fimmtudagur, júlí 25, 2019

Nýi seðlabankastjórinn er eins og eftir uppskrift

Fjármunirnir sem ríkisstjórnin setur í heilbrigðismál eru ekki nærri nógu miklir, eins og vitað er. Eins og ríkisstjórnin veit en gerir ekkert í því. Og staðan er því þannig að hjartasjúklingar bíða sjúklega lengi eftir aðgerðum (en eru reyndar afogtil látnir halda að þær verði framkvæmdar á næstunni en svo er allt í plati) og fólki í sjálfsvígshugleiðingum er vísað frá geðdeildinni. Þetta er óþolandi ástand — og ekki bara það heldur lífshættulegt eins og dæmin sýna: nú síðast í gær var verið að jarða ungan mann sem lést í kjölfarið á að hafa verið meinað um innlögn á geðdeild.

Nýi seðlabankastjórinn sem handvalinn var af forsætisráðherra er alveg rétti maðurinn fyrir þessa ríkisstjórn: sonur fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna( og þar með er búið að gleðja gamlan samherja og græða gömul sár), og svo er nýi seðlabankastjórinn frjálshyggjumaður (þrátt fyrir faðernið) sem fellur vel að lífsskoðunum Bjarna Ben.

Og reyndar hefur Ásgeir Jónsson, nýbakaður seðlabankastjóri, lýst yfir skoðun sinni á fjármögnun heilbrigðiskerfisins í pistli sem hann skrifaði í fyrra. Þar
„gagnrýndi hann harðlega ákall Kára Stefánssonar og tugþúsunda Íslendinga um stóraukin framlög hins opinbera til heilbrigðiskerfisins og sagði að færa mætti rök fyrir því að „öll besta almannaþjónustan á Íslandi“ væri „skipulögð af frjálsum félagasamtökum eða grasrótarsamtökum“ frekar en hinu opinbera.“(Stundin)
Það að hann hafi unnið hjá Kaupþingi við að ljúga að almenningi í aðdraganda bankahrunsins er auðvitað bara betra, og seinni tíma störf fyrir GAMMA hafa greinilega ekki skemmt fyrir. Tilvonandi atvinnurekendum hefur fundist viðeigandi að verðlauna hann með feitu djobbi.

Til hvers losuðum við okkur við Davíð Oddsson?




Efnisorð: ,