föstudagur, desember 31, 2021

Gert upp við árið 2020

 verk í vinnslu 


Það er næstum eins og enginn hafi sinnt bloggfærslum hér í mörg ár.*

(skrifað í maí 2023)

___

* Þetta er hvorki loforð né hótun




laugardagur, nóvember 27, 2021

Blóðmerar 2: Meðferð á íslenskum hrossum kemst í kastljós fjölmiðla

 Fyrir þau sem ekki þekkja til hins viðbjóðslega iðnaðar með ‘blóðmerar’ þá er ítrekað tappað blóði af fylfullum hryssum til að selja. Blóðið er notað til að auka frjósemi svína. Grínlaust. 
Svona hljóðaði tölvupóstur sem ég sendi víða til að vekja athygli á myndskeiði því sem komst í hámæli í vikunni. 

Í fyrra
bloggaði ég um blóðmerarhald en fram að því hafði ég ekkert vitað um þennan ógeðfella iðnað þó hann hafi víst verið stundaður hér á landi í fjörtíu ár. 

En það er ekki nóg með að tappað sé af óviljugum dýrum blóði í tíma og ótíma, heldur er það alltaf gert með ofbeldi og stundum hreinlega af mikilli grimmd, eins og komið hefur í ljós í afar óþægilegu 20 mínútna myndbandi gerðu af alþjóðlegum dýraverndarsamtökum, Animal Welfare Founda­tion í Þýska­landi og Tierschutzbund Zürich í Sviss sem auk þess dreifðu 126 síðna skýrslu, en þessi dýraverndunarsamtök höfðu unnið að rannsókn blóðmerahaldsins hér í 2 ár

Flestu fólki með vott af siðviti blöskrar þessi meðferð á hestunum, þessum dálætisskepnum túristanna. En til eru þeir sem finnst jú óþarfi að beinlínis berja hryssurnar en að öðru leyti sé eðlilegt hvernig þær eru reknar í blóðtökubásana, og nauðsynlegt að binda höfuð í óeðlilega stellingu til að tryggt sé að skelfingu lostið dýrið slíti ekki blóðdæluna úr hálsslagæðinni.

Blóðmerarbóndi hefur meira segja skrifað grein og kvartað yfir myndbandinu og ósanngirninni í umræðunni. Matvælastofnun, en allt dýrahald fellur undir hana (sem er ósmekklegt svo ekki sé meira sagt) hefur bæði nú og áður þegar eftir því hefur verið leitað, leggur blessun sína yfir allt nema beinlínis mest brútal ofbeldið sem sást í myndbandinu. 

Þegar Inga Sæland ásamt þremur öðrum þingmönnum flutti frumvarp um að banna blóðtökur úr hryssum skrifaði einmitt MAST álit gegn því. Sem og fjölmargir hagsmunaðilar. 
Kjarninn tók saman umsagnir við frumvarp Ingu Sæland, þar af skilaði Arn­þór Guð­laugs­son fram­kvæmda­stjóri Ísteka (sem kaupir blóðið af bændum og heldur einnig hross til þess að tappa af þeim blóði). inn umsögn. Arnþór sést einmitt í myndskeiðinu þar sem hann reynir að stoppa myndatökur. Dýralæknar skrifuðu einnig umsögn og voru á móti banni við blóðmerarhaldi. Sem og hrossabændur á Norðurlandi.

