föstudagur, september 20, 2019

Hverju breytti Metoo?

Í vikunni var haldin fjölsótt alþjóðleg ráðstefna hér í borg til að ræða metoo hreyfinguna/byltinguna: hvað gerðist, hverju breytti það og hvað gerist næst. Ráðstefnan stóð í þrjá daga og var römmuð inn af eftirfarandi atburðum:

Konu var hrint fram af svölum og liggur nú stórslösuð á spítala.
Karlmaður var með ógnandi tilburði í háskólastofnun þar sem mikill meirihluti nemenda er konur, m.a. lokaði hann sig inni með nemendum og fróaði sér. Hann var strax látinn laus eftir skýrslutöku.

Bergþór Ólafsson klaustursvín tuddaðist þar til hann varð for­maður umhverf­is- og sam­göngu­nefndar að nýju. Allur ein afsökun auðvitað eins og venjulega og ekki til hroki í kallinum.

Jakob Bjarnar birti frétt á Vísi um enn einn kallinn sem auglýsir verslun sína með því að (láta Jakob Bjarnar vita að hann sé að) selja nektardagatal. Fátt sniðugra auðvitað, og þar á ég jafnt við framtak nektardagartalsframleiðandann og framtak blaðamannsins andfeminíska.

Svo féll dómur í Landsrétti í dag þar sem eins árs afsláttur var veittur karlmanni sem hafði tvívegis nauðgað þáverandi eiginkonu sinni „sem og blygðunar- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum. Þá var maðurinn einnig sakfelldur fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni sem og að hafa brotið gegn fjarskiptalögum með því að koma fyrir GPS-staðsetningartæki á bifreið eiginkonu sinnar“. Karlmaðurinn hafði fengið fjögurra ára dóm í héraði en vegna þess að „meðferð málsins hefði dregist úr hófi“ var dómurinn styttur niður í þrjú ár. Enda þurfa auðvitað kynferðisbrotamenn alltaf að njóta vafans og tafir reiknaðar þeim í vil.

Annar karlmaður naut einmitt vafans í Landsrétti í dag, hann var sýknaður af nauðgun* bara vegna þess að hann hélt sig fast við sína sögu (konan var jafn staðföst í sinni frásögn en það var ekki nóg) en hann hélt því fram að þau hefðu haft samfarir með vilja þeirra beggja. Áverkar á konunni voru, einsog alltaf, sagðir vera vegna þess að „kynlífið var harkalegt“.

Þetta var nú aldeils fín vika fyrir konur og rétt þeirra til að ráða yfir eigin líkama og að vera lausar við ofbeldi og niðurlægjandi framkomu sem og annað kynferðislegt áreiti.

___
* [Viðbót, síðar] Þóra Þórsdóttir skrifaði um þennan dóm hér.

Efnisorð: , , , , ,