fimmtudagur, september 28, 2006

Öll velkomin eða allir velkomnir?

Svo ég haldi aðeins áfram á málfarslínunni þá er er áberandi hvað allur fjöldi fólks verður alltaf að körlum. Séu margar konur og margir karlar saman komin þá er sagt að ALLIR hafi skemmt sér vel. Ekki þau ÖLL, konurnar og karlarnir, heldur ALLIR. Hverjir eru þessir allir? Jú, karlarnir, það eru þeir sem telja.

Og þessi karlkenning er notuð í fleiri tilvikum. Í Mogganum 5. júlí 2006 er fyrirsögnin „Þrír hlutu styrk vegna lokaverkefnis.“ Um er að ræða eina konu og tvo karla, eins og fram kemur bæði í texta og á mynd. Samt eru þau „þrír.“ Ég myndi telja þau sem þrjú.

Merkilegt líka þetta með að orð í orðabókum eru alltaf í karlkyni ef ekki er vitað um kynið, enda þótt kvenkynsorðin séu oftast styttri og taki því minna pláss og hlyti að vera sparnaður í að nota þau sem mest. (Dæmi: Góður – góð, hörkulegur – hörkuleg, bleikálóttur – bleikálótt, gulur – gul.)

En reglan er: Allt hlýtur ávallt að vera kall!

Efnisorð:

þriðjudagur, september 26, 2006

Ekki allt vont í Fréttablaðinu, síður en svo

Bæði lausir pennar og fastir starfsmenn Fréttablaðsins hafa verið í óða önn að skrifa um vændi undanfarið og kveður við allt annan tón hjá þeim en í hinum vonda leiðara Björgvins Guðmundssonar. Sýnist mér flest góða fólkið vera beinlínis að svara honum en svo er auðvitað nauðsynlegt að sem flest skrifi gegn lögleiðingu vændis.

Gott fólk
Sverrir Jakobsson 23. september (Í dag: „Lífið er súludans.“)
Steinunn Stefánsdóttir 24. september (Leiðari: „Vændi er neyð.“)
Katrín Anna Guðmundsdóttir 25. september (Umræður: „Ofbeldi án refsingar.“)
Þráinn Bertelsson 25. september (Bakþankar: „Góðar fréttir og vondar.“)

Og svo skrifaði Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir fína Bakþanka líka 22. sept. og fjallaði þar um skilgreiningu á nauðgun („Hvað er kynfrelsi?“)

Vont fólk
Til að það fari nú samt ekki framhjá neinum, þá undirstrikaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson viðhorf frjálshyggjumanna til annars fólks í pistli í Fréttablaðinu 22. sept. (Í dag: „Menning og markaðshyggja“) með þessum orðum: „Við getum ekki látið stjórnast af náungakærleika, nema þegar um náunga okkar er að ræða.“

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 22, 2006

Lymska frjálshyggjumanna

Leiðari Fréttablaðsins 21.september fjallar um vændisfrumvarpið sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hyggst leggja fram. Það er á þá leið að vændi sé leyfilegt að stunda og kaupa en hinsvegar megi ekki auglýsa það. Það verður semsagt álíka eftirlit með auglýsingum um vændi eins og áfengisauglýsingum, sem líka eru bannaðar eins og öllum má vera ljóst sem sjá ‘léttöl’ auglýst hvað eftir annað. Bara eitthvað brenglað fólk sem les áfengi inní svo saklausar auglýsingar. Eins verður með vændisauglýsingar, sem verða vandlega umorðaðar þannig að allir skilja hvað átt sé við. Og standi ekki ‘vændi til sölu’ þá verður ekki hægt að kæra.

En ég ætlaði að tala um leiðara Fréttablaðsins. Þar er talað mjög gegn sænsku leiðinni og leiðaraskrifari þekkir greinilega öll rökin fyrir henni:

„Vændi er í langflestum tilvikum félagslegt vandamál. Samkvæmt tölum frá Stígamótum hafa 65 til 85 prósent kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi. Þessar konur eru oft illa settar andlega, líkamlega og félagslega.“

Og:

„Auðvitað felast ákveðin siðferðisleg skilaboð í því að gera kaup á vændi refsiverð. Eftirspurn myndi líklega minnka í kjölfarið.“

Þetta skilur leiðarahöfundur. Það sem honum finnst hinsvegar meira um vert er þó að vændi myndi ekki hverfa með öllu. (Ekki fremur en morð hafa alveg lagst af við að þau eru bönnuð með lögum.) Og hann kemst að þeirri uggvænlegu niðurstöðu að,

„þeir sem myndu áfram nýta sér aðstöðu vændisfólks væru ekki löghlýðnustu borgarar landsins.“

Mér finnst auðvitað líka að löghlýðnir borgarar eigi að fá að kaupa sér vændi í friði. Ægilegt að láta illmennum það eftir, góðu kallarnir þurfa líka sitt!

Og svo klykkir hann út með uppáhaldsklisju allra vændisunnenda:

„Í einhverjum tilfellum fer sala kynlífs fram með fullu samþykki og vilja beggja aðila.“

Mikið sem karlmönnum finnst nauðsynlegt að einblína á þessa einu konu sem þeir heyrðu einhverntíman um og sagðist vera happí í starfi og bara ekki linna látum fyrir greddu. Útaf þeirri goðsögn á að réttlæta hverja ferð þeirra til vændiskvenna, allra þessara sem karlmenn eru þegar búnir að misnota.

Hér sviptir leiðarahöfundurinn af sér grímunni og stígur óhikað fram:

„Ríkisstjórnin, eða 63 alþingismenn, hefur ekkert með það að gera að segja fullorðnu fólki hvernig það eigi að haga sér. Fólki á að vera frjálst að selja ótilneytt líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína.“

Margir lesenda halda kannski að leiðarahöfundurinn sé umhyggjusamur náungi sem kynnt hefur sér allar staðreyndir og komist að þeirri niðurstöðu að ríkið eigi ekki að skipta sér af kynlífi fólks. En málið er nefnilega að leiðarahöfundurinn er frjálshyggjumaður. Hann er einn þeirra Heimdellinga og SUS-ara (formaður Heimdallar 2000-2002 og stjórnarmaður í SUS 2001-2003) sem hafa haft sig mjög frammi hin síðustu ár og haft afar slæm áhrif í samfélaginu. Frjálshyggjumönnum er nefnilega slétt sama um hve margar konur eru seldar eða hverjum, svo framarlega sem framboðið af þeim annar eftirspurn og verð helst í jafnvægi við úrvalsvísitölu – eða eitthvað álíka. Mannslíf eru þeim einskis virði og verða aldrei. Ríkisvald er eitur í þeirra beinum og þeir vilja vilja leggja það niður, með öllu sem því fylgir (öll stjórnsýsla og já sveitarstjórnir líka) en lögreglan má starfa og þá eingöngu til að vernda eignarréttinn! Það er það eina sem þeir skilja og vilja: peningar.

Ég á örugglega oft eftir að missa mig útí bölbænir í garð frjálshyggjumanna en þessi leiðari, sem minnir helst á úlf í sauðagæru, er ástæða þess að ég óska þeim til helvítis hér og nú.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 16, 2006

Dýraníðingar

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag var svo ógeðsleg fyrirsögn að minnstu munaði að ég yrði að fleygja blaðinu ólesnu. Þá er ég að tala um fyrirsögnina sem vísaði í náungann sem seldi dýraníðingum aðgang að hestum í Danmörku. Það var svo margt rangt við þetta að ég veit vart hvar skal byrja.

Í fyrsta lagi þá hefði mátt sleppa því að slá þessu upp á forsíðu með þessari fyrirsögn. Það var erfitt að setja blaðið á morgunverðarborðið. (Og rosalega fannst mér þetta eitthvað DV-legir taktar).

Í öðru lagi skiptir ekki nokkru máli að hestarnir eru íslenskir.

Í þriðja lagi er þetta ekki ‘kynlíf’ heldur ofbeldi gegn dýrum og karlmenn sem slíkt stunda – eða selja aðgang að dýrunum – eru dýraníðingar, sbr. barnaníðingar.

Og svo það sem er auðvitað alvarlegast af öllu: verknaðurinn gagnvart hestunum.

Ég hef svosem áður heyrt um karlmenn sem gera svona hluti við kindur og annan búfénað (og man ekki betur en það hafi verið einhver ógeðs-ítölsk-bíómynd í Sjónvarpinu einhverntíman þar sem karlmenn níddust á múlösnum). Ég, eins og allt venjulegt fólk, skil auðvitað allsekki hvernig hægt er að láta sér detta svona lagað í hug og hvað þá að hafa geð á að framkvæma það. En samt tel ég mig vita nokkurnvegin, svona þegar ég velti því fyrir mér hvað veldur.

Karlmenn telja sig hafa rétt á að fá kynferðislegum löngunum sínum svalað hvar sem er og hvenær sem er af hverri þeirri konu sem á vegi þeirra verður. Flestir komast fljótlega að því, eftir tólf ára aldurinn, að það er ekki svo einfalt og læra að hemja sig og bíða eftir að fá viljugan rekkjunaut. Aðrir – og þeir eru verulega margir – sætta sig aldrei við það og láta fátt stoppa sig í því sem þeir vilja. Smáatriði eins og að kona vilji sofa hjá þeim er ekki fyrirstaða (þeir suða, hóta eða hreinlega nauðga) því hennar vilji skiptir þá engu – heldur hvað þeir vilja. Þetta snýst auðvitað ekki alltaf um kynlíf því þetta er líka spurning um að vilja hafa vald yfir öðrum. Það er mjög auðvelt að hafa vald yfir börnum og valdalausust allra eru dýrin, sem geta ekki einu sinni kjaftað frá. Kannski eru einhverjir karlmenn í raun og veru með kynhvöt sem snýr að dýrum en mig grunar að sumir þeirra níðist á þeim bara til að gera eitthvað ‘öðruvísi’, ‘prófa eitthvað nýtt’, eða til að sýnast sniðugir fyrir vinum sínum. Það, að saklaus skepna verður fyrir þeim er þeim engin fyrirstaða því þeir telja sig hafa rétt á að fá þessa útrás fyrir nýungagirnina eða fyndnina eða hvað það nú er, burtséð frá hvernig dýrinu líður.

Og enda þótt einhver segi kannski að skepnur kippi sér ekkert upp við þetta (ég hef í alvöru lent í þannig samtali), þeirra fengitími eða tilhleypingar eða hvað það kallast, einkennist nú ekki beinlínis af upplýstu samþykki, þá myndum við varla vita ef þær yrðu verulega miður sín, er það? Má ekki láta þær njóta vafans og hlífa þeim við ógeði sem þröngvað er uppá þær af skepnu af annarri dýrategund?

Karlmenn – sumir hverjir – eru svo skyni skroppnir að þeim finnst þeir ekki bera siðferðilega ábyrgð á því sem þeir gera öðrum, hvort sem það er kona, barn eða húsdýr. Ef dýrið sýnir ekki svipbrigði þá hlýtur því að vera sama. Ef kona grætur er það bara útaf því að hún er með móral. Ef barn … æ, ég get ekki hugsað það til enda. En allavega, þessum karlmönnum finnst þeir hafa rétt á þessu.

Og þó karlmenn sem ganga svona langt séu vonandi undantekningar (held samt ekki, allavega benda tölur um konur og börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi ekki til þess) þá er alveg öruggt að karlveldið sem slíkt, elur upp í mönnum þá trú að þeir skipti meira máli en konur og börn, svo ekki sé minnst á dýr. Allt frá Biblíunni, þar sem sagt er að konan sé síðri karlmanninum og að hann drottni yfir dýrunum, yfir í samfélög nútímans sem stjórnað er af körlum, þá eru skilaboðin þau sömu: þinn er mátturinn og dýrðin.

Þessvegna finnst þeim þeir hafa rétt á að gera það sem þeim sýnist.

Efnisorð: ,

sunnudagur, september 03, 2006

Þú átt ekki rétt á að horfa á klám eða strippara eða kaupa þér vændiskonu

[Varúð - eftirfarandi gæti hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum]

Um allan heim ERU konur neyddar (eða seldar) í vændi. Þær ERU neyddar (eða seldar) í klámiðnaðinn. Nektardönsurum ER nauðgað. Klámmyndaleikkonum ER misþyrmt, þær barðar og verða fyrir hópnauðgunum. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að konum er nauðgað, þær eru barðar og neyddar í kynlífsþrælkun þúsundum saman.

Ef þú trúir því að klám, í öllum sínum birtingarmyndum (þ.m.t. vændi, stripp og klámmyndir) sé eitthvað sem þú átt rétt á að sjá eða upplifa, þá hlýtur þér líka að finnast að til sé eitthvað sem þú lítur á sem ‘ásættanlegan fórnarkostnað’. Þér hlýtur að finnast að einhver fjöldi 12 ára gamalla barna sem lendir í kynlífsiðnaðinum sé ásættanlegur. Þér hlýtur að finnast ásættanlegt að einhver fjöldi 16 ára stúlkna sé seldur í klámið. Þér hlýtur að finnast að hópnauðgun á klámmyndaleikonum sé ásættanleg, að einhverju marki. Þér hlýtur að finnast að kona sem er rifin sundur af þremur mönnum sem allir hafa mök við hana í einu sé ásættanlegur fórnarkostnaður.

Svo lengi sem líkamar kvenna eru peninganna virði og þeir peningar kynda klámiðnaðinn munu slíkir atburðir eiga sér stað. Enda þótt okkur tækist fyrir eitthvað kraftaverk að stoppa allan kynlífsiðnaðinn hér á landi, þá eru öll hin löndin í heiminum undir sömu sökina seld. Og þaðan koma konur sem eru seldar í ánauð og klámmyndir, og þér finnst ennþá í lagi að horfa á konur í klámi. Þér finnst þú hafa rétt á því. Þér finnst að þinn réttur sé mikilvægari er líf allra þessarra kvenna.

Hvað finnst þér annars ásættanlegur fórnarkostnaður? Hefurðu rétt á að horfa á klám ef það er bara ein lítil stelpa sem er seld í klámið? En ef þær eru fimm? Hundrað? Svona, komdu með tölu. Hver er sú tala kvenna og barna sem þarf að nauðga, drepa og berja til að þér finnist að kannski sé réttur þinn til að horfa á klám ekki þess virði? Hundruðir? Þúsundir? Tugþúsundir?

Fyrir mér er hver einasta kona og hvert einasta barn jafn mikls virði. Og í mínum huga er ekki til ‘ásættanlegur fórnarkostnaður’. Aldrei. Ein kona frá Rúmeníu er of mikið. Henni á ekki að fórna til að fóðra kynlífsfantasíur þínar.

___
Viðbót, löngu síðar: Þessi pistill var þýddur eða a.m.k. soðinn saman úr umræðum sem ég las einhverstaðar, ég man ekki hvar.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 02, 2006

Þakkaðu það feminista

Það er alltaf jafn svekkjandi að heyra um konur sem telja sig ekki feminista. Láta að því liggja að allt sem feministar segi og geri sé hallærislegt. Nöldur og bögg barasta. Ætli þær hafi enga vitund um hverju feministar hafa áorkað? Væri ekki allavega lágmark að þakka fyrir sig í stað þess að segja „mér kemur þetta ekki við?“

Ef þú ert kvenkyns og …

… þú hefur atkvæðisrétt, þakkaðu það feminista

… þú færð borgað eins mikið og karlmenn sem vinna sama starf, þakkaðu það feminista.

