þriðjudagur, júní 05, 2012

Sollurinn fyrir sunnan

Áhugavert viðtal við brottfluttan landsbyggðarmann* rifjaði upp fyrir mér samtal sem ég átti fyrir nokkrum árum um hvítasunnu- eða verslunarmannahelgi, ég man ekki hvort. Þá var verið að ræða hve margt fólk væri í Reykjavík — eða öllu heldur fátt fólk. Kunningi minn benti á að íbúatala borgarinnar þessa helgi væri því sem næst sú sama og hún væri ef allt landsbyggðarfólkið hefði ekki flykkst á mölina undanfarin ár.

Eflaust er hægt að sjá um þetta tölur hjá Hagstofunni en það gæti verið áhugavert að sjá hverfaskiptingu eftir uppruna íbúanna. Brottfluttir Tálknfirðingar væru í neðra-Breiðholti, Húsvíkingar, Ísfirðingar í Grafarvogi ogsvoframvegis (hér eru Kópavogur og Hafnarfjörður ekki tekin með í myndina enda þótt fjölmargir utan af landi búi auðvitað vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið). Hve mörg úthverfi yrðu eingöngu byggð fólki sem flúði heimkynni sín þegar kvótinn var seldur burt? Hve mörg hverfi hefðu tæmst þegar brottfluttir Austfirðingar sneru glaðir aftur í heimahagana þegar hið öllubjargandi álver á Reyðarfirði var reist?

Ekki væri síður áhugavert ef gerð væri ítarleg könnun á viðhorfi til stjórnarskrárbreytinga og stjórnmála eftir uppruna fólks. Kjósa bændur sem brugðið hafa búi áfram sjálfkrafa Framsóknarflokkinn? Eru kvótaflóttamenn hlynntir breytingum á kvótaúthlutun og veiðigjaldi eða staðfastir taglhnýtingar LÍÚ? Hvernig verður Vestfirðingum við að missa hið mikla áhrifavald atkvæðis síns?**

Finnst aðfluttum Reykvíkingum þeir í rauninni finna fyrir að innfæddir Reykvíkingar hafi sífellt hagsmuni höfuðborgarinnar í huga þegar það talar um landsbyggðina eða málefni henni tengdar? Hvernig endurspeglar það atkvæði hinna aðfluttu, og hvenær fara þeir að kjósa 'gegn landbyggðinni' eins og innfæddir? Aðfluttir borgarbúar eru stór hluti þeirra sem nú eru ásakaðir um að vera í herferð gegn landsbyggðinni, — varð þetta fólk óvinurinn um leið og það setti nafn sitt á dyrabjöllu sunnan heiða?

Og síðast en ekki síst, verður fólk fyrir hugarfarsbreytingu við að setjast inn á kaffihús í 101 Reykjavík og drekka þar einn bolla af latte, eða liðkar það fyrir gagnrýnni hugsun að vera ekki lengur háð*** þeim einhæfu atvinnuhagsmunum sem einkenna heimahagana?
___
* Ellert Grétarsson bjó á Egilsstöðum og „hneykslaðist á lattelepjandi lopapeysukommum sem vildu helst að við lifðum á fjallagrösum og ljóðagerð“. Hann flutti suður árið 2006 og ári síðar breyttist hann „úr hægri sinnuðum vikjanaaðdáanda í vinstri sinnaðan náttúruverndarmann“. (Þetta er endursögn, viðtalið má lesa hér).
** Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokks sagði nýlega að hann myndi „aldrei nokkurn tímann samþykkja jafnt atkvæðavægi á meðan það er jafn vitlaust gefið í þessu samfélagi og nú er.“ Honum virðist reyndar sjást yfir hve vitlaust er gefið með því að atkvæði allra gildi ekki jafnt, en hvaða máli skiptir það þegar menn eru þingmenn Norðvesturkjördæmis þar sem eingöngu þarf 2366 manns til að koma Framsóknarmanni á þing (í Reykjavík þyrfti 3977 manns til þess).
*** Ég bætti við hlekk á blogg Birgis Kristbjarnar Haukssonar eftir að hafa lesið um hann hjá Illuga. Hann er úr plássi þar sem hann var til sjós hjá stærstu útgerðaraðilunum og segir að „það hefði ekki hvarflað að manni að gagnrýna eitt né annað opinberlega“, en nú vandar hann sægreifum ekki kveðjurnar.
Viðbót: Lára Hanna hefur myndskreytt, bætt við tenglum og fjallað um bloggfærslu Birgis hjá sér og hafi hún mikla þökk fyrir. Ef fólk er enn ekki búið að lesa það sem sjómaðurinn sagði í bloggi sínu er það í læsilegasta forminu hjá Láru Hönnu.

Efnisorð: