þriðjudagur, desember 01, 2020

Landsréttur

Landsréttur er helsta fréttaefni dagsins, eða öllu heldur niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu en hann stað­­­festi dóm rétt­­­ar­ins í Lands­rétt­­­ar­­­mál­inu svo­­kall­aða. Í honum fengu bæði Sig­ríður Á. And­er­­­­­sen fyrr­ver­andi dóms­­­­­­­mála­ráð­herra og Alþingi á sig áfell­is­­­­­­­dóm fyrir það hvernig haldið var á skipan fimmtán dóm­­­­­­­ara við Lands­rétt í byrjun júní 2017.

Eins og það væri nú gaman að setja hér á stutta ræðu um Sigríði Andersen og hennar störf og skoðanir gegnum tíðina (nú nýlega varðandi sóttvarnaraðgerðir og í dag viðbrögð hennar við niðurstöðu mannréttindadómstólsins) þá hef ég meiri þörf fyrir að tjá mig um nýlega dóma sem hafa fallið í þessum fræga Landsrétti. Trekk í trekk birtast fréttir um að nauðgarar sem hafa í héraði verið dæmdir til fangelsisvistar —  eru svo barasta sýknaðir eða dómar þeirra verulega mildaðir fyrir Landsrétti. 

16.okt 2020
Úr frétt DV:
Landsréttur snýr við nauðgunardómi í máli 14 ára stúlku

Landsréttur hefur sýknað mann af nauðgun sem hann hafði áður verið sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Var manninum í héraði gert að sæta tveggja og hálfs árs fangelsisrefsingu, skilorðsbundinni til þriggja ára. Landsréttur sakfelldi manninn hinsvegar fyrir samræði við einstakling undir lögaldri. 

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir samræði við einstakling undir 15 ára að aldri sem og nauðgun, en Landsréttur taldi ekki hafið yfir allan vafa að um nauðgun væri að ræða. Sagði Landsréttur að um „orð á móti orði“ væri að ræða.

Þar sem sannað var að maðurinn hafi haft samræði við stúlkuna er hún var yngri en 15 ára var hann þó sakfelldur fyrir áðurnefnda 202. gr. hegningarlaga. Ákvörðun refsingar mannsins var frestað og skilorðsbundin til tveggja ára. Bar Landsréttur fyrir sig við ákvörðun refsingarinnar ákvæði laganna um að lækka megi refsingu eða láta hana niður falla ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri eða þroskastigi.

23. okt 2020
Úr frétt DV
Sýknað af ákæru um nauðgun – Landsréttur trúir ekki meintum brotaþola vegna viðbragða hennar

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í maí fundinn sekur um að hafa nauðgað fyrrverandi sambýliskonu sinni. Var honum gert að sæta tveimur árum og sex mánuðum í fangelsi og greiða fyrrum sambýliskonu sinni 1,5 milljónir í miskabætur. Landsréttur hefur nú snúið við þessari niðurstöðu og sýknað manninn.

Málið hefur þvælst um kerfið á bæði rannsóknar- og ákærusviði um töluvert langa hríð.

Landsréttur tekur ekki mark á sönnunargögnum sem héraðsdómur byggði niðurstöðu sína á

Eins og áður segir þá var maðurinn sakfelldur fyrir brotið í héraði. Meðal sönnunargagna var framburður konunnar sem þótti mjög trúverðugur og auk þess bar sonur hennar vitni en hann var á staðnum þegar meint brot áttu sér stað. Eins báru vitni félagar konunnar sem hún hafði greint frá ofbeldinu eftir að það átti sér stað.

Því hafi ekki tekist gegn neitun mannsins að sanna yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um að nauðga konunni.
Dómarar Landsréttar: Aðalsteinn E Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragheiður Harðardóttir 

2.nóv 2020
Frétt af Eyjar.net
Landsréttur sneri við þriggja ára nauðgunardómi

Landsréttur sýknaði í síðustu viku karlmann af ákæru um kynferðisbrot gegn konu frá 1.ágúst 2016, á Fjósakletti í Herjólfsdal. Landsréttur sneri dómi Héraðsdóms Suðurlands sem hafði dæmt ákærða í þriggja ára fangelsi.

Í dómi Landsréttar kom fram að við mat á því hvort saknæmisskilyrði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga væri fullnægt yrði ákærði að njóta þess vafa sem væri í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Með hliðsjón af staðföstum framburði ákærða um að brotaþoli hefði ekki gefið honum tilefni til að ætla að hún væri ekki samþykk athöfnum hans, og samskiptum ákærða og brotaþola í aðdraganda þess brots sem hann væri sakaður um, hefði hann haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk samförum við hann umrætt sinn.
Af lestri dóms virðist sem hún hafi hætt við þegar á hólminn var komið en Landsrétti finnst hún greinilega ekki hafa rétt á því.