… þú fórst í framhaldsnám í stað þess að ætlast væri af þér að þú hættir eftir skyldunámið svo bræður þínir gætu farið í nám því „þú giftist hvort eð er bara,“ þakkaðu það feminista.

… þú getur sótt um hvaða starf sem er, ekki bara „kvennastörf,“ þakkaðu það feminista.

… þú getur fengið eða gefið upplýsingar um getnaðarvarnir án þess að lenda í fangelsi, þakkaðu það feminista.

… læknirinn þinn, lögmaðurinn, prestur, dómari eða þingmaður er kona, þakkaðu það feminista.

… þú tekur þátt í keppnisíþróttum, þakkaðu það feminista.

…þú getur verið í buxum án þess að vera útskúfuð úr söfnuðinum eða flæmd burt úr bænum, þakkaðu það feminista.

… yfirmanni þínum leyfist ekki að þvinga þig til að sofa hjá honum, þakkaðu það feminista.

… þér er nauðgað og réttarhöldin fjalla ekki um síddina á pilsinu eða fyrri kærasta þína, þakkaðu það feminista.

… þú kemur litlu fyrirtæki á laggirnar og þú getur fengið lán út á þitt eigið nafn og lánstraust, þakkaðu það feminista.

… þú kemur fyrir rétt og þér er leyfilegt að bera vitni þér til varnar, þakkaðu það feminista.

… þú átt eign sem er eingöngu þín, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að ráðstafa launum þínum enda þótt þú sért gift eða eigir karlkyns ættingja, þakkaðu það feminista.

… þú færð forræði yfir börnunum í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, þakkaðu það feminista.

… skoðanir þínar skipta máli við uppeldi barna þinna í stað þess að þeim sé algerlega stjórnað af eiginmanninum/föðurnum, þakkaðu það feminista.

… eiginmaður þinn lemur þig og það er ólöglegt og lögreglan stoppar hann í stað þess að lesa þér pistilinn um hvernig þú eigir að bæta hegðun þína sem eiginkona, þakkaðu það feminista.

… þér er veitt prófgráða að loknu framhaldsnámi í stað viðurkenningarskjals fyrir þátttöku, þakkaðu það feminista.

… þú getur gefið barni þínu brjóst á almannafæri svo lítið beri á, án þess að vera tekin föst, þakkaðu það feminista.

… þú giftist og borgaraleg réttindi þín renna ekki saman við réttindi eiginmanns þíns, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að neita kynlífi með sýktum eiginmanni (eða bara „eiginmanni,“ þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt að sjúkraskýrslur þínar séu þitt einkamál en komi ekki fyrir sjónir karlmannanna í fjölskyldu þinni, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að lesa þær bækur sem þú vilt, þakkaðu það feminista.

… þú getur borið vitni í rétti um glæpi eða misgjörðir eigimanns þíns, þakkaðu það feminista.

… þú getur valið að eignast barn eða eignast ekki barn þegar þú vilt en ekki eftir hentugleikum eiginmanns eða nauðgara, þakkaðu það feminista.

… þú sérð fram á að lifa til 80 ára aldurs í stað þess að deyja á þrítugsaldri vegna ótakmarkaðra barneigna, þakkaðu það feminista.

…þú sérð sjálfa þig sem heilsteypta, fullorðna manneskju í stað ósjálfráða einstaklings sem þarfnast karlmanns til að stjórna sér, þakkaðu það feminista.

[stolið úr Veru]

Efnisorð: