sunnudagur, júní 17, 2012

Svo flýgur hver sem hann er fiðraður


Guðbergur Bergsson hefur lengi verið þekktur fyrir kvenhatur sitt. Í raun ætti myndaalbúmið Karlar sem hata konur að skarta mynd af honum efst, sem stöðuga áminningu um áratuga fúkyrðaflaum hans í garð kvenna. Ég hef reyndar ekki safnað saman ummælum hans en það væri verðugt viðfangsefni. Þau er að finna í bókum hans (sem ég hef fæstar lesið enda þoli ég höfundinn ekki) en ekki síður í margskonar pistlum sem hann hefur birt á opinberum vettvangi. Það er því engin nýlunda að sjá hroðann sem hann lætur útúr sér og DV hefur eftir honum. Þar hrakyrðir hann feminista og konur sem eru þolendur nauðgana. Guðbergur heldur því meira segja fram að stúlkan sem kærði Egil Gillzenegger Einarsson hafi heimtað „hjónaband eða pening“, sem er fjarri sanni.

Guðbergur segir að auki 'skemmtisögu' af föður sem atyrðir dóttur sína fyrir að gráta undan karlmanni sem hún virðist hafa sagt föður sínum að hafi nauðgað sér. Þetta er auðvitað bara ógeðslegt. En Guðbergur er ekki bara að pönkast á feministum og fórnarlömbum kynferðisofbeldis heldur mærir hann Gillzenegger sérstaklega, enda virðast eiga þeir viðhorf til kvenna sameiginlegt. Þá lætur Guðbergur sem feministar hafi verið andsnúnar símaskránni vegna nauðgunarkærunnar á hendur Agli.* Það er hinsvegar fyrst og fremst vegna ógeðslegra ummæla Egils Gillzeneggers um nafngreinda feminista** sem hann er fyrirlitinn, þó nauðgunarkæran hafi ekki bætt úr skák.


Ríkissaksóknari hefur, með réttu eða röngu, ákveðið að sækja ekki Egil Gillzenegger Einarsson til saka fyrir nauðgun þá sem hann var kærður fyrir í desember síðastliðnum.*** Miðað við lýsingar DV á áverkum og aðgerð sem stúlkan þurfti að gangast undir er óskiljanlegt að ekki sé farið með málið fyrir dómstóla. Nauðgunarkærur einkennast oftast af því að nauðgari og fórnarlamb segja sitthvora söguna. Í þessu tilviki eru framburðir tveggja, Egils og kærustu hans, á móti orðum stúlkunnar einnar. Það má vera að þeirra saga sé samhæfð en hennar ruglingsleg. Einu skiptin sem ég man eftir að sakfellt sé í nauðgunarmálum þarsem fleiri en einn gerandi á hlut að máli er þegar þeir eru útlendingar; þá eru þeir umsvifalaust ómarktækari og fá að auki þyngri dóma en bláeygðir og ljóshærðir íslenskir strákar.

Að því gefnu að DV hafi ekki logið til um ákverkana og aðgerðina (sem í huga flestra gerði útslagið, ekki bara hver var kærður) þá gæti hér verið enn eitt dæmið um að menn komist upp með nauðgun. Enginn getur haldið því fram að Egill hafi verið sýknaður með dómi, málið komst ekki svo langt. Ég veit ekki frekar en aðrir hvort hann nauðgaði stelpunni, en sé tekið mið af lýsingum DV er það líklegra en ekki. Eftir stendur þetta: Hvort sem hann nauðgaði henni eða ekki — eða hefur nauðgað mörgum stelpum — hefur hann fyrir löngu uppskorið fyrirlitningu og hatur vegna orða sinna í garð kvenna. Þessvegna er Egill Einarsson og verður ávallt skíthæll og ógeð.

Verði Guðbergi að góðu að þykja Egill Gillzenegger Einarsson „glæsilegur strákur, eðlisgreindur, fyndinn og gull af manni “. Þó nauðgunarkæran á hendur Agli hafi verið felld niður er sá jafn andstyggilegur í mínum augum, og þeir reyndar báðir.

___
* Líklega bættust margir í hóp þeirra sem hafa horn í síðu Egils Gillzeneggers vegna nauðgunarkærunnar en símaskráin var umdeild strax í maí í fyrra, nauðgunarmálið komst í hámæli í desember.
** Drífa Snædal tók ummælin saman og þau voru svo myndgerð hjá Smugunni.
*** Mér er ekki alveg ljóst hvort nauðgunarkæran sem kom fram í febrúar á þessu ári og snerist um eldra mál verður líka látin falla niður.

Efnisorð: , , ,