miðvikudagur, nóvember 13, 2019

Ýmislegt var vitað um Samherja en ekki skánaði það

Ég hélt að ég vissi ýmislegt um Samherja og Afríkuútgerð þeirra en uppljóstranir Kveiks í þættinum í gær komu mér mjög á óvart. Enn bættist í upplýsingaflóðið um atferli Samherja í viðskiptum við Afríkuþjóðir þegar Stundin var borin í hús í morgun, umfjöllunin nær yfir 40 blaðsíður. Ég á langt í land með að ná að lesa það allt. Þess í stað rifjaði ég upp hvað hefur áður birst hér á blogginu um Samherja. Alloft er það í samhengi við aðrar útgerðir eða hagsmunasamtök þeirra sem eitt sinn Landssamtök íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), nú Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem oftsinnis koma við sögu á blogginu. Þar af hefur Samherji verið sérstaklega nefndur hér:

Maí 2012 í tilefni af auglýsingum LÍU,
„andstöðu þeirra við kvótafrumvarpið, hvernig kvótinn hefur hingað til fært þeim hagnað og ekki síst dómsdagsauglýsingarnar þar sem heimsendi (og helför) er spáð verði frumvarp ríkisstjórnarinnar að veruleika.“
Júní 2012, sjómannadagur í skugga hótana LÍÚ þar sem er minnst á rányrkju Samherja við strendur Afríku og vörslu gróðans í skattaskjólum. (Því miður eru allir hlekkirnir í bloggfærslunni dauðir, en einn þeirra vísaði á þessa úttekt Inga Freys Vilhjálmssonar sem birtist í DV í maí 2012.)

Júní 2014, hér lýsir blogghöfundur samúð með baráttu smælingja á borð við Þorstein Má Baldvinsson Samherjaforstjóra. (Fyrsti hlekkurinn er dauður en vísaði á framangreinda frétt Inga Freys; næsti hlekkur er virkur og síðustu tveir óvirkir en virðast vísa á efnislega sömu frétt og hann.)

Árið 2014 minnst á Samherja í bloggi sem fjallaði um arðgreiðslur og veiðigjöld. Þar kom fram að: „Greidd veiðigjöld Samherja náðu 44 prósentum af arðgreiðslunum.“

Í febrúar í fyrra var rætt um bæjarstjórnarmenn á Akureyri og Dalvík sem fóru í skemmtiferð til Þýskalands í boði Samherja. Enginn þeirra tengdi það neinskonar spillingu.

En áhugaverðast var að rifja upp eftirfarandi.

Þegar Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra lagði hann Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og var hún sameinuð utanríkisráðuneytinu (breytingin sem tók gildi 1. janúar 2016 var mjög umdeild).

Þegar Gunnar Bragi var að reyna að afla þessari hugmynd sinni fylgis, svo snemma sem haustið 2014, var skrifað blogg. Þar kemur fram nöturleg framtíðarsýn Jóns Kalmans rithöfundar sem virðist hafa haft — ef ekki pata af því hvað Samherji var þá þegar að bralla í Namibíu — en allavega góða innsýn í hvernig íslensk fyrirtæki gætu notfært sér „tækifærin“ í Afríku.

„Að auki, eins og Jón Kalman Stefánsson rekur í grein undir titlinum „Eru Íslendingar kaldynd og sjálfhverf þjóð?“, þá vill Gunnar Bragi utanríkisráðherra leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og sameina ráðuneyti sínu. Það er auðvitað í nafni einhverrar hagræðingar. En Jón Kalman afturámóti kemur með svo skuggalega skýringu á því hvað sé þarna á seyði að mann rekur í rogastans. Hann segir að fullyrt hafi verið í sín eyru að hér sé á ferðinni
„vilji til að nýta þróunarsamvinnu í því skyni að koma íslenskum fyrirtækjum á framfæri í Afríku, þar eru nefnilega mörg tækifærin. Ég verð nú að segja að þótt ég hafi sæmilegt ímyndunarafl, hafði mér ekki dottið í hug að íslenskur ráðamaður gæti upphugsað jafn kaldrifjaða áætlun.“
Ég segi eins og Jón Kalman, sem þó hefur sennilega fjörugra ímyndunarafl en ég, að mér hafði ekki dottið í hug að utanríkissráðherra ætlaði að nota uppbyggingu þróunarsamvinnu í þágu íslenskra fyrirtækja í útrás. En ef rifjaðar eru upp ránsveiðar Samherja við Afríkustrendur þá á þetta auðvitað ekki að koma manni á óvart.“
Ekki veit ég hvort önnur fyrirtæki en Samherji hafa herjað á fyrrum þróunarsamvinnulönd Íslands. Vonandi er Samherji sér á báti með þá svívirðu sem þeir hafa hingað til komist upp með gagnvart Namibíu. Eða eins og segir í fyrirsögn bloggpistilsins: Kannski ekki allir Íslendingar en sannarlega of margir og þeir hafa of mikil völd og ítök.

Efnisorð: , , , , , ,