

Ég fagna því að nú hillir loks undir að smálánafyrirtækin leggi upp laupana.

___
* Nánar má lesa um skoðun mína á smálánafyrirtækjum hér, og svo frábæra úttekt Láru Hönnu með ótal vísunum hér.


Efnisorð: ,

laugardagur, mars 16, 2013

Karlmaður, líttu þér nær

Stundum byrja ég á einhverjum ósið og á erfitt með að hætta honum. Lestur blogg.gáttarinnar er svoleiðis ósiður (lestur Fréttablaðsins er annar; hef ekki enn afþakkað það inná heimilið). Mér finnst of þægilegt að sjá í sviphendingu hvaða bloggarar hafa skrifað pistil þann daginn, í stað þess að þræða hvert og eitt blogg til að sjá hvort þau hafa verið uppfærð, og stundum rekst ég jafnvel á eitthvað áhugavert. Oft fer það samt þannig að ég verð bara pirruð á tímaeyðslunni. Þannig fór tildæmis þegar ég álpaðist til að elta fyrirsögn sem sagði: Femínistar á Íslandi vaknið!

Bloggpistilinn undir þessari fyrirsögn skrifar bloggari sem kallar sig Sleggjuna (sem ekki má rugla saman við Hvellinn, enda þótt ég lesi ekki síðuna þeirra nógu oft til að sjá mun á þeim kumpánunum) og hann hefur greinilega áhyggjur af stöðu stúlkna.

„Á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á barnsaldri neyddar í hjónaband, margar hverjar seldar eins og hver annar nautpeningur til að auka tekjur fjölskyldunnar. Þess eru dæmi að stúlkur séu barðar til dauða, þeim nauðgað eða refsað á annan grimmilegan hátt.“
Það er auðvitað jákvætt að hann beri hag stúlkna fyrir brjósti. En það er skipunin sem fylgir, sem truflar mig. Hann segir nefnilega: „Þetta er það sem femínistar skulu einbeita sér að.“

Ég get haldið langa ræðu sem svar við þessari skipun. Ekki síst vegna lokaorða Sleggjunnar þar sem hann segir: „Hverjum er ekki sama um kynfæratalningu á ritstjórastólum eða gestum í Silfur Egils þegar þetta er í gangi.“

Ræða mín myndi t.a.m. benda á að karlmenn eru sífellt að segja feministum fyrir verkum ( sbr. lið c og x hér ) — og að það sé löngu orðið þreytt að þeir skuli skipa konum fyrir verkum. Þá sé það líka afar vel þekkt smjörklípuaðferð að benda feministum á að baráttan á heimavelli sé lítilvæg miðað við alvöru vandamál í fjarlægum útlöndum. Fjarlægðin er einmitt mikilvæg, því þá telja karlmennirnir sig vera stikkfrí frá gagnrýni; það er varla hægt að kenna þeim um hvernig staða mála sé í Langtburtistan.

En nú vil ég segja þetta, við Sleggjuna og aðra þá sem finnst að okkur feministunum eigi að vera sama um það sem gerist í garðinum heima hjá okkur því það sé skógareldur hinumegin á hnettinum (og trúið mér, okkur er ekki sama um stöðu kvenna á heimsvísu):

Hvernig væri að íslenskir karlmenn gefi út yfirlýsingar, leggist í auglýsingaherferðir, eða gerist sjálfboðaliðar í því skyni að stöðva karlmenn hvar sem er í heiminum svo þeir neyði ekki stúlkur á barnsaldri til að giftast sér, selji þær, berji þær til dauða, nauðgi þeim eða refsi á annan grimmilegan hátt.

Ofbeldi gegn konum í heiminum verður ekki stöðvað nema allir karlmenn leggi sitt lóð á vogarskálarnar, líka karlmenn sem búa á Íslandi þar sem feministar leyfa sér að ræða stöðu kvenna á fjölmiðlum.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, mars 13, 2013

Falskar nauðgunarkærur

Mér var bent á ansi áhugaverðan málflutning karlmanns sem er mjög umhugað um að véfengja nauðgunarkærur sem konur leggja fram. Ríkharður Egilsson sendir inn slóðir á þrettán fréttir um falskar nauðgunarkærur sem svar við greinarstúf sem kynntur er með þessum orðum:
„Mörgum er kappsmál að halda því á lofti að þolendur séu líklega að ljúga. Það er ekki öfundsverð lífshugsjón og baráttumál.“
Það er eins og Ríkharður skilji ekki sneiðina.

Fyrir þau sem ekki nenntu að lesa allar greinarnar sem Ríkharður vísaði á hef ég tekið saman helstu atriði þeirra. Ég get ennfremur sparað ykkur þann lestur með því að segja strax að niðurstaðan er ekki sú að fjölmargir karlmenn sitji saklausir í fangelsi (en því halda andfeministar fram og vilja heldur að 99 sekir menn gangi lausir og finnst það góð röksemd fyrir því að dæma enga karla). Hinsvegar er það rétt að Ríkharður fann 13 dæmi um konur sem hafa á undanförnum fimm árum verið sakaðar um að leggja fram falskar nauðgunarkærur, 7 þeirra hafa hlotið dóm fyrir vikið. Hér er reyndar ekki um tölfræðilega úttekt mína á fölskum nauðgunarkærum á heimsvísu — en Ríkharður leitaði fanga í fréttum úr fjórum heimsálfum — heldur niðurstaða úr þeim fréttum sem Ríkharður viðraði sem sönnun fyrir því að „þolendur væru líklega að ljúga“.

Það virðist engu skipta fyrir Ríkharð hvort nauðgunarkærurnar enda með dómi fyrir þá sem eru ranglega ásakaðir (sem gerist ekki oft samkvæmt fréttum Ríkharðs, hann fann ekki nema tvö slík dæmi) heldur spyr: „er ykkur virkilega alveg sama þó saklausir menn sitji í Fangelsi?“ Svar: þeir gera það bara ekki, ekki nema í örfáum undantekningartilvikum en aftur á móti gufar stór hluti nauðgunarkæra upp í kerfinu (ætli þær fari til nauðgunarkæru-heaven?) og sakfellingar eru mjög fáar.

En skoðum dæmin sem Ríkharður framvísaði.

Bretland, 6. ágúst 2008: 13 ára stelpa lagði fram kæru á hendur karlmanni sem sat inni í ár. Hún hafði áður kært karlmenn (ótilgreindan fjölda manna) fyrir sömu sakir.

Bandaríkin, 29. september 2008: Kona kærði tvo menn með nokkurra ára millibili. Annar hafði þegar afplánað nærri 4 ár (af 6-12 ára dómi) þegar í ljós kom að hin ákæran var uppspuni. Konan ekki nafngreind.

Bretland, 23. desember 2008: Kona dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að eyða tíma og mannafla lögreglu í að rannsaka kærur sem hún lagði fram um m.a. mannrán, nauðgun og fjárkúgun. Hún er nafngreind.

Gríska eyjan Kos, 9. ágúst 2010: Sænsk kona virðist hafa leikið þann leik að leggja fram kærur á hendur karlmönnum og hirða tryggingafé (hún er kölluð 'con artist' í fréttinni) , hún hefur ekki fundist. Tekið er fram að einn þeirra fjögurra Breta sem lentu í klóm hennar hafi setið í varðhaldi. Grískur lögreglumaður nefnir það sérstaklega að breskir karlmenn séu oft handteknir fyrir slíkar sakir.

Bretland, 5. nóvember 2010: Kona fær 16 mánaða fangelsdóm fyrir að eyða tíma og mannafla lögreglu. Hún virðist ekki hafa bent á neinn sérstakan en einn maður tekinn til yfirheyrslu. Konan er nafngreind.

Bretland, 20. nóvember 2010: Kona hefur lagt fram átta upplognar kærur á jafnmarga karlmenn, fjórir þeirra voru leiddir fyrir dómstóla og voru sýknaðir, einn (þeirra?) var sakfelldur fyrir líkamsárás. Konan fékk 12 mánaða skilorðsbundin dóm, sérstaklega er tekið fram að hún eigi við andlega örðugleika að stríða. Hún er nafngreind.

Bandaríkin, 14. september 2011: Kona tilkynnti nauðgun, benti ekki á neinn geranda. Lögregla eyddi þremur vikum í umfangsmikla rannsókn en þá játaði konan að hafa spunnið söguna upp. Hún var kærð og dæmd í þriggja ára skilorð auk samfélagsþjónustu. Konan er nafngreind í fréttinni. [Viðbót:] Tekið er fram við hvað konan starfaði og að ferill hennar sé í rúst.

