þriðjudagur, desember 31, 2019

Annáll ársins 2019

Verkefnastjórn annálaritara bloggsins brást og verður því ekki af birtingu ársannálsins að sinni. Verkefnið er þó enn í vinnslu.

Á meðan: Gleðilegt nýtt ár!

laugardagur, desember 28, 2019

Íþróttamaður ársins 2019

Það verður seint um blogghöfund sagt íþróttir séu helsta áhugamálið. Þó hefur Júlían J.K. Jóhannsson verið í talsverðu uppáhaldi og til þess tekið þegar íþróttafréttamenn hafa gengið framhjá honum þegar þeir kjósa íþróttamann ársins. En loks kom að því!

Til hamingju með verðskuldaðan heiður, Júlían!

Efnisorð:

fimmtudagur, desember 12, 2019

Óveðrið afhjúpaði fúna innviði

Það hefði sennilega enginn trúað því að heilu sveitirnar gætu orðið rafmagnslausar dögum saman. Að bæjarbúar jafnt sem bændur og búfénaður væri í myrkri og kulda, og ekki væri hægt að mjólka veslings kýrnar.* Það kemur semsé í ljós að það er ekki bara vegakerfið sem hefur verið látið sitja á hakanum heldur einnig fjarskipti og viðhald flutningskerfa rafmagns.** Sveitarstjórn Húnaþings vestra og sveitarstjórn Skagafjarðar hafa sent stjórnvöldum landsins tóninn í harðorðum yfirlýsingum vegna þessa.

Þá má benda á fantafínan pistil Hallgríms Helgasonar af sama tilefni og hefst hann svona:

„Á meðan íslenskir milljarðar njóta ónotaðir sólar á Kýpur og Karabí-eyjum norpar fólkið sem skóp þá rafmagnslaust í ofnköldum húsum sínum Norðanlands. Innvirðirnir okkar hafa verið nagaðir niður af Samherjum þessa lands, ránskerfi kvótans, samstöðu aflendinganna og allra þeirra þingflokka. Hvenær verður þýfið sótt og byrjað að byggja upp vorar fúnu stoðir?“

___
*Það gæti þurft talsverðan mannskap eigi að handmjólka kannski 60 kýr tvisvar á dag. Auk þess sem nútíma kýr, er mér sagt, yrðu hvekktar væri reynt að handmjólka þær enda þekkja þær ekkert nema vélar.

** Það kom fram í yfirlýsingu sveitarfélaganna að tengivirki hafi verið ómönnuð sem varð til þess að ekki var hægt að bregðast strax við þegar rafmagnið fór í óveðrinu. En svo eru þeir sem kenna umhverfissinnum um rafmagnsleysið. Heiðar Guðjónsson fjárfestir (áður Heiðar Már Guðjónsson), eigandi Sýnar (Vísir, Stöð 2, Bylgjan) varaformaður og einn eigenda HS veitna (sem á Vesturverk sem ætlar að virkja Hvalá á Strönum) og áfram um um olíuleit á Drekasvæði og lagningu sæstrengja, kennir „andstöðu við uppbyggingu raflína“ um rafmagnsleysið á Norðurlandi. Andri Snær Magnason svaraði: „nei - vegna þess að stóriðjan hefur fengið forgang á alla innviðabyggingu og línur í sveitum landsins eru víða enn ofanjarðar.“ Annarstaðar var spurt: „Hélst Bitcoin náman á Blönduósi í gangi?“ Það er auðvitað galið að Bitcoin námugröftur sem er mjög raforkufrekur sé leyfður hér þegar raforka er ekki tryggð öllum landsmönnum. Eins og Andri Snær bendir á er ekki skortur á rafmagni í landinu, það er hverjir hafa aðgang að henni.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, desember 11, 2019

Karl Ágúst, aflandseyjar og rafmagnsleysi

Það er ósiður minn að skoða stundum DV, ég veit að ég á að hætta því. En nú rakst ég á pistil þar — sem er samt ekki skrifaður fyrir DV heldur tekinn af facebook síðu Karls Ágústs Úlfssonar — en pistill hans er þess virði að lesa hann svo ég endurbirti hann hér svo þið þurfið ekki að óhreinka ykkur við að hækka teljarana á DV síðunni. (Pistillinn er birtur með umorðunum blaðamanns DV.)
Karl Ágúst Úlfsson er kominn með upp í kok vegna þeirrar vegferðar sem Ísland er á. Í pistli sem hann skrifar á Facebook-síðu sinni fer hann yfir öll þau helstu vandamál sem eru í íslensku samfélagi og ástæðuna fyrir því að við höfum ekki ennþá leyst þau.
„Ég bý í samfélagi þar sem læsi og lesskilningur er á hröðu undanhaldi. Það sem okkur þótti sjálfsagt mál fyrir einhverjum áratugum, að börnin okkar gætu notið þeirra eðlilegu mannréttinda að lesa sér til yndis og gagns, það er ekki sjálfsagt mál lengur,“ segir Karl. „Og ástæðan? Tjah, kannski vantar fjármuni í skólakerfið. Kannski þarf að bæta kjör kennara svo þeir bestu endist í starfi og leiti ekki eitthvað annað eftir lífsviðurværi. Kannski vantar líka betra námsefni. Kannski þurfum við að forgangsraða uppá nýtt og veita peningunum þangað sem raunveruleg verðmæti liggja. Sem sagt í menntun og vellíðan æskunnar. Er það kannski þannig sem við tryggjum framtíð okkar sem þjóðar?“

„Við vitum reyndar að allir þessir fjármunir eru til. Við vitum að sem ein ríkasta þjóð veraldar gætum við hæglega eignast besta og skilvirkasta skólakerfi í heimi. En við vitum líka, því miður, að peningarnir skila sér ekki þangað sem þörf er á þeim. Þeir sitja í fjárhirslum þeirra sem hafa eignast auðlindir okkar og troða arðinum af þeim í eigin vasa.“
Næst tekur hann heilbrigðiskerfið fyrir.
„Ég bý í samfélagi þar sem heilbrigðiskerfinu fer hrakandi ár frá ári. Heilbrigðisstarfsfólk flýr land í stórum hópum vegna slakra launa, kostnaður sjúklniga við lækningar á eigin meinum fer síhækkandi, lyfjakostnaður verður mörgum ofviða,“ segir Karl. „Við horfum ráðþrota uppá stjórnvöld reyna að einkavæða lækningar og gera þeim efnaminni endanlega ókleift að fá bót meina sinna á meðan þeir sem meira mega sín geta haldið heilsu ef sjóðir þeirra endast. Og ástæðan? Ætli vanti kannski fjármuni í heilbrigðiskerfið? Ætli við gætum rétt af þessa skekkju ef við bættum kjör heilbrigðisstarfsfólks svo það gæfist ekki unnvörpum upp á aðstæðum sínum? Er þetta kannski spurning um forgangsröðun? Eða liggja ekki raunveruleg verðmæti í heilbrigði þjóðar, lækningu meina og almennri vellíðan?“
„Þessir fjármunir sem uppá vantar eru til, það vitum við. Íslenska heilbrigðiskerfið gæti orðið eitt af þeim bestu í heimi, vegna þess að við eigum fólk sem stenst samanburð við færustu heilbrigðisstéttir veraldar. Meinið er bara að peningarnir sem okkur vantar til að ná þessu marki liggja á aflandsreikningum víðs vegar um heiminn og eru ekki á leiðinni að skila sér á næstunni.“
Þá er komið að vandamálum aldraðra og öryrkja hér á landi.
„Ég bý í samfélagi þar sem aldraðir og öryrkjar lepja dauðann úr skel. Flest þessa fólks hefur unnið hörðum höndum áratugum saman og skilað íslensku samfélagi óendanlegum verðmætum. Við launum því með því að gera það að ölmusumönnum á efri árum, skera endalaust niður lífsgæði þess, gera það að þriðja og fjórða flokks þegnum með lífeyris- og bótakerfi sem í fæstum tilfellum býður upp á mannsæmandi lífskjör. Og ástæðan? Kannski sú að við kunnum illa að þakka það góða sem okkur er gert. Okkur er tamara að gleypa það sem að okkur er rétt og gleyma síðan þeim sem gerði okkur gott.“

