sunnudagur, mars 24, 2013

Ólíku saman að jafna

Í kvöld sýndi Ríkissjónvarpið umdeildan þátt úr þáttaröðinni Höllinni (Borgen). Í þættinum var tekist á um hvort banna ætti kaup á vændi, eins og í Svíþjóð og Noregi (Ísland gleymdist) eða hvort vændi ætti að vera algerlega viðurkennd starfsgrein. Birgitte Nyborg tók í fyrstu afstöðu með banni á kaupum á vændi — sem setja átti á í kjölfarið á mansalsmáli — en eftir að hafa kynnt sér málið betur snerist hún gegn því og vildi lögleiðingu starfsgreinarinnar.

Það sem réði úrslitum var vændiskona sem var einnig talskona kynlífsstarfsmanna. Hún reyndist ágætur fulltrúi fyrir það sem stundum verið kallað „hamingjusama hóran“ — hafði sjálf valið sér starfið, fannst það jákvætt, var ekki með hverjum sem er heldur valdi úr viðskiptavinum, var ekki þolandi neinskonar ofbeldis, var ekki í dópi, hafði ekki undan neinu að kvarta. Semsagt, nokkuð hamingjusöm bara — en benti auðvitað á að hún væri ekki alltaf kát í vinnunni frekar en aðrir, svona til að slá á mýtuna um hamingjusömu hóruna.

Nema hvað, vændiskonan tók þátt í pallborðsumræðum með fólki úr ýmsum áttum sem vildi banna kaup á vændi og þar var hún algerlega töluð í kaf, reynt var að þagga niður í henni og svo voru sýndar falsaðar tölur frá einhverju vændiskvennaathvarfi sem hún ein sá í gegnum. Allt bar þetta að sama brunni: það var verið að þagga niður í talskonu vændiskvenna og sýna henni lítilsvirðingu. Að fundi loknum sagði hún að á tólf ára starfsferli sínum í vændinu hefði hún aldrei verið eins niðurlægð en „á fundinum fannst henni eins og henni hefði verið nauðgað“. Það er nú alltaf skemmtileg samlíking við hvað sem er. En þar sem hún kom með þessa „mér var sýnt yfirlæti á málþingi og það jafngildir nauðgun“ yfirlýsingu við Katrine hefði áhorfandi haldið að þaulreynda fréttakonan myndi spyrja hvort henni hefði verið nauðgað í starfi eða einhverntímann á lífsleiðinni, hvaðan hún hafði þessa samlíkingu — en nei. Þetta var skýringarlaus athugasemd í þættinum.

Þetta er bara eitt af því sem böggaði mig við þáttinn. Verra þótti mér þó hvernig vændi var látið eiga sér samsvörun í framhjáhaldi og skuldbindingalausu kynlífi. Milli þess sem rætt var um vændi á hápólitískum eða persónulegum forsendum (kærasti Birgitte Nyborg verður svo einmana á linnulausum ferðum sínum um heiminn að hann hefur „tvisvar eða svo“ keypt vændi, henni þykir það nett óþægilegt en strax á eftir finnst henni samband þeirra komið á það stig að kynna hann fyrir börnunum sínum) var verið að segja frá framhjáhaldi móður Katrinea, sýna framhjáhald Torbens Friis og Piu og síðan skuldbindingalaust kynlíf Katrine og yfirmanns hinna tveggja á sjónvarpsstöðinni. En vændiskonan sagði einmitt að þetta væri allt það sama, skuldbindingalaust kynlíf, framhjáhald og vændi, svona til að hnykkja á því að vændi er nú bara kynhegðun sem við eigum ekkert með að fordæma.

Ég hef einu sinni áður minnst á Borgen hér á blogginu, þá sagði ég að ég væri „hrikalega ánægð með þáttinn af Höllinni (Borgen) þar sem Birgitte Nyborg …“ Nú er jafn óánægð með þáttinn og ég var áður ánægð. Ég sé ekkert samasem merki milli vændis þar sem annar aðilinn á lifibrauð sitt undir því að stunda kynlíf með ókunnugum og framhjáhaldi (jafn siðferðilega vafasamt og það er) eða skuldbindingalausu kynlífi jafningja.

En mikið held ég að vændiskúnnar og aðrir andfeministar hljóti að hafa verið glaðir með þennan þátt.

___
Viðbót: Knúzið birtir þýðingu á danskri grein þar sem farið er yfir staðreyndavillur sem haldið var fram í þættinum.

Efnisorð: ,