13 nóv:
Engin vafi á sýknu en samt mildari dómur

Ungri konu nauðgað þegar hún var að fagna útskrift úr framhaldsskóla. Hún var mjög ölvuð, sofnaði og þá hófst hann handa; hann sendi afsökunarskilaboð eftirá.

„Tafir urðu á málsmeðferðinni sem honum yrði ekki um kennt og refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 21 mánuð“. 
Héraðdsómur hafði dæmt hann í tveggja ára fangelsi. Miskabætur til hennar voru lækkaðar um hálfa milljón.


20.nóv 2020
Nauðgunardómi upp á tveggja ára fangelsi snúið í Landsrétti
Úr frétt RÚV:

Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sakfellt mann fyrir nauðgun og dæmt hann til tveggja ára fangelsisrefsingar. Héraðsdómur taldi sannað að maðurinn hefði í janúar 2016 notfært sér ölvun og svefndrunga konu og haft við hana samræði og kynferðismök. Það hefði verið án hennar samþykkis en hún ekki getað spornað við verknaðinum. Landsréttur telur þetta allt ósannað.  
Í dómi Landsréttar segir að engin mæling liggi fyrir á áfengi í blóði eða þvagi brotaþola og aðeins byggt á lýsingum vitna um ölvun hennar. Þá segir í dómi Landsréttar að konan hafi ekki kært nauðgun fyrr en tæpu einu og hálfu ári eftir atvikið
Héraðsdómur taldi yfirlýsingar mannsins þar ekki verða skýrðar öðruvísi en svo að hann væri að biðjast afsökunar á því að hafa haft við hana samræði þótt hún væri svo ölvuð að hún gæti ekki spornað við því. Héraðsdómur taldi aðrar skýringar á samskiptunum ótrúverðugar. Landsréttur metur samskiptin með öðrum hætti og segir að þar hafi maðurinn tekið fram að hann hefði þrisvar spurt konuna hvort hún vildi þetta, eins og það er orðað í dóminum. Þá hefði hann sagt fyrir dómi að hann hefði viljað biðjast afsökunar á því að brotaþoli hefði upplifað atvikið sem nauðgun. Hún hefði þá verið farin að ræða um að kæra hann og maðurinn viljað róa hana einhvern veginn niður.
Hann var bláedrú og hún full þegar hann fór með hana heim til sín. Hann hætti þegar hann sá að henni blæddi, og hann sendir henni skilaboð þar sem hann biðst afsökunar — en ekkert af þessu skiptir mali fyrir Landsdómara.

Dómarar: Aðalsteinn E Jónasson, Eiríkur Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir

27. nóvember

Karlmaðurinn og konan höfðu verið par, stunduðu bæði sjálfviljug kynlíf einu sinni (eða tvisvar) en eftir það hélt hann áfram, aftur og aftur.

Héraðsdómur hafði dæmt 18 mánaða fangelsi, Landsréttur  ákvað að það væri allt á skilorði vegna þess að dráttur hafði verið á málinu. Það reiknast alltaf nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum í hag, skítt með fórnarlömb þeirra sem hafa haft þetta mál hangandi yfir sér rétt eins og þeir en vonað að kvalarar sínir þurfi að sæta refsingu fyrir það sem þeir gerðu.


Við frétt um sýknudóm Landsréttar 23. október hér að ofan, þegar fæstir þessara dóma sem hér eru raktir höfðu fallið, voru skrifaðar nokkrar athugasemdir. (Það voru karlmenn sem skrifuðu athugasemdirnar tvær sem hér fara á eftir, ekki kvenkynsfeministar í hefndarhug, svo að það sé nú tekið fram). En dómar Landsréttar voru semsagt þá þegar farnir að vekja eftirtekt fyrir snúa við eða milda verulega dóma yfir kynferðisbrotamönnum.

„Eitthvað verulega brogað við þetta dómsstig.“
„Á hvaða vegferð er íslenska dómskerfið eiginlega? Allir eða flestir dómar í héraði þar sem sakfellt hefur verið fyrir nauðgun gegn konum og barnaníð hafa verið ómerktir nú í langan tíma fyrir Landsrétti.“

Þetta dómstig er eins og gert til að fæla þolendur kynferðisbrota frá því að kæra. Eftir margra ára baráttu, sem um tíma virðist unnin, er svo bara púff, ekkert að marka þig góða mín. Þetta er alveg ferlegt.

Efnisorð: , ,

laugardagur, nóvember 07, 2020

Til hamingju, Bandaríkin!

 Það er einstaklega gleðilegt að Bandaríkjamenn hafi haft þá gæfu að kjósa Trump úr embætti. Að við taki hógvær og kurteis forseti er mikill léttir. Og þvílík tíðindi sem í vali hans á varaforseta eru fólgin: kona af svörtum og indverskum uppruna. Mikið fagnaðarefni. 

Líkurnar á að fráfarandi fáviti verði með vesen — og jafnvel kyndi undir  borgarastyrjöld —  eru þó enn talsverðar. Það er því ekki með sanni hægt að varpa öndinni léttar fyrr en í lok janúar þegar Joe Biden, Jill eiginkona hans með doktorsgráðuna og hundarnir tveir Major og Champ flytja inn í Hvíta húsið.Efnisorð:

laugardagur, október 24, 2020

Um baráttu einstakrar konu, kvennasamstöðu og konurnar í framlínustörfum

 

Hvernig við getum nýtt nálgun Ruth Bader Ginsburg  í femínískri baráttu fyrir kvenfrelsi og öðrum mannréttindum er efni pistils eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur. Þetta er besta yfirferð á ferli hæstaréttardómarans og hugsjónakonunnar bandarísku sem ég hef lesið. Það vakti auðvitað sérstakan áhuga minn að lesa það sem Heiða Björg segir um lymskuna í kynjakerfinu:

„RBG flutti sig frá Harvard til Columbia, af fjölskylduástæðum, og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn í sínum árgangi. Þrátt fyrir það gekk henni afar illa að fá starf, enda ekki bara kona heldur jafnframt gyðingur og móðir. Þegar hún loksins fékk stöðu var henni hreinskilnislega tilkynnt að hún fengi lægri laun en karlarnir. Mér varð hugsað til þessa um daginn, þegar ég las grein um að núna væru stjórnendur hættir að leggja eins mikla áherslu á menntun fólks í ráðningum. Það helst einhven veginn lóðrétt í hendur við að núna eru konur orðnar fjölmennari í flestum deildum háskóla og mennta sig í auknum mæli betur en karlarnir. Þá allt í einu er menntun ekki stóra málið. Við skulum aldrei vanmeta tilhneigingu kynjakerfisins til að viðhalda ríkjandi valdastrúktúr.“

Þetta tiltekna atriði kom fyrir í pistli hér á blogginu svo snemma sem árið 2007 en ég hef einmitt líka tekið eftir því undanfarið að þetta sé beinlínis orðin stefna sumstaðar; einsog það sé meðvitundarleysi um að þetta hafi áhrif á ráðningarmöguleika kvenna. Eða einmitt öfugt: að þetta sé viðleitni til að viðhalda valdastrúktúr sem hyglir körlum sama hvað. 

Víkjum þá að hinum ágæta íslenska kvennafrídegi sem í dag var bara venjulegur laugardagur og hvorki mótmæli né hátíðarhöld þótt 45 ár séu liðin frá stóra kvennaverkfallinu 1975.

Kvenréttindafélagið og Tatjana Latinović formaður hefur þó verið í fjölmiðlum og rifjað upp tölfræðina sem enn er konum í óhag.

„Tatjana Latinović, formaður Kvenréttindafélags Íslands segir að í dag sé framlag kvenna til samfélagsins enn ekki að fullu metið að verðleikum. „Konur eru enn með 25 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá klukkan níu til fimm. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 15:01 í dag.

Kvennastörf eru undirstaða samfélags okkar, undirstaða vinnumarkaðarins. En þrátt fyrir að vera nú viðurkennd sem lykilstörf í samfélaginu, hafa þessi störf í áratugi verið metin minna virði en önnur störf þar sem karlar eru í meirihluta. Konur bera líka enn þann dag í dag hitann og þungann af umönnun barna og aldraða, og án dagvistunar og hjúkrunarheimila og án ólaunaðrar vinnu kvenna á heimilum væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi. Án þeirra væri íslenskt samfélag óstarfhæft.“

Á Kvennafrísvefnum

má einnig lesa um hvernig  „konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn Covid-19 faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.   

Konur sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta, eða framlínustörf. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun.  

Það eru þessar konur sem eru í mestri smithættu og þær vinna oftast undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta eru störf sem verður að vinna á staðnum, bjóða ekki upp á fjarvinnu og sveigjanleika, sem leiðir til þess að erfitt er fyrir konurnar að bregðast við aðstæðum heima fyrir t.d. lokun skóla og leikskóla, veikindum og umönnun fjölskyldumeðlima.  

Faraldurinn hefur einnig haft þær afleiðingar að heimilisofbeldi hefur aukist út um allan heim og er Ísland þar engin undantekning. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin á undan. 

COVID-19 hefur afhjúpað hið grimma vanmat á hefðbundnum kvennastörfum sem er í engu samræmi við mikilvægi þeirra. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það. Konur í framlínustörfum eiga miklar þakkir skilið fyrir hetjudáð sína og seiglu í krefjandi aðstæðum. En þær lifa ekki á þökkunum einum saman.“

Þetta eru mikilvæg skilaboð.

Efnisorð:

fimmtudagur, september 10, 2020

Hin dásamlega ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og nýleg afrek hennar

Sérlegur dómsmálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur ætlar hreint ekki að koma í veg fyrir að sex manna egypsk fjölskylda sem verið hefur á Íslandi í rúm tvö ár verði send úr landi. Foreldrarnir og börnin fjögur sem eru á aldrinum 2ja til 12 ára hafa búið hér og „börnin hafa gengið í skóla og leikskóla, lært íslensku og eignast vini“. Nú á að rífa þau upp með rótum og kasta þeim burt. 

„Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir ekki koma til greina að gera reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“ (RÚV)

Með því að fara í fjölmiðla og fá þannig stuðning almennings hefur stundum tekist að hræra hjörtu ráðherra. En nú hefur hjarta Áslaugar Önnu herst enn meir en áður og nú tekur hún fram að hún ætlar ekki að hvika.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í leiðara: Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Fréttir eins og þessar birtast með reglulegu millibili. Það eru fjölmiðlar sem minna á þær og birta myndir og viðtöl við fjölskyldumeðlimi. Vegna frétta fjölmiðla sjáum við fólk sem þráir ekkert meira en að lifa við öryggi og geta séð fyrir sér. Ekkert ætti að vera sjálfsagðara en að veita því tækifæri í nýju landi. En hvað eftir annað kemur nei-ið frá íslenskum stjórnvöldum. Sem betur fer hefur gerst að þau hafi látið undan þrýstingi frá almenningi. Miklu betra hefði samt verið ef þau hefðu sjálfviljug sent þau skilaboð að sjálfsagt væri að taka af hlýju á móti þessum fjölskyldum.

Hér á landi hefur verið skapað kalt og ómanneskjulegt kerfi sem sendir úr landi börn sem hér hafa dvalið í nokkurn tíma og aðlagast svo vel að þau vilja hvergi annars staðar vera. Því miður finnast hér á landi harðlyndir stjórnmálamenn sem sjá enga ástæðu til að stokka upp í kerfinu og gera það mannúðlegt. Vandinn, að þeirra mati, er að barnafjölskyldur á flótta hafa fengið of mikil tækifæri til að aðlagast hér á landi. Þessir stjórnmálamenn sjá lausn í því að vísa barnafjölskyldum á flótta sem allra fyrst úr landi, þannig að þær fái engin tækifæri til að aðlagast. Vilji þeirra er að tekið sé á móti sem allra fæstum sem lifað hafa í ótta. Þannig er þeirra mannúð.“ 

Þetta er sama ríkisstjórnin sem hefur þagað þunnu hljóði eftir brunann á Bræðraborgarstíg, hvorki vottað samúð né lýst yfir andúð á aðstæðum aðflutts verkafólks. Þetta er sama ríkisstjórn og kaus gegn hækkun atvinnuleysisbóta. Þetta er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, júní 26, 2020

Með því óhugnanlegra sem gerst hefur síðustu ár

Fyrirsögnin hér er sú sama og Kjarninn notar og er umorðun á svari slökkviliðsstjóra um brunann mannskæða á Bræðraborgarstíg. Það er erfitt að koma eigin orðum að þessum voðalega atburði svo að hér verður farin sú leið að vitna til þess sem aðrir hafa sagt eða bent á sem ég tek undir eða finnst athyglivert. Þetta er hvorki í mikilvægis- né tímaröð en mest fengið af Twitter en einnig úr fjölmiðlum og vonandi skila sér slóðir á upprunastað.


Atli Fannar @atlifannar:
„Þrír látnir í brunanum í gær. Þessi umfjöllun Stundarinnar um húsið er rúmlega fjögurra ára gömul. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan harmleik.“
— Greinin sem Atli Fannar vísar á í Stundinni: Kvartar undan „óhæfum mannabústað“ í Vesturbænum (16. des 2015) og önnur frá því í fyrra um húsnæðisaðstæður þúsunda: Huldufólkið: Þúsundir búa í iðnaðarhverfum, þar af 860 börn:
„Á bil­inu fimm til sjö þús­und ein­stak­ling­ar búa í iðn­að­ar­hverf­um höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, þar af 860 börn. Eft­ir því sem neyð­ar­ástand á leigu­mark­aði harðn­ar leita sí­fellt fleiri skjóls í at­vinnu- og iðn­að­ar­hús­næði. Íbú­ar þora ekki að stíga fram af ótta við að missa það litla sem þeir þó hafa. Þeir lýsa von­leysi og dep­urð yf­ir því að hafa end­að í þess­ari stöðu.“


Kolbrún Birna @kolla_swag666:
„2015: “Ef kviknaði í stigaganginum yrði fólk að steypa sér gegnum gluggana af 2-3 hæð eða verða eldsmatur.”
2020: Nákvæmlega þetta, þrjú mannslíf.
Yfirvöld höfðu 5 ár til að bregðast við en það var of seint, gríðarlegur harmleikur sem skrifast á þau.“


Kristinn S Trausta @Kidditr:
„Hvar var allt eftirlitið, byggingafuttrúi, heilbrigðisteftirlitið, slökkviliðið, skattaeftirlitið, mannvirkjastofnun ofl. ofl.“

Helgi Seljan Jóhannsson @helgiseljan @helgiseljan:
„Það eru fimm ár síðan fyrst var vakin athygli opinberlega á áhyggjum af ástandi hússins við Bræðraborgarstíg og þeirri staðreynd að þar væru brunavarnir litlar sem engar, þó að þar byggi fjöldi erlendra verkamanna. Það sama var gert árið 2018.Það getur enginn þóst vera hissa.“


„Andor hefur verið búsettur í húsinu í sex ár ásamt fjórtán öðrum íbúum. […] Andor greiðir 80 þúsund krónur í leigu sem hann segir vera helming af mánaðarlaunum sínum. Aðbúnaður í húsinu hafi þó lengi verið slæmur og þegar verst var neituðu íbúar að greiða leigu, enda höfðu lagnir farið í sundur og þurftu næstum því tuttugu manns þurft að deila eldhúsi og salerni. Eigandinn tók ekki vel í það og sagði íbúum að ef þeir greiddu ekki leigu þyrftu þeir að fara annað.“ (Vísir)


Kolbrún Birna @kolla_swag666:
„Ekki nóg með það að fólkið þarna borgaði 80k fyrir að búa í þessu greni en það er ekkert eðlilegt við það að fullorðinn maður sé með lægri laun en lágmarkslaun 14 ára unglings í afgreiðslustarfi skv. kjarasamningi.
Endurtek, þetta er nútíma þrælahald.“


Fanney Birna @fanneybj:
„Ef það er svo að starfsmannaleiga ber ábyrgð á dvöl fólks í þessu ömurlega húsi við Vesturgötu, sem vart getur hafa staðist lágmarks brunavarnarkröfur - er einhver leið að forsvarsmenn hennar geti verið látnir sæta es konar refsiábyrgð vegna atburða dagsins? #lögfræðitwitter
Vandamálið er einmitt að það koma svo margir að þessu og ábyrgðin liggur svo víða. Ok eigandinn ber ábyrgð á brunavörnum, en er þá ábyrgð leigjandans (stmleigunnar) engin? En þeir sem kaupa af þeim vinnuna? Þekkja þeir aðbúnaðinn eða þurfa þeir og vilja ekkert að vita um það?
Sýnist regluverkið, eftirlit og heimildir eftirlitsaðila vera vandinn. Liggur eins og margt hjá stjórnvöldum að svona geti gerst, með fullri vitund enda búið að vara við þessu ítrekað frá alls konar vinklum. Hafi þau og allir hinir ævarandi skömm fyrir - og lífin á samviskunni.“
Hrafn Jónsson @hrafnjonsson:
„Þegar allt kemur til alls eru það eftirlitsaðilar sem bregðast. Fyrirtæki eru oft mannfjandsamleg, og munu halda áfram að vera mannfjandsamleg. Opinberir eftirlitsaðilar og ströng viðurlög er öryggisventillinn sem þarf að virka.“


Logi Pedro @logipedro101:
Þetta er hræðilegt. Þrír látnir.
Hættum að pönkast í erlendu vinnuafli og búum til öruggt umhverfi fyrir verkafólk.
Það er brotið á mannréttindum þeirra á hverjum degi. Á hverjum degi!
Hver ber ábyrgð? Mögulega eitt stærsta sakamál ársins.“


Drífa Snædal forseti ASÍ, pistill á Vísi:
„Í dag er sorgardagur, þrjár manneskjur létust í bruna á Bræðraborgarstíg þegar óíbúðarhæft húsnæði brann til grunna. Það hefur engum dulist sem þekkir þetta hús að það er varla mannabústaður og hafa borist um það fjölmargar ábendingar. […] Erlent verkafólk hefur átt stóran þátt í að skapa lífsgæðaaukninguna sem við höfum velflest notið góðs af, en íslenskt samfélag hefur ítrekað brugðist þessum hópi. Við höfum vitað það um langa hríð að erlent verkafólk býr oft við óviðunandi aðstæður. Í mörgum tilvikum er húsnæðið á vegum atvinnurekenda og því fer fjarri að allir atvinnurekendur standi undir slíkri ábyrgð. Glæpamenn hafa nýtt sér þessa stöðu, haft af fólki launin í gegnum óhóflega leigu eða annan frádrátt, komið fram við fólk eins og dýr í vinnu og látið fara eða sent aftur til síns heima ef það mótmælir eða slasast. Hættulegar aðstæður í vinnu og húsnæði hafa verið hlutskipti margra.“

Páll Baldvin Baldvinsson, pistill á Vísi:
„Fréttir morgunsins kalla á ítarlega rannsókn á hvernig það gat gerst að þessi eldgildra var liðin í skjóli og á ábyrgð opinberra aðila sem eiga að bera ábyrgð á eftirliti með þessháttar húsnæði: slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og eldvarnaeftirliti, og öðrum bærum aðilum sveitarfélagsins. Við sem eigum oft leið hjá þessu húsi vitum að það hefur um áratuga skeið búið við skelfilegt viðhald eigenda […] Þess [útlendingahaturs] gætti líka í fyrstu fréttum af brunanum í gær þegar tveir eða þrír þeirra sem komust úr brennandi húsinu voru handteknir og fluttir fáklæddir í járnum og í öllum ummælum lögreglu og slökkviliðs gætti ómannúðlegs tóns gagnvart þeim sem komust úr bálinu […] En hitt er þó mikilvægast að fram fari opinber rannsókn á því ástandi sem húsið var í hvað varðar brunavarnir og brunaleiðir, hvert ástand var á þeim og hvernig eftirliti með þeim var háttað, hver bar ábyrgð á því, hver var ábyrgð þeirra sem húsinu réðu […] Sú langvinna vanræksla sem þarna viðgekkst kostaði á endanum þrjú mannslíf og er því í raun verkefni lögreglunnar að taka það allt til rannsóknar.“

Páll Ivan frá Eiðum @pallivan:
„Íslenska samfélagið myrti þrjár manneskjur í gær. Það er engin hefð fyrir því að bera ábyrgð í þessu landi. Fokkjú.“

Fanney @fanneybenjamins:
„Allir fréttamiðlar með frétt um að þrír hafi látist í eldsvoða, en ólíkt því þegar Íslendingar látast í slysum fylgir ekki mynd af kertum eða önnur sorgartákn, heldur af fasteigninni sem brann. Finnst þetta lýsandi.“

Jóhann Páll @JPJohannsson:
„Ekki fjallað um brunann eða húsnæðismál erlends verkafólks á fundi ríkisstjórnar í dag.“

Mörgum varð í dag þegar rætt var um brunann hugsað til þess að nýlega var tekinn í notkun svokallaður landamærabíll. Einnig er bifreiðin nýtt „til að fara á vinnustaði og leita að starfsfólki sem vinnur ólöglega á Íslandi. Oftast fari lögreglan á nýja bílnum í samstarfi við Skattinn eða Vinnueftirlitið, en einnig fari hún sjálf á vinnustaði, komi ábending um ólöglega starfsmenn […] RÚV greindi frá því í lok maí að bíllinn hefði verið notaður við aðgerðir við byggingarsvæði í Garðabæ þar sem fjórir erlendir ríkisborgarar voru handteknir og afskipti höfð af tveimur hælisleitendum.“ Í sömu frétt kom fram að lögreglan „stöðvi lögreglan „bíla með Albönum eða Rúmenum. Þá athugum við hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera“. Allskyns opinberar stofnanir geta semsagt sammælst um ýmiskonar eftirlit svo framarlega sem yfirvöldum hugnast það. Hugurinn sem býr að baki er þó annar en sá sem snýr að aðbúnaði, kjörum og öryggi aðfluttra.

Þegar fréttin um landamærabílinn birtist voru fyrstu viðbrögð margra á þennan veg:

Óskar Steinn @oskasteinn:
„Sjaldan hafa forréttindi okkar hvítu Íslendinganna verið eins augljós. Dómsmálaráðherra birtir grein í Mogganum í dag um að “endurheimta frelsi til ferðalaga” um leið og hún vinnur að því að skerða réttindi flóttafólks og löggan montar sig af afköstum rasistabílsins.“

Og í dag rifjaðist þetta illþyrmilega upp.

Iris Edda Nowenstein @IrisNowenstein:
„Yfirvöld vissu. Við vissum. Undanfarin ár höfum við grætt á fólki sem leitar að betra lífi hér en gengur inn í sjúka jaðarsetningu. Engin rödd, engin réttindi. Og hvaða úrræði bjóðum við upp á? Fokking landamærabíl, til þess að elta og hræða - ekki vernda.“


Þorgerður María Þorbjarnardóttir @stelpurofan:
„Breyta þessum landamærabíl í starfsmannaleigueftirlitsbíl og passar upp á mannréttindi fólks í vinnu takk“

Donna @naglalakk:
„starfsmannaleigur eru að komast upp með að setja fólk í hræðileg húsnæði með mikilli eldhættu eða í iðnaðarhverfi og eru samt að rukka þau 150-200 þúsund kall fyrir eitthvað algjört piece of shit húsnæði. Ætti frekar að pikka upp eigendur þessa fyrirtækja á rasistabílnum“

Jóhann Páll @JPJohannsson:
„Þrír erlendir verkamenn brunnu til dauða í gær. Bjuggu við ömurlegar aðstæður vegna kerfis sem hlífir launaþjófum en refsar minnimáttar, þar sem eftirlitsstofnanir eru máttlausar og löggan er upptekin við að rúnta um og targeta veikustu hópa samfélagsins á grundvelli þjóðernis.“

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, júní 17, 2020

Ómarktækur sautjándi

Á fordæmalausum tímum telst dagurinn í dag ekki með sem sautjándi júní. Það er hvorteðer engin ástæða til að fagna lýðveldinu þessa dagana. Leiðtogi eins stjórnmálaflokksins sem myndar ríkisstjórnina þverneitar að leyfa fræðimanni, sem er gagnrýninn á m.a. það að stjórnarskráin sem við kusum um fyrir mörgum árum liggur ofan í skúffu, um að ritstjórastöðu hjá fræðitímariti sem kærir sig kollótt um pólítískar skoðanir. Í næstu viku verða forsetakosningar og annar frambjóðandinn skilur ekki takmörk forsetaembættisins, og hann og stuðningsmenn hans aðhyllast Trump. Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd hafnar því að rannsaka hæfi sjávarútvegsráðherra vegna Samherja, og ekkert er að frétta af lögreglurannsókn á mútumáli vina hans í Samherja — á sama tíma koma þeir eignum undan með því að láta afkomendur sína fá milljarða í fyrirframgreiddan arð svo fátt verði eftir til að gera upptækt ef svo ólíklega vildi til að dómskerfið færi þvert gegn flokkspólitískum reglum sem segja að aldrei skuli refsa Sjálfstæðismönnum fyrir neitt. Til hvers væri þá dómsmálaráherra alltaf úr Sjálfstæðisflokki ef ætti að láta þá lúta sömu reglum og aðra! Já og til hvers er það ráðherraembætti nema til að draga fólk í dilka og senda þá óæskilegu úr landi hið fyrsta. Þetta er nú lýðveldið sem við fögnum í dag, lýðræðið og viðhorf stjórnvalda til lýðsins.

Þetta er strax orðið lengra en það átti að verða. Ætlaði ekki að segja múkk nema til að ræða það sem blasti við á síðum Fréttablaðsins í dag. Fyrst: Grein eftir Arnar Sverrisson (á bls.13). Svo langt er um liðið síðan hann síðast birti eftir sig kvenhaturspistil að ég hélt að hann hefði kannski dáið í kófinu. Mig langar til að skoða þennan pistil nánar en ekki núna. Ja nema til að segja að hann er sama þvælan og alltaf, nú reynir hann að stilla metoo upp gegn vinnuvernd fyrir karla og segir að konur njóti meiri verndar gegn dónabröndunum í vinnunni en karlar hafa fengið gegn dauðaslysum. Þetta blasir auðvitað við.

Hitt sem var í blaðinu var heilsíðuauglýsing strax á næstu opnu. Þar gagnrýna Samtök áhugafólks um spilafíkn Rauða krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, SÁÁ og Happdrætti Háskóla Íslands — sem saman reka Íslandsspil — fyrir að treysta á „framlög“ veikra spilafíkla til að fjármagna starfsemi sína. Í auglýsingunni er ekki hikað við að draga stjórnarmenn þessara stofnana til ábyrgðar og eru þeir allir nafngreindir. Þetta er byltingarkennd aðferð til að fá þessar stofnanir til að breyta um stefnu, og það besta við þennan dag.
Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, maí 01, 2020

1. maí í samkomubanni

Sólveig Anna var ekki í skrítna 1. maí sjónvarpsþættinum og væri fróðlegt að fá skýringu á því. Var henni ekki boðið eða vildi hún ekki vera með?* Ræðumenn fengu reyndar óskaplega stuttan tíma til að tala, og það er eitthvað öfugsnúið við að útí í öllum veðrum halda þeir langar ræður en inni í hlýju húsi verður ræðan í stikkorðastíl. Nær hefði verið að fækka tónlistaratriðum. Þetta var alveg glataður baráttu-og skemmtiþáttur.

Fleira er glatað á þessum síðustu og verstu tímum. Eftir margra ára sveltistefnu stjórnvalda** sem hafa algjörlega þvertekið fyrir að bæta stöðu öryrkja og aldraðra (nema rétt fyrir kosningar) eru nú ríkisfjárhirslur opnaðar uppá gátt. En ekki til að gauka fáeinum aurum til þeirra sem hafa langt undir lágmarkslaunum að lifa á, nei það eru fyrirtækin í landinu sem er verið að dæla peningum í, og ekki síst fá stórfyrirtæki með mikið eigið fé sem hafa greitt eigendum sínum skrilljónir í arð nú þvílíka fátækraaðstoð frá ríkinu. Og það er alveg bannað að minnast á að fjölskylda Bjarna Ben (sem sem hefur einmitt strangur sagt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái sko ekki neitt) nýtur góðs af fjáraustrinum til ferðaþjónustunnar (Kynnisferðir/Reykjavík Excursions) og að eiginkona Guðlaugs Þórs og þar með hann sjálfur (Hreyfing/Bláa lónið) er einnig þiggjandi þessara góðgerðarstarfsemi. Ekki hafa nein ramakvein borist úr herbúðum Vinstri grænna vegna þessa, ekki frekar en þeir hafa neinar skoðanir á því hvernig enn eina ferðina eigi að ganga framhjá þeim sem verst eru staddir fjárhagslega. Þá er ansi hlálegt að „ekki er kveðið sérstaklega á um það í lögum um aðstoð frá ríkinu til fyrirtækja vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins, að þau hafi ekki notfært sér skattaskjól, né að þau hafi skráð raunverulega eigendur sína“ (RÚV).