„En vitaskuld hefur fólkið sem nú hjarir í kringum fátæktarmörk fært okkur slíkar gjafir bæði í veraldlegu og öllu öðru tilliti að við fáum það aldrei fullþakkað. Málið er bara að arðurinn og vextirnir af vinnu þessa fólks rataði á bankareikninga undir síbreytilegum kennitölum.“
Karl tekur því næst fyrir menningu og listir.
„Ég bý í samfélagi þar sem menning og listir skapa ómetanleg auðævi hvern einasta dag, bæði í beinhörðum peningum, veraldlegum verðmætum af öðrum toga svo og andlegum,“ segir Karl og bendir á að íslensk menningarstarfsemi skilar arði til samfélagsins mörgum sinnum umfram það sem ríkið leggur til í íslenska listastarfsemi. „Þrátt fyrir það eru kjör listamanna hér á landi langtum bágari en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Og samt höfum við haslað okkur völl úti í stóra heiminum og vinnum nú hvern stórsigurinn á fætur öðrum á alþjóðavettvangi. Ef íslensk stjórnvöld áttuðu sig á þeim gríðarlegu verðmætum sem liggja í landkynningu íslenskra listamanna yrðu fjárframlög til menningarmála aukin ár frá ári í stað þess að skera þau niður.“
„Peningarnir eru til, það vitum við vel. Vegna þess að við vitum að við eigum auðlindir sem geta vel staðið undir velsæld okkar allra. Við vitum meira að segja að við erum aflögufær og getum tekið á móti bágstöddu fólki sem ekki á í önnur hús að venda. Vandamálið er bara að arðurinn af auðlindunum okkar, hvort sem um er að ræða gjöful fiskimið eða vatnsorku landsins, skilar sér aldrei á rétta staði. Hann liggur óhultur á Tortola, á Caymaneyjum, í Luxemborg eða hvar það nú er sem skattaskjólin eru öruggust.“
Að lokum tekur hann fyrir spillinguna sem hefur verið mikið í umræðunni hér á landi upp á síðkastið.
„Ég bý í samfélagi þar sem spillingin er orðin svo rótgróinn partur af þjóðlífinu að það þykir óeðlegt að gera athugasemd við hana,“ segir Karl. „Þar sem orðið „fyrirgreiðslupólitík“ er bara hlýlegt og fallegt orð og engin ástæða til að amast við því. Þar sem forréttindi þeirra sem völdin hafa eru hafin yfir allan vafa og þess vegna bara dónaskapur að gera sér grillur yfir því að þeir fari á svig við lög og reglur. Þar sem sumir af valdamestu mönnum samfélagsins hafa orðið uppvísir að því að þverbrjóta leikreglur þess sama samfélags án þess að hafa einu sinni þurft að sæta rannsókn, hvað þá að svara til saka. Þar sem þegnar sem minna mega sín hafa sætt úthrópun og þyngstu refsingu fyrir brot sem hljóta að teljast margfalt léttvægari en þau sem silkihúfurnar hafa framið. Þar sem menn geta einfaldlega beðið af sér reiði almennings yfir misgjörðum sem þeir hafa framið og síðan haldið uppteknum spillingarhætti þegar veðrið er gengið yfir. Þar sem ofbeldismenn geta treyst á stuðning vina sinna í valdastöðum til að sópa níðingsverkum undir hnausþykk teppi kerfisins. Þar sem vilji þjóðarinnar skiptir svo litlu máli að þjóðaratkvæðagreiðsla er hundsuð ef hún hentar ekki hagsmunum valdastéttarinnar. Og samt er þetta kallað lýðræðisríki.“
„Og ástæðan? Tjah, hvað veit ég? En ég hef grun um að hún liggi einhvers staðar á öruggum bankareikningi í öruggu skattaskjóli.“
Lýkur þar pistli Karls Ágústs.

Ofan á allt það svelti við heilbrigðiskerfið og meðferðina á öryrkjum og öldruðum, berast fréttir af því að „engin vararafstöð er við deildina á Hvammstanga þar sem um sextán manns dvelja á hjúkrunardeild“. Rafmagnslaust er í bænum vegna óveðursins og því einnig á hjúkrunarheimilinu. Allskyns rafmagnsstýrð tól og tæki (t.d. rúm, lyftur til að færa fólk úr og í rúmi eða á salerni) eru því ónothæf, sem að öllum líkindum hefur bein áhrif á líðan hinna öldruðu sjúklinga. Af fréttinni má dæma að fyrir löngu síðan hafi verið vararafstöð.

Það er óhugnanlegt að vita til þess að ekki sé hirt um að tryggja rafmagn á sjúkrastofnunum. Ég vísa aftur í pistil Karls Ágústs um hvað hefur orðið um peningana sem ættu að hafa farið í að halda uppi heilbrigðisþjónustu í landinu.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, desember 10, 2019

111. meðferð á bílum

Vefmyndavélar og fréttamiðlar hafa sýnt fjölda bíla aka um Sæbraut og Eiðisgranda og aðrar götur sem liggja að sjó í óveðrinu sem geisað hefur í dag. Ég óska eftir nánari fréttum, eða skýrari myndum, þar sem bílnúmerin koma fram. Þá geta framtíðar bílakaupendur varast þessa bíla eins og þeir forðast Procar bílana. Allavega myndi ég ekki vilja kaupa þá bíla sem ekið var þar sem sjórinn gekk yfir þá.

Efnisorð:

miðvikudagur, desember 04, 2019

Mannauðsstjórnun sem hæfir fjórðu iðnbyltingunni

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, er blaðkálfur sem ég reyni alltaf að lesa. Flest er mjög leiðinlegt aflestrar þannig að ég les allsekki allt, en yfirleitt þó viðtölin og svo Svipmynd, þar sem talað er við eina manneskju „úr atvinnulífinu“ sem segir frá áhugamálum sínum og daglegri rútínu. Nánast algilt að allir vakna fyrir klukkan sex á morgnana til að fara í ræktina áður en börnunum er komið í skóla og svo er drukkið vandað kaffi heima eða á leiðinni í vinnuna. Bókin á náttborðinu er vinnutengd. Algjör undantekning frá þessari reglu var í blaðinu í morgun.

En það var ekki morgunrútína atvinnulífsfólksins sem ég vildi ræða heldur viðtal við framkvæmdastjóra mannauðs hjá Íslandspósti. Ég á eiginlega ekki réttu orðin yfir það en held að oft hafi verið rætt og ritað um svona viðhorf til starfsfólks eins og þar er lýst.

Yfirskrift viðtalsins er áhugaverð: Meðvirkni grasserar á vinnustöðum. Undir það er kannski hægt að taka að nokkru leyti. Stundum þegar eigandi eða yfirmaður í fyrirtæki ræður vini eða ættingja sína komast þeir starfsmenn upp með nánast hvað sem er, og bannað er að blaka við eða gagnrýna óhæfa starfsmanninum því yfirmanninum/eigandanum þykir vænt um hann. Og jú þannig meðvirkni nefnir framkvæmdastjóri mannauðs að einhverju leyti (en reyndar ekki sérstaklega um ættingja eða vini heldur um yfirmenn sem taka ekki á vanhæfum starfsmönnum). En það er afturámóti þetta sem hún kallar „topphegðun“ og „botnhegðun“ sem mig langar að ræða aðeins.

Topphegðun, segir framkvæmdastjóri mannauðs, er „að nálgast verkefni með jákvæðu hugarfari, mæta brosandi í vinnuna, og bjóða góðan daginn. Botnhegðun sé hins vegar að vera neikvæður, mæta fýldur til vinnu og heilsa engum“. Tekið er fram að starfsfólk fái „tækifæri til að skilgreina topphegðun á sínum vinnustað og síðan er gerður sáttmáli um að sýna af sér slíka hegðun“. Ætli starfsmenn megi biðjast undan því að skrifa undir þennan sáttmála? Það að tala um að einhver „mæti fýldur til vinnu“ er furðulegt því það sem fólk kallar stundum „fýlu“ er svipur á fólki sem er í einhverskonar vanlíðan. Örvæntingu, sorg, kvíða.

Framkvæmdastjóri mannauðs segir að sýni starfsmaður af sér botnhegðun sé nú „
auðvelt fyrir stjórnandann að vísa ábyrgðinni til föðurhúsanna og spyrja: „Heyrðu, nú er botnhegðunin farin að taka svolítið yfir hjá þér og við getum ekki samþykkt það á þessum vinnustað. Hvað ætlarðu að gera til að bæta úr því?“
Umorðum þetta: „Heyrðu, nú finnst okkur þú of fúll og við getum ekki samþykkt að þunglyndi þitt/krabbamein konunnar þinnar/fjárhagsáhyggjur taki yfir hegðunina hjá þér — sem er orðin algjör botnhegðun — og hvað ætlarðu að gera til að bæta úr því?“

Framkvæmdastjóri mannauðs hefur svarið fyrir botnhegðunarstarfsmann sem sér ekki útúr vandamálum sínum:
„Ef þú ert ekki tilbúinn til að ástunda topphegðun í starfi til að við getum náð árangri, þá einfaldlega þarftu að velja þér annað starf.“
Orðið mannauður hljómar mjög fallega. En það virðist vera orð sem er notað af þeim sem lítur á starfsfólk sem róbóta en ekki fólk sem á sína góðu og slæmu daga — eða slæm tímabil. Mannauðsstjórar, afsakið framkvæmdastjórar mannauðs, eru ekki í þeim gír (a.m.k. ekki þessi hjá Íslandspósti) að leyfa fólki að vera með persónuleika eða persónuleg vandamál heldur á starfsfólk að vera með yfirborðsbrosið tiltækt á vinnustað öllum stundum. Annað er álitið botnhegðun á vinnustað þar sem allir eiga að vilja vera á toppnum.

Bjakk.

Efnisorð: