miðvikudagur, júní 20, 2007

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum

Bannið við fóstureyðingu á síðari stigum meðgöngu (sem er oft kallað partial birth abortion á ensku en annars last trimester eða late term abortion) sem nýlega var sett í Bandaríkjunum, bitnar alls ekki á þeim konum sem það er beint gegn. Fóstureyðingar, sem fram fara eftir á síðustu mánuðum meðgöngu eru oftast framkvæmdar vegna þess að í ljós kemur að eitthvað er að fóstrinu eða að meðgangan stefnir lífi og heilsu móðurinnar í hættu. Stundum vegna þess að í ljós hefur komið að fóstrið er lífvana. Þetta eru því konur sem ætluðu sér að ganga með fulla meðgöngu og eignast barnið en vegna fyrrgreindra ástæðna varð að grípa inní og fjarlægja fóstrið.

Ég las átakanlega sögu bandarískrar konu sem komst að því eftir margra mánaða meðgöngu að barnið sem hún gekk með var dáið. Áfallið var gríðarlegt því hún hafði hlakkað mjög til að eignast barnið. Í ljós kom að enginn spítali í grennd við hana vildi framkvæma á henni ‘fóstureyðingu á síðari stigum’, þ.e. fjarlægja hið lífvana fóstur úr henni. Ekki veit ég hvaða hættu þetta hafði í för með sér fyrir heilsufar konunnar en andleg líðan hennar var slæm þegar henni varð ljóst að ætlast var til að hún gengi með dáið barn einhvern ákveðinn tíma áður en hægt væri að líta svo á að hún væri að ‘fæða’ barnið og því mætti hún koma á spítala til að fá aðstoð til þess. Ástæða þess að spítalarnir vildu ekki framkvæma þessa aðgerð – en þetta var nokkru áður en bannið við fóstureyðingum á síðari stigum gekk í gildi – var að þeir voru allir reknir af kaþólikkum eða öðrum trúfélögum sem eru á móti fóstureyðingum. Það að þetta yrði ekki ‘venjuleg’ fóstureyðing skipti engu, því starfsfólkið hafði enga reynslu af slíkum aðgerðum. Nú er svo komið allsherjar bann við fóstureyðingum á síðari stigum í Bandaríkjunum og fleiri konur sem ætluðu sér að ganga með börn sín og fæða þau, mega því búast við að verða snúið frá og kveljast í sinni sorg. Bannið mun ekki koma í veg fyrir að ‘börn deyi’ – þ.e fóstureyðingar – heldur eingöngu halda konum sem vildu verða mæður í herkví. Sigur þeirra sem heimtuðu þetta bann er því eingöngu til þess fallinn til að leyfa andstæðingum fóstureyðinga að halda að þeir hafi unnið fyrstu orustuna af mörgum. (Og þá streyma fjárframlögin frá þeim inná kosningaskrifstofur Repúblikana).

Annað umdeilt mál í Bandaríkjunum, sem hefur líka komið til kasta Alþingis hér, er stofnfrumurannsóknir, en Bush forseti setti lög gegn þeim. Stofnfrumurnar eru teknar úr fósturvísum sem ekki eru notaðir eða ganga af í tæknifrjóvgunarferli því sem mörg hjón ganga gegnum til að eignast börn. Stofnfrumurannsóknir eru m.a. í því skyni að finna lækningu á sjúkdómum eins og MS og Parkinsonsveiki.

En þeim sem er lífið svona heilagt er alveg sama um lækningu á sjúkdómum, fósturvísarnir eru jafngildar verur fyrir þeim og fullorðið fólk með alvarlega sjúkdóma.

Stundum segir fólk sisona: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja? Við, þessi forhertu sem erum hlynnt rétti kvenna til fóstureyðinga, veljum að bjarga barninu, hinir myndu líklega velja fjölda hinna mögulegu-barna í petriskálinni.

Efnisorð: ,