fimmtudagur, júní 21, 2012

Hin grænlenska þjóð

Þegar við tölum um nágrannaþjóðir okkar með velþóknun erum við aldrei að tala um Grænlendinga. Það er merkilegt við okkur Íslendinga að við gerum grín að Færeyingum fyrir hve skringilega þeir tala en við gjörsamlega fyrirlítum Grænlendinga.* Það er mjög auðvelt að kenna drykkju og félagslegum vandamálum um hve Íslendingar líta niður á Grænlendinga en ég held að ástæðan sé hreinn og beinn rasismi. Hér áður meðan við bjuggum enn í torfkofum kölluðum við þá skrælingja og þóttumst betri en þeir. Vorum við þó þegnar Danakonungs rétt eins og þeir og jafn fátæk. En það virðist sem okkur líði betur að hafa einhvern til að líta niður á og Grænlendingar hafa fengið það hlutverk.

Ég man eftir að hafa heyrt ferlega skrítnar og ógeðslegar lýsingar á grænlenskum konum** þegar ég var krakki og unglingur. Ég reyndi alltaf að andæfa þessu en skorti rök. Það kom mér hálfpartinn á óvart þegar ég prófaði (hikandi og varlega) hvort ég fyndi slíkar sögur með gúggli en engar komu í ljós. Þó leið ekki á löngu þar til ég fann fullyrðingar um lauslæti grænlenskra kvenna sem virðist eiga að vera eitthvert séreinkenni þeirra umfram aðrar konur (samt er það líka sagt um íslenskar konur og sænskar konur og … ).

Ég var hrikalega ánægð með þáttinn af Höllinni (Borgen) þar sem Birgitte Nyborg heimsækir Grænland og Jens Enok tekur hana á beinið. Þar fengu Danir — og við hin — að sjá hvernig málin blasa við frá grænlensku sjónarhorni.*** Við mættum gera meira af því að reyna að setja okkur inn í þeirra viðhorf frekar en dæma þá alla útfrá þeim félagslegu vandamálum sem þeir eiga við að stríða. Eða það sem verra er, útfrá útliti þeirra.
___
* Hér er bloggpistill sem fjallar um viðhorf Íslendinga til Grænlendinga. Síðasti hluti hans er helst til glannalegur, þar sem alið er á fordómunum heldur en hitt, en ég held (vona) að hann sé skrifaður í hálfkæringi. Háðið á líklega frekar að beinast að Íslendingum en Grænlendingum.
**Ég læt nægja hér að vera með hálfkveðnar vísur, hef ekki áhuga á að segja hreint út hvað ég er að tala um en eflaust vita einhverjir lesendur við hvað er átt.
*** Það grænlenska sjónarhorn vissulega kom gegnum danska handritshöfunda, en ég trúi því að þeir hafi vandað sig.


Skrifað á þjóðhátíðardegi Grænlendinga.

Efnisorð: , ,