Verkalýðsfélögin hafa þó, og þá vil ég nefna Sólveigu Önnu í Eflingu sérstaklega, munað eftir þeim verst settu í samfélaginu, þar með töldum öryrkjum og viljað rétta hlut þeirra eins og vinnandi fólks. Drífa Snædal hefur svo sett þá kröfu fram fyrir hönd ASÍ að hækka atvinnuleysisbætur.

Ein ástæða þess hve fólki gengur illa að lifa af launum sínum, bótum eða lífeyri, er himinhátt leiguverð. Stór leigufélög hafa komið til móts við rekstraraðila veitingahúsa og verslana og gefið þeim eftir leigu í nokkra mánuði til að forða þeim frá gjaldþroti. Enn hef ég ekki heyrt að stór leigufélög hafi lækkað eða frestað leigugreiðslum til þeirra sem eiga sér heimili í húsnæði á þeirra vegum. Þó er eflaust margt af því fólki orðið atvinnulaust eða hefur þurft að minnka við sig vinnu, fyrir utan nú allt það fólk sem hefur aldrei með góðu móti ráðið við þetta sjúklega háa leiguverð. En kapítalistum finna til samstöðu með öðrum kapítalistum sem eru í rekstrarvanda; almenningur hvað þá einhverjir fátæklingar eiga ekki uppá pallborðið hjá þeim. Það fólk getur bara sjálfu sér um kennt að vera fátækt.***

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalag Íslands skrifaði pistil í dag**** þar sem hún segir frá því að
„árið 2006 mynduðu fimm stjórn­mála­flokkar pólitíska sam­stöðu með hags­muna­sam­tökum fatlaðs og lang­veiks fólks og eldri borgurum, undir nafninu „þjóðar­sátt um virkara vel­ferðar­ríki“.“
— Af þessum fimm stjórnmálaflokkum eru þrír nú við stjórnvölinn í landinu: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð.
„Að­gerðir ríkis­stjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til ör­yrkja. Sinnu­leysi síðasta ára­tugar um kjör ör­yrkja má ekki halda á­fram í skjóli nú­verandi kreppu,“
segir í á­lyktun frá stjórn Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands sem sam­þykkt var á stjórnar­fundi í gær. „Stjórnin bendir á að í rúmt ár hafi sam­tal við ráð­herra for­sætis-, fjár­mála- og fé­lags­mála engu skilað og í ár hafi sömu ráð­herrar ekki orðið við beiðni Ör­yrkja­banda­lagsins um fundi.“

Það er svekkjandi að sjónarmið láglaunafólks og bótaþega hafi ekki fengið að hljóma á torgum í dag. Málstaðurinn er mikilvægur en virðist vera að drukkna meðan björgunarhringjum er kastað til fyrirtækja (sem eru í mismikilli þörf fyrir aðstoð og sum ekki á vetur setjandi). Því er enn brýnna en áður að fólk sem styður baráttu verkalýðs og vill velferðarsamfélag sem virkar fyrir alla, láti í sér heyra.

Svo var líka fúlt að kvenréttindakonur gátu haldið uppá með viðeigandi hætti að í dag voru 50 ár síðan Rauðsokkur tóku í fyrsta sinn þátt í 1. maí göngunni. Það má bæta úr því á næsta ári — en baráttan fyrir bættum kjörum má ekki bíða.

Betri kjör — skiljið engan eftir!

___
*Fréttablaðið lagði eina blaðsíðu (bls.8) undir viðtöl við verkalýðsforingja í tilefni dagsins. Þar var talað við Sonju Ýri Þorbergsdóttur formann BSRB, Drífu Snædal forseta ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, en ekki Sólveigu Önnu. Hefur hún unnið sér það til óhelgi að boða til verkfalls í næstu viku?
** Ekki eru allir öryrkjar og aldraðir fátækir og ekki er allt fátækt fólk annaðhvort aldrað eða býr við örorku. En hér vil ég þó benda á áhugaverða grein í Stundinni eftir Kolbein Hólmar Stefánsson þar sem segir:
„Á undanförnum árum hefur framfærsluviðmið örorkulífeyris dregist nokkuð aftur úr lægstu launum. Árið 2009 nam framfærsluviðmiðið fyrir einstakling sem deildi heimili með öðrum fullorðnum einstaklingi 95,4% af lægstu launum á vinnumarkaði. Árið 2019 var viðmiðið komið niður í 75,6% af lægstu launum.“
*** Kolbeinn Stefánsson er einmitt í grein sinni að tala um mýtur sem eiga að réttlæta stöðu fátækra í samfélaginu.
****Öryrkjabandalagið hefur einngig sagt að „grípa þurfi strax til að­gerða sem forða fólki frá sárri fá­tækt“ Öryrkjabandalagið var með heilsíðuauglýsingu (bls. 17) eins og reyndar mörg verkalýðsfélög í Fréttablaðinu í dag. Pistill Þuríðar er á leiðarasíðunni bls. 14.

Efnisorð: , , , , , , , , ,