Henry Alexander Henrysson siðfræðingur situr í fagráð um velferð dýra vinnur nú að ályktun vegna myndskeiðsins. Aðspurður um eftirlit með starfseminni sem er á höndum Matvælastofnunar og dýralækna segir hann: 
„Á blaði virðist þetta vera öflugt eftirlit. Ég held það þurfi að finna aðrar leiðir til að bæta í þetta eftirlit, þegar það er augljóst að við getum ekki treyst öllum fyrir þessari starfsemi. Það eru alveg til leiðir til að tryggja að eftirlitið sé ítarlegra, þær geta verið kostnaðarsamar, og ef það stendur ekki undir sér held ég að samfélagið ætti að íhuga hvort það sé ekki bara sjálfhætt með svona starfsemi.“ 
Formaður félags hrossabænda segir í viðtali við RÚV:
„Það voru auðvitað aðfarir og aðbúnaður þarna sem við getum auðvitað ekki sætt okkur við að sé viðhafður í þessu starfi eða hestahaldi yfirleitt. Nú er búið að stunda þennan blóðhryssubúskap í uppundir 40 ár og að umgjörðin sé ekki betur úr garði gerð eftir allan þennan tíma, eins umfangsmikið og starfið er - er algjörlega óviðunandi,“ og Sveinn sagði að í búskapnum þyrftu velferð, ásýnd og meðferð lands að endurspeglast. „Því er það kannski enn meira sjokk fyrir okkur, sem trúðum því að eftirlitið væri nægjanlegt, að svona lagað hafi átt sér stað mögulega á síðustu tveimur árum.“ Hann sagði að það væri álitamál innan félags hrossabænda hvort búskapur sem þessi ætti rétt á sér. Sjálfsagt væri að hlusta á skýringar þeirra sem stunda þennan búskap. „En það er ekki bannað samkvæmt lögum að gera þetta og á því byggir starfið.“
Fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson segist sorgmæddur. MAST heyrir undir ráðuneyti hans sem og hrossarækt. 

En nú er vonandi almenningsálitið að snúast á sveif með veslings merunum. Skrif gegn blóðmerarhaldi sem hafa birst undanfarna daga og þar af fannst mér þessi bera af:

Ole Anton Bieltvedt er einn þeirra fyrstu til að vekja athygli á blóðmerarhaldi hér á landi
. Hann segir
Í flestum eða öllum öðrum ríkjum Evrópu fyrirbyggja reglur og lög um dýravernd og dýravelferð þetta blóðmerahald. Evrópuþingið er líka búið að samþykkja lög um dýravelferð, þar sem allur innflutningur á kjöti og afurðum úr blóðmerahaldi er bannaður. Þessi lög eiga að taka gildi 2023-2024. Einu löndin, sem blóðmerahald er leyft í, eru því í Suður Ameríku; Argentínu og Úrúgvæ. Í þessum löndum líðst blóðmerahaldið, enda velferð dýra þar varla á dagskrá, hvað þá hátt skrifuð, og dýravernd á lægsta plani.[…]  

Hvernig geta menn ímyndað sér, að þessi fjötrun ótaminnar hryssu og það ofbeldi, sem beita þarf dýrið, til að koma nál í háls og tappa 5 lítrum af blóði af því, geti farið fram með friði og spekt! Hræðsla og æsingur dýrsins byrjar þá strax, þegar folaldið er rekið frá því, og skelfingin og örvinglunin magnast auðvitað, þegar blóðtökumenn höggva aftur og aftur í sama knérunn, beita sama ofbeldinu, viku eftir viku, í 8-9 vikur. Auðvitað er ljóst, að blóðtaka getur einvörðungu farið fram með ofbeldi, barsmíðum og meiðingum; mannúðlegt og dýravænt blóðmerahald er ekki til!

Skýrslan og myndbandið, sem AWF og TSB dreifðu um síðustu helgi, sýna svo og sanna, að ályktun mín var rétt: Aðfarir íslenzkra bænda og dýralækna, alla vega margra þeirra, er ekki skömminni skárri, en gerist í Suður Ameríku. […]
Samúð með blessuðum dýrunum í lágmarki, en meðvirkni og stuðningur við Ísteka og bændur í hámarki. Skyldi MAST hafa ruglast í ríminu með það, hvert hlutverk þeirra er, hverjar skyldur þeirra eru og gagnvart hverjum? […] 
Þarfasti þjónninn kom okkur í gegnum hungur og harðæri dimmra alda. Og hver eru launin Heiftarlegt blóðmerahald og kvalræði útihalds. 60.000 hestar hafa ekkert þak yfir höfuðið og fæstir hafa aðgang að manngerðum skjólvegg, minnst 2 metra háum, sem veitir skjól fyrir helztu áttum, sem þó er lögboðið. Skjólveggir kosta peninga. Yfir hundrað dýr, líka folöld og trippi, urðu úti í fárviðri í hittiðfyrra.

Og, við þurfum að láta útlendinga benda okkur á aumingjaskapinn. Miklir andskotans aumingjar erum við!

Sif Sigmarsdóttir skrifaði einnig um meðferðina á hryssunum, athugið að þetta er sundur-og samanklippt úr stórgóðum pistli hennar sem vert er að lesa frá upphafi til enda: 

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að hlutverk stofnunarinnar sé að vernda „heilsu manna, dýra og plantna“ og auka „velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar“. […] Matvælastofnun lagðist gegn frumvarpi Ingu Sæland. […] 
Athæfi sem dýraréttarlögfræðingur kallaði dýraníð í vikunni á ekki að viðgangast bara af því að einhver fann leið til að hagnast á því. Það réttlætir ekki glórulausar blóðsúthellingar að halda sveitum í byggð.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, allur leiðari hans í heild: 
Enginn þarf að velkjast í vafa um að svonefndar blóðmerar eru beittar harðræði
hér á landi, eftir að hafa horft á hryllilega meðferð á þeim á myndum sem alþjóðlegu dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation gerðu nýverið opinberar. Þær voru teknar með földum myndavélum á bæjum íslenskra hrossabænda sem selja merablóð.

Málið er allt hið ógeðfelldasta, jafnt dýra­níðið sjálft, sem vanræksla opinberra stofnana og næsta augljós meðvirkni með harðneskjulegri græðginni í þessum efnum.
Dýrahald snýst í eðli sínu um dýravernd. En í þessum efnum hafa lögin þar að lútandi verið þverbrotin – og það árum saman. Eftir stendur sködduð ímynd af hrossarækt hér á landi og harla sprunginn stallur íslenska hestsins, sem hefur verið eitt af einkennistáknum íslenskrar þjóðmenningar um aldir, enda einstakur á heimsvísu fyrir fjölhæfni sína. 
Kjarni þessa máls er sá að ómögulegt er að taka blóð úr ótömdum og hálfvilltum hryssum í sérstökum blóðtökubásum án þess að beita þær harðræði, svo sem myndir dýraverndarsamtakanna sanna, en dýrin eru þar bundin í þröngu hólfi, höfuðið reyrt upp og slám skotið yfir og aftan við þau áður en slagæðin á hálsi er rofin og fimm lítrum er tappað af skelfingu lostinni merinni næstu fimmtán mínúturnar – og vel að merkja, allan þann tíma reynir hún allt hvað af tekur að brjótast úr búri sínu. 
Eftir þennan ótuktarskap stendur hryssan varla undir sér, enda búin að missa 15 prósent af blóði sínu – og til að bíta höfuðið af skömminni er athæfið svo endurtekið næstu átta vikur, en þá er búið að tappa af dýrinu sem nemur heildarblóðmagni þess. 
Allt er þetta gert til að svala gróðahyggju mannsins, ekki aðeins þeirra liðlega hundrað bænda sem leyfa þennan óskunda á býlum sínum, heldur líka forkólfa fyrirtækisins Ísteka sem kaupa árlega um 170 tonn af blóði úr þúsundum mera til að auka frjósemi gyltna á svínabúum, en PMSG-hormónið úr fylgju blóðmerarinnar, sem sprautað er í gylturnar, rýfur tíðahring þeirra svo hægt er að sæða þær miklu oftar. Níðingsskapurinn á blóðmerum er því gerður til að fjölga grísum á færibandi í iðnaðarframleiðslu. 
Matvælastofnun skrifar upp á þessi ósköp. Því fari fjarri að „augljóslega þurfi að beita hryssurnar ofbeldi“ við aftöppun blóðsins, eins og segir í einu svara hennar. Þau orð eru komin á öskuhauga eftirlitsins.

Efnisorð: ,

mánudagur, október 18, 2021

Hverjir hafa ástæðu til bjartsýni og hvernig blasir heimurinn við öðrum?

 Undanliðin ár hefur því verið haldið fram að heimurinn eins og hann er í dag sé besti heimur allra heima. Allt sé í blússandi framför, mannkynið hafi aldrei haft það betra og full ástæða sé til bjartsýni og jákvæðni. Ég rifjaði upp grein frá 2017 í Guardian sem fjallaði um bjartsýnisspámennina og glaðbeittar skoðanir þeirra. Þegar ég las greinina aftur fannst mér eitt blasa við sem ég fékk svo staðfest þegar ég gúglaði nöfnunum sem koma fram í greininni. Byrjaði á Svíunum Hans Rosling og Johan Norberg og bætti svo við öllum hinum nöfnunum. Og jú, mikið rétt: allt hvítir karlmenn. Sumir ef ekki flestir yfirlýstir frjálshyggjumenn eins og Norberg sem er viðloðandi Cato stofnunina (sem er á móti íþyngjandi afskiptum ríkisvaldsins, og dyggilega studd af Koch veldinu). Já þeir hafa ástæðu til að vera bjartsýnir, vel stæðu hvítu karlmennirnir. Allt uppávið í þeirra heimi. Engin ástæða til að kvarta. 

Án þess að ég treysti mér til að skrifa á einni kvöldstund upp allt það sem hrjáir mannkynið þessa stundina og heiminn sem við búum í, og sumt horfir sannarlega til verri vegar, þá vil ég aðeins nefna þetta til sögunnar. Allt úr fréttum dagsins.

Ísland: Ungri konu nauðgað af ‘vini’ sínum. Hann játar sjálfur fyrir henni í smsi og játar einnig fyrir vinkonu hennar. En málið var fellt niður. Játning heitir ekki lengur játning, og svo var unga konan víst ekki nógu hrædd. Ergo: má nauðga.

Bandaríkin: Konu nauðgað í lest. Fjölmörg vitni horfðu aðgerðarlaus hjá (nema þeir sem að sögn tóku atburðinn upp) og hvorki reyndu að stöðva manninn né hringja í neyðarlínuna. Ergo: fullkomlega eðlilegt að konum sé nauðgað hvar og hvenær sem er, hvaða vesen á svosem að gera úr því?
Allur andskotans heimurinn: Í stríði hefur hermönnum ávallt fundist réttlætanlegt og þeim hefur liðist um ómunatíð að nauðga konum af óvinaþjóðinni, þar með talið að taka þær til fanga og nota sem kynlífsþræla. 
Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins þegar talað var við Christinu Lamb sem áður hafði reyndar verið í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið um þetta efni þar sem hún sagði m.a. „kyn­ferðis­legt of­beldi í auknum mæli notað sem vopn gegn konum, í stríði, að of­beldið sé kerfis­bundið.“ Hún hefur í áratugi flutt fréttir frá stríðssvæðum, og í Kastljósviðtalinu segir hún að „það sárasta við að ræða við þolendur nauðgana í stríði vera að vita að frásagnir þeirra breyti líklega ekki neinu. Hún segir að skipulagt kynferðisofbeldi gegn konum hafi ávallt fylgt stríðsátökum en síðustu ár hafi það færst enn í aukana“.
„Nauðganir hafa alltaf verið fylgifiskur stríðs. Fyrstu sagnfræðiskrif Heródótusar hefjast á brottnámi kvenna. En árið er 2021 og það er ekki í lagi að þetta tíðkist enn. Ég tel í raun að þetta sé faraldur um þessar mundir. Ég hef verið fréttaritari í 33 ár og undanfarin sex til sjö ár hef ég séð miklu meiri kynferðisleg grimmdarverk gegn konum en áður,“ segir Lamb.
Það er engin ástæða fyrir konur til að vera bjartsýnar. Nauðgarar eru sýknaðir þótt þeir sjálfir gangist við að hafa nauðgað, konum er nauðgað á almannafæri og allir viðstaddir kæra sig kollótta, og nauðganir eru í auknum mæli — og markvisst — notaðar sem vopn gegn konum í stríði. 
Á meðan eru karlmenn bjartsýnir og glaðir og vilja breiða út þá skoðun að allt sé í besta lagi. 

Efnisorð: ,

sunnudagur, september 26, 2021

Kosningaúrslit 2021

Hér átti að koma pistill um úrslit kosninga. En þá kom fréttin um að búið væri að endurtelja í einu kjördæmi og það breytti öllu heila gillimojinu þannig að skipt er um fimm manns, þar af misstu þrjár konur nýfengið þingsæti og inn fara karlar í staðinn. Hin stóra frétt um fleiri konur á þingi en karla þar með orðin falsfrétt. Og nú gæti farið svo að  endurtalningin verði kærð jafnframt því sem farið er fram á endurtalningu í öðru kjördæmi.

Það er semsagt Trumpískt ástand og alls óljóst hvort eða hvenær því lýkur. 

Alveg var það þetta sem við þurftum helst! 

Efnisorð:

fimmtudagur, september 23, 2021

Kosningar 2021 og flokkurinn sem fær ekki mitt atkvæði

 Um daginn tók ég eitt af þessum kosningaprófum. Niðurstaðan var sorgleg: sá flokkur sem (í orði kveðnu) er mest sammála mér er Vinstrihreyfingin-grænt framboð. Það er að segja: sú stefna sem VG flaggar þegar veiða á atkvæði fellur algerlega að hugmyndum mínum um hvernig þetta samfélag á að vera. En ég ætla auðvitað ekki að kjósa VG þrátt fyrir það því síðustu fjögur ár hefur allt annað verið uppá teningnum hjá þessum fyrrum uppáhaldsstjórnmálaflokki mínum. 

Í raun var nægt tilefni að afneita VG þegar þessi fyrrum höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins bauð þeim sama flokki að sitja með sér í ríkisstjórn. Hleypti Bjarna Ben í fjármálaráðuneytið (maður með skrautlega sögu úr viðskiptalífi fyrirhrunsáranna og eigandi bankareiknings í aflandsfélagi) og Sigríði Á Andersen í dómsmálaráðuneytið (þar sem hún skipaði dómara í Landsrétt með slíkum glæsibrag að hún er enn stolt af því) en þau Bjarni og Sigríður voru einmitt orsök þess að ríkisstjórnin þar á undan sprakk. 

En VG tók semsagt að sér að hvítþvo Sjálfstæðisflokkinn af syndum sínum og gefa út það vottorð að samstarfið hafi gengið frábærlega. Samstarfið hefur reyndar ekkert verið ef marka má algjört ábyrgðarleysi VG á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins (eða Framsóknar þar sem einn ráðherrann fór í mál við konu sem sótti um starf í ráðuneyti) og lét því eins og vind um eyru þjóða áköll um að forða fólki frá því að Útlendingastofnun sem er undir stjórn dómsmálaráðuneytisins (þar sem fyrst Sigríður Á, svo önnur og nú þriðja eða fjórða konan úr röðum Sjálfstæðisflokksins stýrir) sendir fjölskyldur með börn sem hér hafa gengið í skóla, barnshafandi konur og fólk sem hefur verið selt mansali eða á yfir höfði sér ofsóknir jafnvel dauða vegna kynhneigðar sinnar úr landi, jafnvel í skjóli nætur, jafnvel með blekkingum, fólk sem er sent úr landi fyrir að vera ekki rétta tegundin af flóttamanni eða ekki hugnanlegur hælisleitandi — burtséð frá mannúð, burstéð frá í hvaða aðstæður þetta fólk er sett. Á þessu þykist vinstrihreyfingin-grænt framboð ekki bera ábyrgð, þótt formaður flokksins sé forsætisráðherrann sem stýrir ríkisstjórnininni og gaf góðfúslegt leyfi sitt til að Sjálfstæðisflokkurinn réði yfir innflytjendamálum. 


Þegar húsið á Bræðraborgarstíg brann í fyrrasumar og  þrjár manneskjur létust sagði forsætisráðherra, þessi fyrsti forsætisráðherra VG, ekki andskotans múkk. Hún hafði ekki samband við fólkið sem slapp úr brunanum en missti eigur sínar, ekki við ættingja þeirra sem dóu, gaf ekki út neina yfirlýsingu um sorg og samúð. 

Í fyrrinótt brann kirkjan í Grímsey. Skiljanlega allir íbúar eyjarinnar í áfalli, og hefðu fengið áfall sama hvaða hús brann. Enginn dó. Enginn var í hættu. Enginn missti heimili sitt. En Katrín Jakobsdóttir, hún var ekki sein á sér að segja hvað henni fannst „óskaplega er sárt að heyra af brunanum“ og hugur hennar hjá íbúunum. Enda innfæddir Íslendingar. Og kosningar eftir nokkra daga. 

En þeir þarna útlendingarnir? Sem misstu allt og horfðu uppá þrjár manneskjur farast? Ekki orði á það lið eyðandi. 

Af öllu því sem ég hef óbeit á VG fyrir og formanni þess flokks að loknu þessu kjörtímabili, og sannarlega hefði ég getað talið upp mörg atriði, þá er meðferðin og skeytingarleysið gagnvart fólki af erlendum uppruna það sem vekur mesta andstyggð. 

Efnisorð: , ,

laugardagur, júní 19, 2021

Kvenréttindadagurinn 19. júní og metoo

 Enginn virðist efast um frásögn karlsins sem segir að hvalur hafi gleypt sig. En þótt ótal konur hafi gegnum tíðina sagt frá kynferðislegu áreiti eða nauðgunum sem þær hafa verið beittar af hálfu karla, og fjarstæðukennt að halda því fram að þær allar séu að spinna þetta upp — er efast um frásögn hverrar og einnar sem stígur fram. Allar hljóta þær að ljúga. Engin vitni sáu hvalinn gleypa manninn.

 

Metoo frásagnir kvenna í ýmsum starfsgreinum komust í hámæli árið 2017 um allan heim. Hér á landi fór önnur bylgja af stað fyrir skemmstu þegar hvíslað var í öllum hornum um fyrst einn og svo annan þjóðþekktan karl. Hvorugur var nafngreindur upphátt en báðir gáfu sig í ljós af fyrra bragði, annar með því að fara í mjög misráðið viðtal við sjálfan sig með fulltingi lögmann síns og lét sig svo hverfa af vettvangi þegar hann sá að það dugði ekki til hvítþvottar, hinn með yfirlýsingu sem benti ekki til þess að hann væri fær um að horfast í augu við allt það sem hann er sagður hafa gert. Í báðum tilvikum risu aðrir karlmenn þessum kynbræðrum sínum til varnar (og reyndar konur líka en í minna mæli og þá síður frægar konur). Og svo fór enn ein umræðan af stað um hvað konur væru andstyggilegar að beina spjótum sínum að svo góðum mönnum, og hvað það ætti að þýða að svipta menn lífsviðurværinu og ærunni. Reyndar er þetta ekki þannig orðað heldur er gargað að þetta séu aftökur án dóms og laga, karlarnir sem um ræðir séu drepnir, og álíka fáránlegt orðalag notað sem á að draga fram hve illa sé að þessum tilteknu karlmönnum vegið — og um leið öllum karlmönnum. 

 

Auk þess sem karlmenn hafa þannig varið sína menn í athugasemdakerfum, eins og þeir alltaf gera og veifa um leið frasanum „saklaus uns sekt er sönnuð“,  hafa nokkrir sest við skriftir og birt greinar beinlínis til höfuðs konum sem ásaka karla um kynferðisofbeldi eða jafnvel gegn feministum almennt, svona til að grafa undan málflutningi kvenna. Í miðri metoo bylgju. 


Einn þeirra er Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður sem segist hafa verið lögmaður tuga kvenna í kynferðisbrotamálum. Og skrifar greinina til að segja að þær séu upp til hópa ótrúverðugar. Gera má ráð fyrir að  brotaþolar æski ekki þjónustu hans hér eftir. Hann á hinsvegar örugglega eftir að fá bisness frá kynferðisbrotamönnum sem ráða hann sem verjanda, en af því segist hann líka hafa reynslu. Nema hann segir reyndar ekkert um það í greininni hvort þeir hafi verið að ljúga. Aukaatriði.