Bandaríkin, 26. júní 2012: Karlmaður sat í varðhaldi í tvo mánuði vegna upploginna saka, hann lögsótti svo lögreglukonu persónulega fyrir handtökuna og krafðist fébóta. Ekkert mál virðist vera í gangi gegn konunni sem kærði hann og ku stunda að kæra menn ranglega fyrir kynferðisbrot.

Bretland, 25. ágúst 2012: Kona kærði nauðgun og kærði síðar kærasta sinn fyrir ofbeldi, báðar kærur uppspunnar. Tekið er fram að nauðgunarkæran leiddi til handtöku og yfirheyrslu. Konan fékk dóma fyrir bæði brotin og er nafngreind í fréttinni.

Bretland, 26. febrúar 2013: Kona dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að leggja fram alls ellefu tilhæfulausar kærur. Enginn virðist hafa verið kærður eða dæmdur í kjölfarið, en tekið er fram að einn maður hafi verið handtekinn og yfirheyrður.

Bretland, 4. mars 2013: Kona fær 15 mánaða dóm fyrir að afvegaleiða lögregluna með því að halda því fram m.a. að innbrotsþjófur hefði nauðgað sér og misþyrmt. Karlmaður var handtekinn vegna þess að hann passaði við lýsingar hennar (hún ásakaði hann semsagt ekki beint), hann hafður í varðhaldi en sleppt. Konan er nafngreind.

Nýja Sjáland, 6. mars 2013: Kona saksótt fyrir falskar kærur, ekki nefnt að neinn hafi verið handtekinn eða fangelsaður.

Indland, 12. mars 2013: Almennt um að lögregla í borginni Ludhina á Indlandi kvarti undan því að nú hellist yfir allskyns upplognar kærur, þ.á m. um nauðgun, mannrán og þjófnað, í kjölfar hópnauðgunarmálsins alræmda. Engar tölur um nauðgunarkærur sérstaklega.

Niðurstaða: Tveir menn fangelsaðir, einn í löngu varðhaldi. Sumar nauðgunarkærurnar virðast ekki einu sinni hafa gengið út á að benda á neinn sérstakan mann sem geranda í málinu.

Það að einhver saki einhvern ranglega um nauðgun er auðvitað alvarlegt mál, bæði fyrir þann sem er ásakaður og samfélagið (sem ber kostnað af tilgangslausum rannsóknum). En ekki síst grafa falskar kærur undan trúverðugleika allra brotaþola. Það breytir samt ekki því að það er afar afar sjaldgæft að slíkar kærur endi með sakfellingu saklausra manna og þeir lendi í fangelsi. Nógu sjaldan er nú sakfellt í nauðgunarmálum til að það gefur auga leið að það gerist ekki oft.

Í grein eftir Önnu Bentínu Hermansen kom fram að „nýleg evrópsk rannsókn sýnir að að 2-9% kynferðisbrotamála, eru byggð á röngum sakagiftum sem er sambærilegt við aðra brotaflokka. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarmóttöku vegna nauðgana í Fossvogi eru 1-2% þeirra mála sem þangað berast byggð á fölskum grunni.“

Semsagt: fáar konur sjá nauðgara sína fá dóm, fáir menn sem eru kærðir fyrir nauðgun eru dæmdir, örfáir eru ranglega ásakaðir og enn færri ranglega dæmdir.

En — eins og sagði í aðfararorðunum sem vitnað var til hér að framan:

„Mörgum er kappsmál að halda því á lofti að þolendur séu líklega að ljúga“.

Efnisorð: , ,

mánudagur, mars 11, 2013

Lof og last

LOF

Lof fá Bændasamtök Íslands sem kusu sér nýja stjórn á dögunum og eru konur nú í meirihluta í stjórninni.

Lof fær Ríkissjónvarpið fyrir að bregðast skjótt við og sýna hina splúnkunýju kynfræðslumynd Fáðu já, og að efna til fjölbreytilegrar umræðu um myndina í Kastljósinu kvöldið eftir.

Lof fá Sigfríður Inga Karlsdóttir og Kristín Sigfúsdóttir sem skrifuðu ágæta hugleiðingu um skapabarmaaðgerðir.

Lof fær Kristín I Pálsdóttir fyrir dúndurgóða ræðu á stofnfundi Rótarinnar - félags um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda.

Lof fær ríkisstjórnin fyrir að senda tvo ráðherra til Færeyja til að þakka Færeyingum aðstoðina hér um árið þegar mest á reið.


