þriðjudagur, júní 19, 2007

Réttur kvenna til að eyða fóstri

Á þessum helsta degi kvenréttinda á Íslandi finnst mér nauðsynlegt að tala um eitt helsta réttindamál kvenna: Réttinn til fóstureyðinga. Ég hef af því miklar áhyggjur að andstaðan við þær sem er svo hávær í Bandaríkjunum, muni ná eyrum ráðamanna hér, enda þeir óhemju áhugasamir um stuðning við ýmis illvirki Bandaríkjastjórnar.

Ég skrifaði fyrir u.þ.b. ári (27. júní) um þessar áhyggjur mínar en held að ég verði að treysta því að aðild Samfylkingarinnar að ríkisstjórn núna sé trygging fyrir því að við þessum málum verði ekki hróflað. Hannes Hólmsteinn, sá frægi frelsispostuli, er ekki lengur helsti ráðgjafi æðstu manna Sjálfstæðisflokksins, að því að mér skilst, en hann er á móti rétti kvenna til fóstureyðinga, og þá frelsi kvenna til að ráða því hvort og hvenær þær eignast börn . Ekki eru þó allir sammála um þessi mál innan Sjálfstæðisflokksins frekar en annarstaðar. Frjálshyggjumenn fundu til tevatnins í janúar í fyrra þegar þeir viðruðu skoðanir á fóstureyðingum og voru teknir á beinið á Tíkinni, ég heyrði þó enga gagnrýni gegn grein sem einn þeirra skrifaði í Þjóðmál síðar sama ár. En ég held að frjálshyggjumenn á þingi hafi sig hæga, málið er ekki líklegt til vinsælda, þeir halda sig frekar við sölu áfengis í matvörubúðum (eini Sjálfstæðismaðurinn sem væri líklegur til að segja eitthvað er Árni Johnsen, en hann er eindregið á móti rétti kvenna til fóstureyðinga.)

Ég talaði líka í færslunni í fyrra um að á Omega væri mikill áróður gegn fóstureyðingum (þó ekki eins mikill og gegn samkynhneigðum!) og hafði þá m.a. í huga hina frægu kvikmynd The Silent Scream, en hana vilja andstæðingar fóstureyðinga sýna öllum konum sem eru í vafa hvort þær vilji ganga fulla meðgöngu. The Silent Scream var sýnd um miðjan dag á Omega, á þeim tíma sem börn gætu hafa séð hana. Líklega hefði Omega-mönnum fundist bara betra ef einhver börn fengju martraðir og héldu að fóstureyðingar snerust um að pynta og drepa hugsandi veru.

Það ýtti svo við mér að skrifa meira um rétt kvenna til fóstureyðinga þegar ég las fréttir af páfanum og ferð hans til Suður-Ameríku nýlega. Áður en ég náði að skrifa allt sem ég ætlaði mér kom svo upp umræðan um fóstureyðingar og Downs-heilkenni og ég vissi um tíma ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga og hvaða hlið málsins ég ætti að reifa fyrst. Það varð úr að ég skrifaði allt sem mér kom í hug um málið og rifjaði upp margar deilur sem ég hef lesið á bandarískum bloggsíðum. Reyndi svo að afmarka ýmsa þætti málsins, enda nokkuð ljóst að blogger myndi ekki birta langlokuna eins og hún kom fyrir af skepnunni. Niðurstaðan er röð af færslum um fóstureyðingar, mikið til með hliðsjón af hvernig málin standa í Bandaríkjunum og þeirri umræðu sem stöðugt á sér stað þar og ég hef semsagt áhyggjur af að nái fótfestu hér.

Efnisorð: , , ,