þriðjudagur, maí 29, 2012

Fantasíur kvenna markaðsvæddar með vafasömum hætti

Það hefði verið gaman að geta verið jákvæð í garð þess framtaks sem hefur það að markmiði að konur njóti kynfrelsis síns og kynlífs og skammast sín ekki fyrir kynferðislegar fantasíuhugsanir. En því miður eru nokkrir gallar á framkvæmdinni. Gísli Ásgeirsson hefur bent á fjárhagslegu hliðina; að bókaútgefandinn og konan sem safnar sögunum saman muni hirða arðinn en höfundar kynórasagnanna fái ekkert fyrir framlag sitt.* Það kemur auðvitað m.a. til af því að nafnleysi höfundanna verður svo gríðarlegt að enginn fær að vita hverjir skrifa sögurnar.

Gallinn við það fyrirkomulag, að sögurnar séu sendar inn nafnlaust án þess að grennslast sé fyrir hver skrifar þær, er augljós: Karlmenn geta sent inn sögur undir því yfirskini að þær séu eftir konur.** Það er ekki „bara fallegt“ ef karlar semja sögur og senda þær inn. Það er í beinni andstöðu við það markmið að „konur geti notið kynferðislegs efnis á sínum forsendum og ekki neinna annarra“ og að sögurnar hafi verið „verndaðar innan ímyndunarafls“ kvenna.

Ef fantasíurnar eiga að vera „sannar“ eins og Hildur fer fram á, er algerlega nauðsynlegt að hún sannreyni hverjir höfundarnir eru. Það má vel vera að kynórar karla og kvenna skarist á einhverjum sviðum en ef karlar skrifa kynóra kvenna þá er það ekkert annað en fölsun.*** Ég get ekki ímyndað mér annað en það kæmi útúr því skrumskæling á kynlífi sem hefði beina vísun í misjafnlega geðslega hugaróra karla, sem meira og minna eru sprottnir úr klámi.

Ef nú Hildur væri bara að safna þessu á netsíðu eða hygðist gera rannsókn gegndi allt öðru máli. En sögurnar eiga að vera söluvara. Og ég fer aldrei ofan af þeirri skoðun að þegar kynlíf er til sölu — hvort sem það er ljósmyndað, teiknað, kvikmyndað eða skrifað — er klám. Það gefur því auga leið að ég er hreint ekki hrifin af þessu framtaki.

___
* Ef svo fer, eins og Gísli spáir, að aðeins fáar sögur berist og fyllt verður uppí með þýddum sögum (að hætti Bleikt.is), þá er um leið gert verulega lítið úr þeim fáu konum sem þó sendu inn sögur í góðri trú og af fyllstu einlægni.

** Hvenig litist körlum á ef ég þættist vera karlmaður og sendi inn sögur í bók um kynóra karla?

*** Útafþví að ég minntist á Druslubókabloggið í síðasta pistli þá rifjast upp fyrir mér að í eina skiptið sem umræður þar hafa ekki verið skemmtilegar og uppbyggilegar var þegar Kristín Svava Tómasdóttir skrifaði ansi vandaðan pistill um bókina Lolitu (mér er reyndar meinilla við þá bók) þar sem hún útskýrir hvað á sér í rauninni stað í bókinni, þ.e.a.s. þar lendir 12 ára stúlkubarn í klónum á barnaníðingi. Í athugasemdakerfinu bar svo við að einhver sem skrifaði undir nafninu Kristinn hafði sitthvað við pistilinn um Lolitu að athuga. Svo virðist sem hann hafi náð að slíta sig nógu lengi frá barnakláminu í tölvunni til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að 12 ára börn tæli fullorðna karlmenn til fylgilags við sig. Nú veit ég auðvitað ekki hver þessi Kristinn er, kannski hefur hann í rauninni upphafstafina JBH, en mikið hrikalega þótti mér óþægilegt að sjá einhvern verja þessa afstöðu. En ef nú þessi Kristinn sæi sér leik á borði og sendi inn sögu í kynórasafn kvenna, yrði það þá 'ögrandi en sönn saga' um konu sem hefur haft kynóra um gamla, graða karla alveg frá því að hún var 12 ára tálkvendi? Mikið væri það nú raunsönn lesning!

Efnisorð: , , ,