mánudagur, júlí 09, 2007

Undirtónar – góðar minningar og slæmar

Eitt af því sem alltaf kemst á dagskrá á vorin er að taka til í geymslunni. Svo líða mörg vor og ekkert gerist. Nú hefur hinsvegar verið tekið hænuskref í þá átt að henda drasli og sortera það sem verður geymt áfram, en þá vonandi aðgengilegra og án þess að þurfi að klofa yfir það. Eitt af mörgum vandamálum geymslunnar er að þar eru merkilegar heimildir um blaðaútgáfu á Íslandi. Blaðastaflarnir innihalda meðal annars hið forðum stórgóða blað Undirtóna, sem út kom á árunum 1996 – 2003 (eða 2004).

Það er auðvitað ekki hægt að henda bara si svona menningarverðmætum og því fletti ég hverju blaði áður en dauðadómur er felldur. Einn helsti kostur Undirtóna voru plötudómarnir. Oftast þegar fjallað er um tónlist í dagblöðum er talað heilmikið um hljómsveitina og tónlistina og sándið og ég veit ekki hvað, en lesandinn er engu nær hvort á plötunni er að finna spænska gítartónlist, íslenska sveitaballatónlist eða diskó. Hjá Undirtónum var tónlistarstefnum skipt í skynsamlega flokka og því gat hver sneitt fram hjá leiðinlegri tónlist (að sínu mati) og lesið bara um það sem henni þótti skemmtilegt eða áhugavert. Flokkarnir voru ekki alltaf þeir sömu en meðal annars þessir: popp/rokk, drum+bass, metall/hardcore/punk, techno/experimental og hiphop/ funk/ bigbeat (sem seinna breyttist í hiphop/bigbeat/funk/triphop og eflaust breyttust flokkunin enn meir en ég hirði ekki um það hér) auk kvikmyndatónlistar. Hverjum disk var svo gefin einkunn auk þess sem nákvæmar lýsingar voru á gæði tónlistarinnar – og alltaf var mark á því takandi. Ég keypti mér ófáa diska bara útaf því sem ég hafði séð fá góða einkunn í Undirtónum og sumir þeirra hafa orðið mér mjög hjartfólgnir og eru spilaðir enn í dag.

En svo hætti ég að lesa Undirtóna og það var vegna klámsins. Frá og með 15. tölublaði í ágúst 1998 hófst klámmyndaumfjöllun í blaðinu og var hún strax ógeðfelld* – en hét þó af hálfu blaðsins Elskendahornið.** Ég reyndi að líta framhjá þessu og hélt lengi ótrauð áfram að lesa plötudómana.*** Svo fór þó að ég neyddist til að gera upp við mig hvort ég vildi virkilega bera þennan sora heim í hús, góð tónlist eða ekki. Þar sem ég veit að ég hef fram til þessa dags ekki hent einu einasta eintaki af Undirtónum þá sé ég að síðasta blaðið sem ég tók til handargagns var 26. tölublað október 1999. Undirtónar dóu svo drottni sínum löngu seinna (ég fann á netinu að það hefði enn komið út í desember árið 2003 en hálfu ári síðar er talað um það í þátíð) - ekki að ég eigni mér heiðurinn af því. Reyndar sakna ég blaðsins mjög og vildi helst að það væri endurreist – en þó án helvítis klámsins.

–––
[„Varúð, eftirfarandi neðanmálsgreinar geta hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum“.]
* M.a. var umfjöllun um mynd þar sem ‘Rocco’ er að hafa samfarir við konu aftan frá meðan hann heldur höfði hennar ofaní klósetti og sturtar niður, snýr henni svo við og lætur hana sjúga sig og kyngja sæðinu. Í annarri mynd eru hafðar samfarir við konu í endaþarm hennar „greinilega fyrsta skiptið hennar í súkkulaðinu“ – dreg ég þá ályktun að það hljóti að hafa verið vegna sársaukaviðbragða konunnar

**Frá og með 21. tölublaði 1999 hætti þátturinn Elskendahornið (þvílíkt öfugmæli!) en var tekinn upp undir nafninu „Taboo“ frá og með 23. tölublaði sama árs. Í Taboo þáttunum var orðalagið ekki eins gróft en klámið samt lofað hástöfum.

*** Ég las aldrei tölvuleikjaumsagnirnar á sínum tíma en þar var eflaust eitthvað um klám þar, nú í geymslu-yfirferðinni tók ég a.m.k. eftir einum frá því í maí 1998 sem var um leik sem gekk útá að selja kærustuna í vændi og framleiða ódýrarar klámmyndir. Umfjöllunin byrjar svona: „Hefur þig einhvern tímann dreymt um að stjórna kynlífsveldi þar sem þú framleiðir klámmyndir og annan subbuskap… “ Síðar kemur þessi setning: „Húmor spilar mikinn þátt í leiknum og mun koma öllum til að brosa.“ Það var nefnilega það.

Efnisorð: ,