LAST

Tregða Seðlabankans við að afhenda hljóðritað samtal eða útskrift af því svo að í það minnsta þingmenn (það ætti auðvitað að vera birt í fjölmiðlum) viti hvað Davíð og Geir fór á milli 6. október 2008 þegar Davíð lét Kaupþing fá 500 milljónir evra — sem síðan hefur ekkert spurst til. Í Seðlabankanum er hvorki til lánasamningur né skjöl sem skýra lánveitinguna og ekkert finnst skjalfest í Kaupþingi (tætarar voru mest keypta jólagjöfin árið 2008).

Gerð er teiknimynd um lóuunga og þá er hann auðvitað karlkyns og heitir Lói! (Auðvitað alltof langsótt að lóuungi heiti Lóa.) Framleiðendurnir hafa líklega ekki treyst því að þeir fengju leikkonur til að annast talsetninguna, þær eru víst svo rosalega bissí að leika í íslenskum kvikmyndum.

Last dagsins fær svo Þór Saari fyrir að eyða 5 klukkustundum af naumum og dýrmætum tíma þingsins í tómt rugl.

Efnisorð: , , , , , ,

sunnudagur, mars 10, 2013

Fréttir fyrir okkur öll

Það eru verulega góð tíðindi að fréttir og fréttatengdir þættir Ríkissjónvarpsins verði héreftir með texta.

Nú loksins verða sjónvarpsfréttirnar fyrir okkur öll.


Efnisorð:

föstudagur, mars 08, 2013

Hvað er málið með fóstureyðingar?

Eitt af fjölmörgum baráttumálum kvenna* um allan heim er rétturinn til að hafa stjórn á frjósemi sinni. Andstæðingarnir koma flestir úr röðum heittrúaðra sem telja það skyldu kvenna að eignast sem flest börn, og eru því jafnt á móti fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Hér á landi höfum við aðgang að hvoru tveggja og sjaldan heyrast raddir sem vilja taka af konum réttinn til fóstureyðinga.

Þessvegna varð ég mjög hissa þegar Sölvi Tryggvason tók fóstureyðingar fyrir í Málinu. Þátturinn hefur af og til vakið athygli út fyrir áhorfendahóp Skjáseins, eins og þegar Sölvi lokkaði barnaníðinga úr felum. Það sem af er þessa árs hafa umfjöllunarefnin verið: útigangsmenn, undirheimar, barnaníð og fóstureyðingar.

Ég verð að segja að ég skil ekki alveg forsendurnar fyrir því að hafa fóstureyðingar með í þessum pakka. Eru fóstureyðingar vandamál á borð við að fólk sé á götunni? Er það samfélagsmein sem þarf að uppræta eins og barnaníð? Eða hvað er það sem Sölvi vildi vekja athygli á?

Hafi þátturinn átt að vekja umræðu í samfélaginu — á forsendum samfélagsmeins og einhvers sem þarf að uppræta — þá virðist það hafa mistekist. Ég sá hann ekki sjálf (hef ekki aðgang að Skjáeinum) en með gúggli fann ég bara einn vettvang þar sem þátturinn var ræddur: bland.is.

Skrifað var um þáttinn á umræðuþræði meðan á þættinum stóð og eitthvað eftir að sýningu lauk og sé að marka frásagnir þar þá var mjög mikil slagsíða á viðmælendum þeim sem Sölvi valdi til að koma fram í þættinum. Talað var við fjórar manneskjur sem voru mjög neikvæðar gegn fóstureyðingum en tvær manneskjur sem voru hlynntar þeim. Þetta er reyndar allt og sumt sem ég veit um þáttinn en það gefur vísbendingu um að Sölvi hafi með vali sínu á viðmælendum viljað leggja lóð á vogarskálar andstæðinga fóstureyðinga.*

Hvaða skaðræðislega samfélagsvandamál ætli hann taki fyrir næst, getnaðarvarnir?

___
* Til mótvægis bendi ég því á pistla sem ég hef skrifað um fóstureyðingar, ég hef áður vísað á þessa pistla og á eflaust eftir að gera það oftar.

Réttur kvenna til að eyða fóstri

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum

Fóstureyðingar verða að vera löglegar

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)

Fóstureyðing eða ættleiðing

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?

Allskonar konur fara í fóstureyðingu

Fóstur finna ekki til sársauka

Börn að ala upp börn

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, mars 06, 2013

Steinunn Stefánsdóttir hættir á Fréttablaðinu

Margoft hef ég vitnað í leiðara Steinunnar Stefánsdóttur og jafnvel birt þá í heilu lagi eða lítið stytta.* Eitt sinn skrifaði ég að mér fyndist að Steinunn ætti að skrifa alla leiðara Fréttablaðsins, enda hefur hún haldið á lofti feminískum sjónarmiðum í leiðurum sínum.

En nú er búið með að Steinunn skrifi leiðara Fréttablaðins. Hún hefur verið látin taka pokann sinn** og í stað hennar kemur Mikael Torfason. Mikael Torfason! Þetta eru vond, verri, verstu umskipti sem ég hef heyrt um lengi.

Ekki veit ég hvar Steinunni ber niður næst, en vonandi verður það vettvangur sem sæmir henni og hennar ágætu skrifum. Ég þakka henni ánægjulegan lestur og óska henni velfarnaðar.

___
* Alls hef ég vísað í tólf leiðara Steinunnar með einum eða öðrum hætti (það vill svo til að hún hefur starfað í tólf ár á Fréttablaðinu), hér eru nokkrir þeirra eins og þeir hafa birst hér á blogginu.

2.desember 2008: Launamunur kynja er úreltur
11. mars 2009: Þegar vopnin snúast í höndunum
24. október 2009: Eftirspurn kallar á framboð
28. nóvember 2009: Nauðgun án frekari valdbeitingar
2. apríl 2010: Þrír mikilvægir áfangar
25. október 2010: Þess vegna kvennafrí
2. ágúst 2011: Hér eru allir mjög sáttir.

** Hér verður ekki farið útí þá sálma að ræða stöðu kvenna sem starfa í fjölmiðlum, fjölda þeirra og átakanlegan skort á þeim í ritstjóra og fréttastjórastöðum, enda þótt það væri viðeigandi.

Efnisorð: ,

mánudagur, mars 04, 2013

Sérstaða kvenna í áfengis- og vímuefnavanda

Án þess að ég ætli að leggja mat á orsakir þess að kvenfélag SÁÁ hefur sagt skilið við SÁÁ (og stofnað í staðinn Rótina - félag um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda), eða nenna að elta ólar við „iss, við þurfum ekkert svona fólk“ kveðjurnar frá Gunnari Smára formanni SÁÁ, verð ég að segja að mér finnst afar áhugavert að lesa greinargerðina þeirra um konur, fíkn og ofbeldi. Af lestri hennar er ljóst að það verður að gefa konum kost á að fara í kynjaskipta meðferð (sem er ekki í boði á Vogi) þar sem þær eiga ekki á hættu að verða fyrir áreiti eða mæta ofbeldismönnum sínum (sbr. bls. 11 í greinargerðinni).

Enda þótt SÁÁ hafi án nokkurs vafa bjargað mörgum mannslífum má ekki gleyma sérstöðu kvenna í meðferðarstarfinu og að þær komi í ríkari mæli að stjórn samtakanna.

Óskandi er að Rótin - félag um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda komi af stað vitundarvakningu sem mun hafa áhrif jafnt í samfélaginu sem og á samherja þeirra í SÁÁ.

___
Viðbót: Hér má lesa ræðu sem flutt var á stofnfundi Rótarinnar.

Efnisorð: ,

laugardagur, mars 02, 2013

Skotheldur sunnudagur

Oft er erfitt að vita hvernig verja skal helginni. Þessi helgi er þó algjör undantekning því um leið og ég frétti af byssusýningunni í Veiðisafninu á Stokkseyri vissi ég hvert halda skyldi. Að vísu klúðraði ég því að mæta í dag, en á morgun skal ég sko aldeilis fara og viðra mig í góðum félagsskap.

Mér finnst líka bara svo jákvætt að fara á byssusýningu hjá manni sem einn góðan veðurdag gerðist svo „skotglaður“ að kallað var á lögreglu til að afvopna hann á heimili hans (sem er í sama húsi og veiðisafnið). Þá var hann sviptur byssuleyfi — en alls átti hann um níutíu byssur. Nú er hann talinn slík fyrirmynd skotveiðimanna að Vesturröst, sem selur skotveiðimönnum byssur og skotfæri, sér ástæðu til að eiga við hann samvinnu um þessa sýningu á vopnum hjá honum.

Við förum auðvitað til Stokkseyrar á morgun og njótum sunnudagsins í félagsskap manna sem drepa dýr sér til skemmtunar og hafa í heiðri dýróða byssumenn. Þetta verður góður dagur.

Efnisorð: ,