sunnudagur, júní 24, 2007

Viðhorf og tækifæri, ekki kynfæri eða húðlitur

Undanfarið hafa frjálshyggjupostular gagnrýnt kynjaumræðu með því að segjast standa á sama hvaða kynfæri fólk hafi og ásaka með því feminista um að vera með kynfæri á heilanum. Mig langar að búa til smá sögu og athuga hvort hún verður til að sýna fram á hve röng þessi hugsun er.

Íslensk kona (X) flyst til Bandaríkjanna um stundarsakir og kynnist þar manni (Z) sem hún verður ástfangin af. Maðurinn er svartur. Hún setur það auðvitað ekki fyrir sig og þau eru mjög hamingjusöm þegar þau eru tvö saman. Þegar þau fara út verða þau stundum fyrir mótlæti því ekki þykir öllum sjálfsagt að svartur karlmaður sé með hvítri konu, á það jafnt við um hvítt fólk og svart. Maðurinn vill að þau flytji til Íslands því hann sé orðinn þreyttur á að búa í Bandaríkjunum. Konunni X finnst þetta undarlegt því henni líður einmitt mjög vel í Bandaríkjunum.

Hann útskýrir þá fyrir henni að hvar sem hann komi mæti honum tortryggið augnaráð hvítra, konur haldi handtöskum örlítið nær sér, hann fái síður vinnu og þá mun síðri vinnu en hvítir jafnaldrar hans og margir skólabræðra hans hafi leiðst útá glæpabrautina vegna lélegrar menntunnar og vonleysi yfir því að eiga sér ekki viðreisnar von. Hann segir henni svo frá skólagöngu sinni gegnum grunnskólann og hve skólar í hverfum svartra séu lélegir og því sé grunnmenntun hans og félaga hans ekki hæf undirstaða fyrir framhaldsnám.

Það verður úr að X og Z, sem ætla að verða hjón, flytja til Íslands. Þar verða þau bæði mjög vör við augnaráð almennings á götum úti, sumstaðar heyra þau hvískur og má þá vart á milli sjá hvort þeirra fær verri útreið í niðrandi ummælum. Fjölskylda X tekur Z af alúð en allmargar gamlar frænkur kalla X til sín á eintal og hafa áhyggjur af sambandi þeirra og segja að þær hafi auðvitað ekkert á móti svörtu fólki en hún verði að gera sér grein fyrir að ef hún eignist börn með þessum manni þá verði börnin fyrir fordómum. Hún verði að hugsa um vesalings börnin.

Z fær hvergi vinnu, ekki einu sinni í fjölskyldu X, þar sem flestir fara undan í flæmingi þegar spurt er hvort einhver viti um vinnu handa honum. Honum finnst íslenskt samfélag ekkert síður fjandsamlegt en bandarískt, ef eitthvað er þá þykir honum það verra því ytra er hann þó bara einn af mörgum, hér er hann aðskotadýr og sjaldgæft fyrirbæri.

Af tilviljun frétta X og Z af manni sem þykir umburðarlyndur og er auk þess að leita að mönnum í vinnu, þau mæta til hans og hann tekur vel á móti þeim. Hann ákveður að ráða Z á staðnum og X tekur eftir að launin eru ekki síðri þeim sem íslenskir karlmenn, sem geta rakið ættir sínar til Jóns Arasonar biskups, fá á vinnumarkaðinum. Hún spyr þennan góða mann hvernig á því standi að hann bregðist svona allt öðru vísi við mannsefni sínu en aðrir og hann svarar því til að hann sé frjálshyggjumaður og líti alla jöfnum augum.

Nú er sagan búin.

Einhverri kynni að koma á óvart að frjálshyggjumaðurinn sé góði maðurinn í sögunni, en allajafna dreg ég upp talsvert aðra mynd af þeim. En hér langaði mig að benda á að einstaklingur getur orðið fyrir gríðarlegu óréttlæti hvar sem hann kemur, vegna húðlitar síns - eða jafnvel kynferðis. Það gildir einu þó einn einstaklingur, eða jafnvel margir einstaklingar (allir í Frjálshyggjufélaginu!), hafi annað viðhorf og vilji ekki mismuna svörtum eða konum, þegar allt samfélagið – eða jafnvel öll samfélög – vinna gegn framgangi þessara hópa og grafa hreinlega undan hverjum eintaklingi og sjálfsvirðingu hans. Það þýðir því lítið fyrir frjálshyggjumenn að æpa að þeir líti ekki fyrst og fremst á húðlit fólks eða kynferði – þegar allir aðrir gera það.

Það er ekki fyrr en öll lög og reglur verja rétt þess fólks og greiða götu þess, t.d. með því að hlutfall þeirra verði að ná tilteknu lágmarki í skólum, nefndum, stjórnum, á þingi o.s.frv. auk þess að sífellt sé leitað leiða til að breyta almenningsálitinu þeim í hag – og það hefur borið árangur – sem frjálshyggjumenn geta sagt að húðlitur eða kynferði skipti ekki máli.

Það eru ekki feministar sem eru með ‘kynfæri fólks á heilanum’ (og það að feministar tala um konur og karla er ekki vegna þess að þær halda að konur og karlar séu annarsvegar frá Venus og hinsvegar frá Mars og séu í grundvallaratriðum svo ólík) heldur gera feministar sér grein fyrir mótlæti og misrétti sem konur verða hvarvetna fyrir, alveg burtséð frá því hve frjálshyggjumenn eru gríðarlega blindir á af hvaða kyni fólk er.

Efnisorð: , ,