miðvikudagur, júní 20, 2007

Fóstureyðing eða ættleiðing

Sumir stinga uppá því að konur geti bara gefið barnið í stað þess að láta eyða fóstri. Ekki get ég talað fyrir hönd allra kvenna sem hafa gengið með og fætt barn, en allflestar eru sammála um að meðgangan hafi mikil líkamleg og sálræn áhrif á þær, hvernig svo sem staðið var að getnaðinum eða hvort aðstæður væru góðar til að ala barnið upp. Það að finna líkama hreyfast inní líkama sínum lætur fáar konur ósnortnar.

Þeirra eigin líkami breytist gríðarlega og ekki alltaf til góðs, margar konur finna til mikillar vanlíðunar og fá bjúg, grindargliðnun, gyllinæð eða hækkaðan blóðþrýsting, svo dæmi séu tekin af mögulegum fylgifiskum meðgöngu. Fæðingin er svo enn önnur saga, sumar konur jafna sig seint á henni og meðgöngunni, þær sem þá lifa þetta af, en þó dauði af völdum barnsburðar sé í lágmarki hér á landi, þá er aðra sögu að segja í mörgum löndum heims.

Er hægt að halda því fram með góðri samvisku að það sé svo lítið mál að ganga með fulla meðgöngu að kona eigi að leggja það á sig (bara til þess að forðast aðgerð sem tekur þó ekki nema örfáa daga að jafna sig á) – og gefa svo barnið frá sér í ofanálag? Séu konur sem fara í fóstureyðingu litnar hornauga, þá er það ekkert á við þá samfélagslegu fordæmingu í garð þeirra kvenna sem gefa frá sér börnin sín! Eftirsjá þeirra og samviskubit held ég að vegi ekki minna á vogarskálum en þeirra sem fara í fóstureyðingu. Í síðara tilvikinu þarf konan að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af hvort barnið lendi á góðu heimili eða hati sig það sem eftir er.

(Og nú vona ég að ég hljómi ekki grimm í garð kvenna sem hafi gefið börn sín eða þeirra barna sem hafa verið ættleidd, né að lesa megi úr orðum mínum að þeim börnum hefði betur verið ráðstafað öðruvísi, ég er bara að benda á að ættleiðing er ekkert gamanmál eða auðveld ákvörðun).

Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að konur, sem verða óvart óléttar en vilja ekki eignast barn, sjái barnlausu fólki fyrir börnum. Sá söngur, sem oft heyrist, að „það sé fullt af góðhjörtuðu fólki sem þráir ekkert annað en eignast börn“ og gefið í skyn að það sé alveg sérstök mannvonska að vera sú kona sem meinar þeim um þetta smáræði.

Málið er þetta: Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.

Efnisorð: