sunnudagur, október 20, 2019

Nýja stjórnarskráin (sem enn hefur ekki verið tekin í gagnið) sjö ára gömul

Sjö ár eru liðin frá því að nýja stjórnarskráin var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjö ár og enn hefur hún ekki verið tekin í gagnið. Þorvaldur Gylfason talar um sjö ára svívirðu, Illugi Jökulsson segir þetta vera sjö ára sviksemi við þjóðina. Jóhanna Sigurðardóttir segir að lýðræðið sé fótum troðið.

Þorvaldur Gylfason rekur söguna svona:
„Þið munið hvað gerðist. Bankamenn, sem voru sumir síðan dæmdir til samtals 88 ára fangavistar, og stjórnmálamenn, sem var öllum hlíft við refsingu, lögðu landið á hliðina 2008. Fólkið reis upp, barði potta og pönnur og heimtaði stórhreingerningu og nýja stjórnarskrá. Alþingi lét undan, lamað af ótta, boðaði til þjóðfundar 2010 og leyfði fólkinu í landinu milliliðalaust að kjósa Stjórnlagaráð sem samdi frumvarp 2011 í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins. Hæstiréttur reyndi að skjóta kosninguna niður en skotið geigaði. Frumvarpið var samþykkt með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Þá var það eitt eftir að Alþingi lyki málinu með því að staðfesta frumvarpið fyrir þingkosningarnar 2013 og síðan aftur eftir kosningarnar. Alþingi brást og bisar nú við að semja eigin stjórnarskrá, stjórnarskrá flokkanna og útvegsfyrirtækjanna frekar en stjórnarskrá fólksins. Atgangur Alþingis er svívirðileg atlaga að lýðræðinu í landinu, réttnefnd tilraun til valdaráns.“
Þorvaldur segir ennfremur:
„Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 ber þunga ábyrgð. Henni bar að neyta þingmeirihlutans sem fyrir lá með undirskriftum 32ja þingmanna til að staðfesta nýju stjórnarskrána vorið 2013 en stjórnin bar ekki gæfu til þess. Eigin flokksmenn keyrðu forsætisráðherrann niður með fulltingi nýrra formanna þv. stjórnarflokka, Árna Páls Árnasonar í Samfylkingu og Katrínar Jakobsdóttur í VG. Óhæfuverk þeirra markaði upphaf þeirrar sjö ára svívirðu sem fólkið í landinu þarf enn að búa við. Gömlu helmingaskiptaflokkarnir snerust báðir gegn þjóðinni þegar mesti óttinn rann af þeim eftir hrun og hafa nú báðir verið klofnir í herðar niður. Hitt er enn lakara að fyrsta meirihlutastjórn lýðveldisins án beggja þessara hermangs- og einkavinavæðingarflokka skyldi bregðast trausti kjósenda þegar svo mikið lá við. Vinstri græn innsigluðu samsekt sína með því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn 2017, stjórn sem þykist nú sitja við að semja nýja stjórnarskrá* í stað þeirrar sem 67% kjósenda samþykktu 2012.
Sjónarhorn Jóhönnu Sigurðardóttur:
„Tilraun ríkisstjórnar minnar seinni hluta kjörtímabilsins til að lögfesta þennan nýja samfélagssáttmála sem þjóðin sjálf átti svo mikinn þátt í að skapa, mistókst. Ekki vegna þess að vilja vantaði hjá ríkisstjórninni, heldur vegna heiftúðugrar og óbilgjarnar stjórnarandstöðu, sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir svifust einskis í nær fordæmalausu málþófi og beittu öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nýr samfélagssáttmáli, sem samþykktur hafði verið með tveim þriðju hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, næði fram að ganga. Lýðræðið var fótum troðið.

Þjóðin hefur nú verið svikin af stjórnvöldum um þessa nýju stjórnarskrá í sjö ár. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að færa þjóðinni þá heilsteyptu stjórnarskrá sem fólkið bíður enn eftir. Kannski á að samþykkja lítinn hluta hennar á þessu kjörtímabili m.a. um þjóðareign á landi. Hætta er á með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn verði valinn lægsti samnefnari og haldlítið auðlindaákvæði.

Það er ástæða til að þakka Stjórnarskrárfélaginu, undir öflugri forystu Katrínar Oddsdóttur,fyrir skelegga og þrautseiga baráttu við að vinna málinu brautargengi.** Ég er sannfærð um að þjóðin mun ekki líða að stjórnmálamenn taki frá henni það lýðræðislega stórvirki sem þessi einstaki samfélagssáttmáli er, þannig að nýtt Ísland verði að veruleika.“
Illugi Jökulsson leggur áherslu á þátt útgerðarmanna í málinu og bendir á að þingmenn, sem eru ráðnir í vinnu hjá þjóðinni eins og hverjir aðrir vinnumenn til að sjá um daglegan rekstur þjóðarheimilisins, hafi gerst þjónar sægreifanna:
„Vegna ákvæða nýju stjórnarskrárinnar um auðlindir í þjóðareign, gagnsæi, upplýsingu og fleira, þá litu sægreifarnir á hana sem sannkallaða ógæfu.

Og í stað þess að þreyja þolinmóðir hið grimma él af örvum ógæfunnar, sem þeim fannst vera, þá ákváðu sægreifarnir að grípa vopn mót bölsins brimi og knýja það til kyrrðar.

Og sægreifarnir og þjónar þeirra hófu því opinskáa baráttu gegn nýju stjórnarskránni sem þjóðin ætlaði að setja sér.

Það dugði ekki. Þrátt fyrir linnulausan áróður og nærri vitfirringslegt málþóf þjóna sægreifanna á Alþingi samþykktu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratvæðagreiðslunni 2012 að plagg stjórnlagaráðs yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Sérstakri ánægju var lýst með auðlindaákvæðið sem sægreifunum var svo uppsigað við.

Sægreifarnir og þjónar þeirra urðu að skipta um gír. Nú skyldi stinga plagginu niður í skúffu og láta það rykfalla þar.

Og það hefur síðan verið höfuðverkefni allra nýrra þjóna sægreifanna.

Vilji þjóðarinnar skal að engu hafður, vilji sægreifanna skal fá að ráða.“
Fréttir í dag herma svo að Píratar og Samfylkingin ætli sér að leggja fram frumvarp um nýja stjórnarskrá á Alþingi. Frumvarpið mun byggja á vinnu Stjórnlagaráðs, nýju stjórnarskránni frá 2012 og vinnu Alþingis frá 2013. Ekki veit ég hvort það er til bóta, betra færi líklega á því að nota einfaldlega þá stjórnarskrá sem samþykkt var 2012. En þetta hljómar þó betur en útvatnaða stjórnarskráin sem núverandi ríkisstjórn hyggst bjóða uppá — í boði sægreifanna.

Eða eins og Illugi segir:
„Í sögubókum framtíðarinnar munu menn nefnilega furða sig á því af hverju þjóðaratkvæðagreiðslunni var ekki samstundis framfylgt. Hvurslags lýðræði var þetta? verður spurt.“

___
* Í samráðsgátt stjórnvalda má lesa einkar beinskeittar og góðar athugasemdir, sem flestar (allar?) eru á einn veg: Halda sig við þá stjórnarskrá sem valin var 2012, takk.
(Talandi um samráð: Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, skrifaði lofpistil um ríkisstjórnina sína fyrir tveimur dögum undir yfirskriftinni Samráð gegn sundrungu. Óljóst hvort á að hlæja eða gráta yfir lestrinum. Kolbeinn var gestur í Silfrinu í dag og ræddi sérstaklega Sigmund Davíð í sambandi við Panamaskjölin og hve slæmt það hefði verið fyrir orðspor Íslands; benti þá Margrét Tryggvadóttir honum á að sama gilti um Bjarna Benediktsson sem VG hefðu þó farið í ríkisstjórn með.)
** Katrín Oddsdóttir var í stórgóðu viðtali í Silfrinu í tilefni dagsins.
[Viðbót] Morguninn eftir birtist í Fréttablaðinu ágætur pistill eftir Guðmund Steingrímsson: Sagan af stjórnarskránni. Einnig er áhugavert að lesa alþingisræðu Guðmundar um tillögur stjórnlagaráðs í október 2011 þar sem hann rekur feril málsins fram að því.

Efnisorð: , , , ,