miðvikudagur, desember 04, 2019

Mannauðsstjórnun sem hæfir fjórðu iðnbyltingunni

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, er blaðkálfur sem ég reyni alltaf að lesa. Flest er mjög leiðinlegt aflestrar þannig að ég les allsekki allt, en yfirleitt þó viðtölin og svo Svipmynd, þar sem talað er við eina manneskju „úr atvinnulífinu“ sem segir frá áhugamálum sínum og daglegri rútínu. Nánast algilt að allir vakna fyrir klukkan sex á morgnana til að fara í ræktina áður en börnunum er komið í skóla og svo er drukkið vandað kaffi heima eða á leiðinni í vinnuna. Bókin á náttborðinu er vinnutengd. Algjör undantekning frá þessari reglu var í blaðinu í morgun.

En það var ekki morgunrútína atvinnulífsfólksins sem ég vildi ræða heldur viðtal við framkvæmdastjóra mannauðs hjá Íslandspósti. Ég á eiginlega ekki réttu orðin yfir það en held að oft hafi verið rætt og ritað um svona viðhorf til starfsfólks eins og þar er lýst.

Yfirskrift viðtalsins er áhugaverð: Meðvirkni grasserar á vinnustöðum. Undir það er kannski hægt að taka að nokkru leyti. Stundum þegar eigandi eða yfirmaður í fyrirtæki ræður vini eða ættingja sína komast þeir starfsmenn upp með nánast hvað sem er, og bannað er að blaka við eða gagnrýna óhæfa starfsmanninum því yfirmanninum/eigandanum þykir vænt um hann. Og jú þannig meðvirkni nefnir framkvæmdastjóri mannauðs að einhverju leyti (en reyndar ekki sérstaklega um ættingja eða vini heldur um yfirmenn sem taka ekki á vanhæfum starfsmönnum). En það er afturámóti þetta sem hún kallar „topphegðun“ og „botnhegðun“ sem mig langar að ræða aðeins.

Topphegðun, segir framkvæmdastjóri mannauðs, er „að nálgast verkefni með jákvæðu hugarfari, mæta brosandi í vinnuna, og bjóða góðan daginn. Botnhegðun sé hins vegar að vera neikvæður, mæta fýldur til vinnu og heilsa engum“. Tekið er fram að starfsfólk fái „tækifæri til að skilgreina topphegðun á sínum vinnustað og síðan er gerður sáttmáli um að sýna af sér slíka hegðun“. Ætli starfsmenn megi biðjast undan því að skrifa undir þennan sáttmála? Það að tala um að einhver „mæti fýldur til vinnu“ er furðulegt því það sem fólk kallar stundum „fýlu“ er svipur á fólki sem er í einhverskonar vanlíðan. Örvæntingu, sorg, kvíða.

Framkvæmdastjóri mannauðs segir að sýni starfsmaður af sér botnhegðun sé nú „
auðvelt fyrir stjórnandann að vísa ábyrgðinni til föðurhúsanna og spyrja: „Heyrðu, nú er botnhegðunin farin að taka svolítið yfir hjá þér og við getum ekki samþykkt það á þessum vinnustað. Hvað ætlarðu að gera til að bæta úr því?“
Umorðum þetta: „Heyrðu, nú finnst okkur þú of fúll og við getum ekki samþykkt að þunglyndi þitt/krabbamein konunnar þinnar/fjárhagsáhyggjur taki yfir hegðunina hjá þér — sem er orðin algjör botnhegðun — og hvað ætlarðu að gera til að bæta úr því?“

Framkvæmdastjóri mannauðs hefur svarið fyrir botnhegðunarstarfsmann sem sér ekki útúr vandamálum sínum:
„Ef þú ert ekki tilbúinn til að ástunda topphegðun í starfi til að við getum náð árangri, þá einfaldlega þarftu að velja þér annað starf.“
Orðið mannauður hljómar mjög fallega. En það virðist vera orð sem er notað af þeim sem lítur á starfsfólk sem róbóta en ekki fólk sem á sína góðu og slæmu daga — eða slæm tímabil. Mannauðsstjórar, afsakið framkvæmdastjórar mannauðs, eru ekki í þeim gír (a.m.k. ekki þessi hjá Íslandspósti) að leyfa fólki að vera með persónuleika eða persónuleg vandamál heldur á starfsfólk að vera með yfirborðsbrosið tiltækt á vinnustað öllum stundum. Annað er álitið botnhegðun á vinnustað þar sem allir eiga að vilja vera á toppnum.

Bjakk.

Efnisorð: