mánudagur, júlí 30, 2007

Karlveldið er eins og mengun

Karlveldið er eins og mengun. Við mengum öll umhverfið, með því að aka bíl, með því að henda rusli, með því að kaupa hluti í umbúðum sem þarf að henda, með því að nota þvottaefni sem skolast útí sjó, við mengum endalaust og ekkert okkar er laust við að menga enda búum við öll í vestrænu neyslusamfélagi.

Við leggjum öll eitthvað af mörkum til að styðja karlveldið. Engin getur sniðgengið reglur þess og siði, hversu mjög sem hún er á móti því og vill afnema það. Kona sem málar sig eða gengur í háum hælum eða aðskornum fötum er að þjóna karlveldinu, geri hún það ekki myndu sumir saka hana um að reyna að vera kynlaus og afneita með því ‘konunni í sér’ eða að hún væri að líkja eftir karlmönnum því þeir væru merkilegri. Klámið, skærasta birtingarmynd karlveldisins, er eitthvað sem konur ættu þó að geta forðast að taka þátt í en það er líka erfitt. Hvernig veit kona að karlinn í lífi hennar hefur ekki fengið uppskriftina að kynlífi þeirra í klámmyndum? Ef hún er viljugur þátttakandi er litið svo á að hún samþykki klám, neiti hún kynlífinu er álitið að hún sé kynköld: allt mælt á mælikvarða karlveldisins. Kona sem velur sér hefðbundið kvennastarf er að ýta undir hugmyndir karlveldisins um að sum störf henti betur konum, velji hún hefðbundið karlastarf er hún að ‘reyna að sanna sig’ og spila eftir leikreglum sem karlveldið setur.

Hvort sem kona reynir að spyrna á móti eða lætur berast með straumnum, þá er hún alltaf þátttakandi. En það er samt engin ástæða til að hætta mótspyrnunni og vinna að betri heimi, ekki frekar en við látum stóriðjuáform átölulaus, a.m.k. ekki þau okkar sem viljum ekki mengun í lofti eða á láði og legi.

Efnisorð: , ,