sunnudagur, október 27, 2019

Konur og aðrir feministar hafa haft sig of mikið frammi: Nú skal sótt að þeim með öllum ráðum

Fyrirsögn viðtalsins sem fyrst blasti við á Vísi í morgun benti til krassandi sögu um vonda vinnuveitendur: „Var látin hugleiða í miðju atvinnuviðtali“. En viðtalið við konuna, sem þáði starfið, var reyndar lofsöngur um nýju vinnuveitendur hennar sem framleiða hugleiðsluforrit, auk þess sem nokkuð var tæpt á starfsferli hennar. Viðtalið var ógnarlangt en ég las það til enda (og hugsaði með mér hvort þetta væri kostuð kynning á hugleiðsluforritinu) því ég klára nánast alltaf það sem ég byrja að lesa.

Svo las ég, og það er annar ávani minn, athugasemdirnar.

Og sjá. Þrír karlmenn höfðu þust á staðinn til að býsnast, hneykslast og vera með skítkast.

Aðeins einn þeirra hafði tjáð sig til að gagnrýna hugleiðslu sem slíka „og allt bullið“.

Hinir þoldu ekki viðtalið vegna þess að talað var við konu. Konu í viðskiptalífinu. Konu með kvenlíkama.

Svona hljóma athugasemdir þeirra.

Guðbjörn Guðbjörnsson (hægrimaður sem nýverið fór mikinn vegna stefnu Íslandsbanka í jafnréttismálum og virðist almennt ekki þola feminista)gagnrýndi orð konunnar um að „konur þurfi meira að sanna sig í tæknigeiranum en karlar“ og vildi meina að vegna þess að hún hefur hlotið skjótan frama þá sé þetta augljóslega rangt, og klykkir hæðnislega út með:
„Ég óska Kristínu velfarnaðar við að semja við hrokafulla, kærulausa, lata, illa upplýsta og hyskna miðaldra karlmenn um sölu á rándýrum "afslöppunarútbúnaði" fyrir stressaðar ofurkonur og hægri femínista.“
Einhver hægri maðurinn hefði verið kátur með slíkt langt viðtal um viðskiptalífið þar sem einstaklingur er greinilega að uppskera eins og hann sáir. En Guðbjörn hatar sennilega feminisma of mikið til að geta samglaðst neinni konu sem vogar sér að nefna kynjamisrétti.

En tuðið í Guðbirni er ekkert miðað við Ólaf Eyjólfsson.



„Vagisil stink á þessa.“ Fyrir fólk eins og mig sem skildi ekki sneiðina og þurfti að gúgla, þá er Ólafur að vísa í vörur sem ætlaðar eru til að 'bæta' lykt frá kynfærum kvenna. Hann er að segja að það sé vond lykt af kynfærum konunnar sem viðtalið er við.

Þetta er eitthvað það andstyggilegasta sem ég hef séð lengi úr herbúðum karla sem hata konur.

DJÖFULL GETA KARLMENN VERIÐ ÓGEÐSLEGIR.

Efnisorð: ,