laugardagur, ágúst 11, 2007

„Lólítur“ - fórnarlömb kynóra karlmanna

Chris Langham, sem leikið hefur í kvikmyndum, s.s. Life of Brian, og tugum sjónvarpsþátta þ.á.m. Kiss Me Kate, sem sýndur hefur verið á BBC Prime,* var í byrjun ágústmánaðar fundinn sekur um að hafa barnaklámmyndir í tölvunni sinni (refsing verður ákveðin um miðjan september**). Myndirnar voru af kynferðisbrotum gegn börnum, en leikarinn kvaðst hafa verið að undirbúa sig fyrir að leika barnaníðing í sjónvarpsþætti. Enginn annar sem vann við sjónvarpsþáttinn vissi af ‘rannsóknum’ hans.

Í Kompásþætti sem sýndur var á Stöð 2 í vetur voru karlmenn gabbaðir til að halda að þeir væru að fara að hitta stúlku undir lögaldri og þegar einn þeirra kom á vettvang hélt hann því einmitt líka fram að hann væri að vinna rannsóknarvinnu fyrir blaðagrein. Þetta virðist vinsæl afsökun hjá barnaníðingum. Chris Langham bar því líka við að hann hefði sjálfur orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn (önnur afsökun sem þessir menn bera fyrir sig – margir þeirra hafa reyndar verið þolendur sjálfir í æsku, en mér finnst það samt sérkennileg afsökun fyrir að níðast á næsta barni) og hefði verið að reyna að vinna úr sínum málum með því að skoða barnaklám. Einhvernveginn hefði ég haldið að hann þyrfti þá einmitt ekki að sjá hvernig kynferðisofbeldi gegn börnum færi fram, hann þekkti það of vel.

Í sömu réttarhöldum var hann sýknaður af því að hafa haft samræði við stúlku undir lögaldri, en það hafði hann gert fyrst þegar hún var fjórtán ára og margoft eftir það. Hann játaði bara að hafa verið með henni einu sinni eftir að hún var átján ára og slapp með það, enda greinilega vandaður maður á ferð og full ástæða til að taka orð hans trúanleg.

Ætli vinsældir Chris Langham muni dala við þetta eða fellur hann í sama flokk og Roman Polanski, sem enn nýtur virðingar margra þrátt fyrir að hafa nauðgað 13 ára stúlku? Ekki að ég vilji gleyma Woody Allen í þessari upptalningu, en hann hefur þó aldrei mér vitanlega verið dreginn fyrir dómstóla fyrir sifjaspell með dótturinni sem hann svo giftist. Ég held reyndar ekki að það sé bara vegna þess að þessir menn eru frægir sem þeim er svona auðveldlega fyrirgefið, ég held að það sé frekar vegna þess að fólki finnst ‘skiljanlegt’ að karlmenn girnist stúlkubörn sem eru rétt um það bil orðin kynþroska.

Flestir gera mikinn greinarmun á því að girnast börn og kalla slíka menn barnaníðinga (sem þeir eru) og þeim sem girnast 13-16 ára stelpur og tala um það í léttum tón að ‘hann vill hafa þær ungar’. En munurinn er lítill sem enginn. Sannarlega eru flestar stelpur á unglingsaldri orðnar sér að einhverju leyti meðvitaðar um að til er eitthvað sem heitir kynlíf en börn afturámóti vita lítið sem ekkert um það. En börn – sama hversu gömul þau eru – eru ekki tilbúin til kynlífs með fullorðnum. Hvorki andlega né líkamlega. Karlmennirnir vilja hinsvegar hið fullkomna vald sem felst í aldursmuninum (Polanski var þrjátíu árum eldri en fórnarlamb hans) og því að barnið lítur upp til þeirra eða óttast þá. Reynsluleysi barnanna – eða táningsstúlknanna - hentar þeim auk þess vel, þeir geta þá logið því að sjálfum sér að þeir séu góðir í rúminu, fullvissir að stúlkan veit ekki betur. Margir þeirra halda því fram að þeir séu að kynna fórnarlömb sín fyrir kynlífi og ‘unaðssemdum’ þess.

Og svo eru einhverjir sem halda því fram að börn, sérstaklega stúlkubörn, sækist beinlínis eftir að eiga sína fyrstu kynlífsreynslu með eldri mönnum og hinar miklu vinsældir skáldsögunnar Lolitu eftir Vladimir Nabokov hafa ekkert gert til að draga úr almennu samþykki fyrir þeirri afsökun.

___
* Uppfært: Skömmu eftir að Langham var fundinn sekur, hóf Ríkissjónvarpið að sýna þættina Mæðst í mörgu (The thick of it) á miðvikudagskvöldum.
** Uppfært: 14.september 2007 var Langham dæmdur til 10 mánaða fangelsvistar fyrir vörslu barnakláms. Tekið var fram að um allra grófasta kynferðisofbeldi gegn börnum hafi verið að ræða. (Dómurinn auðvitað skammarlega vægur, en Bretar eru ekkert skárri en aðrir í þeim efnum).
Viðbót: Í september 2009 var svo Polanski handtekinn, sjá færslu mína um það hér.

Efnisorð: , , , ,