Og hvað annað voru menn að dunda sér við meðan á metoo umræðan stóð sem hæst? Jú, í maí, þegar Me too-bylgjan stóð sem hæst bárust 24 mál til neyðarmóttökunnar, mál sem flest voru innan við sólarhringsgömulÞað eru óvenjumörg mál í einum mánuði. . 

Það var semsagt ekki þannig að karlmenn, þótt þeir hafi hrokkið í vörn, að þeir hafi ekki lagt í stórsókn líka. Og létu sér ekki dálksentimetra fjölmiðlanna nægja. Nei, þeir gáfu í. Nauðguðu fleirum. Umræðan, allar sögurnar sem konur sögðu um hræðilega lífsreynslu — hún hafði hvetjandi áhrif ef eitthvað var. Það er eins og körlum hafi hlaupið kapp í kinn. Nauðgum meira!


Fyrir nokkrum vikum var sýndur þáttur um sænska rannsóknarlögreglumanninn Martin Beck á einni af norrænu sjónvapsstöðvunum. Þar var hann að rannsaka morðmál og fjöldann allan af nauðgunum sem tengdust morðinu. Í ljós kom að þrír gaurar höfðu það fyrir skemmtun að nauðga konum og sendu svo sín á milli skilaboð að verknaði loknum, til að hreykja sér og líka til að hinir vissu að nú ættu þeir að reyna að jafna leikinn. Ég væri ekki hissa á ef slík dæmi fyrirfyndust í raunveruleikanum. Það er eins og íslenskir karlmenn hafi farið í álíka ham meðan metoo sögur streymdu fram: keppst um að nauðga konum. Á meðan voru konur að vonast til að metoo hefði letjandi áhrif á karla, að „umræðan hefði fælingarmátt“, að þeir hugsuðu sig um, breyttu viðhorfi sínu.  


Þvílík bjartsýni!



Efnisorð: , , ,

sunnudagur, júní 06, 2021

Þingmennsku ófétanna að ljúka

 Lengi hefur staðið til að blogga. Tilefni ærin. En í dag er ekki hægt annað en skrá á spjöld bloggsíðunnar þau stórkostlega gleðilegu tíðindi að hvorki Brynjar Níelsson né Sigríður Á Andersen verða í framboði í haust. Þeim var báðum hafnað í prófkjöri. Hafnað af flokksfélögum sínum í Sjálfstæðisflokknum — meira að segja þar hefur mönnum loks ofboðið. Þó fyrr hefði verið. Ekki að ég muni hér eftir líta Sjálfstæðisflokkinn hýru auga; hef á honum ævarandi skömm. En þessi úthreinsun var löngu tímabær. Bæði hafa þau andstyggilegar skoðanir (sem þau deila reyndar að uppistöðu til með öðrum Sjöllum) og hafa í ofanálag  einstakt lag á að sýna öllu því sem telst virðing við fólk af minnihlutahópum eða fólk í erfiðri stöðu algjöra fyrirlitningu. Svo ekki sé talað um sífellda andstöðu þeirra við kvennabaráttu hverskonar og hnjóðsyrði í garð feminista. 

Hneykslin sem Sigríður Andersen hefur verið potturinn og pannan í hafa eflaust gert hana óæskilegri kost á framboðslista fyrir flokksfélaga hennar. En hvað veldur því að Brynjar, sem hefur ekki gert neitt annað en vera Brynjar — þessi sem leggur ekki fram frumvörp en mætir í öll viðtöl þar sem hann gasprar og snýr útúr öllu sem rætt er um — það er næstum óskiljanlegt að honum sé refsað með þessum hætti. Hann hefur fram til þessa verið flokknum einkar gagnlegur við að draga, með áðurgreindum hætti, alla athyglina að sér (sjá ótal fyrirsagnir um hvað 'Brynjar Níelsson segir') og málin sem hann var fenginn til að ræða við fjölmiðla falla í skuggann. Hefur gengið vel hingaðtil. 

En nú losnum við semsagt við hann, vonandi um alla framtíð. Æskilegast væri að þessi óféti hættu strax á  þingi í stað þess að bíða fram að kosningum, en við því er vart að búast. Samt er þetta gleðidagur.


Efnisorð: