laugardagur, júní 29, 2019

Þegar Jakobínar eru orðnir ráðherrar, eru þeir ekki framar jakobínskir ráðherrar

Það er merkilegt að bók sem er skrifuð fyrir níutíu árum sem fjallar um atburði sem gerðust í og eftir frönsku byltinguna á átjándu öld minnir á köflum á atburði sem hafa átt sér stað — eða eru enn að eiga sér stað — í samtímanum. Höfundur bókarinnar, Stefan Zweig,* segir reyndar að kommúnisminn hafi komið fram í fyrsta sinn árið 1793 (bls. 27), og virðist hafa rússnesku byltinguna og byltingarforingja hennar talsvert í huga meðan hann skrifar bókina. Hann setur tildæmis samasemmerki milli hinna frönsku Jakobína, sem voru róttækir byltingarsinnar, og sósíalista 20. aldarinnar.

En þá að nokkrum þeim atriðum sem eiga enn að einhverju leyti við um vora daga. Þegar hér er komið sögu er byltingin afstaðin og komið árið 1895 eða þar um bil.
„Nýtt vald er að koma undir sig fótum í Frakklandi og þess þjónn ætlar Fouché sér að verða. Þetta nýja vald eru peningarnir. Naumast hefur gröfin gleypt Robespierre og liðsmenn hans, þegar peningarnir eru orðnir alls ráðandi og hafa þúsundir þjóna og þræla til að stjana við sig. Nú sjást aftur á götunum viðhafnarmiklir vagnar, sem fallegir hestar með skínandi aktýgjum gagna fyrir, og í vögnunum sitja yndislegar konur í skrjáfandi silkikjólum, hálfnaktar eins og grísku gyðjurnar. Æskulýðurinn, skrautlega búinn, í hvítum, þröngum nankinsbuxum og gulum, brúnum eða rauðum jökkum, lætur fákana spretta úr spori í Boulogne listigarðinum. Hringskreyttar hendur sveifla svipum gulli búnum og láta þær oft ríða á þeim, sem áður stóðu fyrir ofbeldisverkunum. Í snyrtivöru- og gimsteinaverzlunum er þröng mikil og á örskömmum tíma þjóta upp fimm hundruð, sex hundruð, þúsund dans- og skemmtiskálar. Skrautleg hús eru byggð og keypt, fólkið þyrpist í leikhúsin, brallar, veðjar, kaupir, selur og spilar fjárhættuspil innan við silkidyratjöld Palais Royals. Gullið er komið aftur — ósvífið, aðgangsfrekt og drýldið.

En hvar voru peningarnir í Frakklandi á árunum 1791-1795? Þeir voru þar, en þeim var leynt alveg eins og í Austurríki og Þýzkalandi 1919, er auðmennirnir klæddust tötrum og kveinuðu um fátækt sína vegna óttans við að kommúnistar létu greipar sópa hjá þeim. Á meðan Robespierre réði lögum og lofum, var hver maður grunsamlegur, sem eitthvað barst á. Þá var auðurinn aðeins til óþæginda. En nú má enginn sín neins nema sá, sem hefur gnægð fjár. Og svo vel vill til — eins og ávallt þegar er á ringulreið — að ágæt tækifæri bjóðast til þess að safna fé. Fjármunir skipta um eigendur — fasteignir eru seldar — það gefur gróða, jarðeignir útflytjendanna eru boðnar upp, — á því er hægt að græða. […]

Og svo er hin óþrjótandi auðuppspretta. Árið 1791 höfðu nokkrir menn — alveg eins og 1914 — komist að þeirri niðurstöðu, að hægt væri að hagnast vel á styrjöld, þessari mannætu, sem allt leggur í rúst. En nú […] rann upp gullöld braskaranna og birgðasala hersins. […]

Og vegna hinna góðu „sambanda,“ sem Fouché hefur nú við hina nýríku annars vegar og hina spilltu ríkisstjórn hins vegar, stofnar hann nú nýtt félag, sem á að annast um birgðaúthlutunina til Scherers hersins. Liðsveitir þessa hrausta herforingja fá lélegan skófatnað og skjálfa í skjóllitnum hermannakápunum. Þær bíða ósigur á sléttunum á Ítalíu. En hverju skiptir það? Mestu varðar, að Fouché, Hinguerlot-félagið og sennilega Barras sjálfur hafi sínar vissu tekjur. Nú er hann farinn, viðbjóðurinn sem Fouché, róttæki Jakobíninn og kommúnistinn, hafði á hinum „fyrirlitlega skaðsemdarmálmi“ þremur árum áður og hafði svo mörgu orð um, nú eru gleymd ókvæðisorðin, sem hann lét dynja á hinum illviljuðu auðmönnum, og nú er það gleymt, að „hinn sanni lýðræðissinni þarf ekki annað en brauð og járn og fjörtíu ecus í daglaun.“ Nú er um það eitt að ræða að verða loks sjálfur ríkur. […]

Enn hafa hin viturlegu orð Mirabeaus reynzt sönn, og enn þann dag í dag eiga þau við sósíalistana: Þegar Jakobínar eru orðnir ráðherrar, eru þeir ekki framar jakobínskir ráðherrar.

Frakkland vill aðeins hafa frið og ró og góða fjármálastjórn.“

___
Af blaðsíðum 69-73. Á nokkrum stöðum var bætt greinarskilum í textann til að auðvelda lesturinn. Af sömu ástæðu var síðasta setningin stytt án þess að geta þess með hornklofum.

* Bók Stefans Zweig kom út árið 1929 og hét á frummálinu Joseph Fouché: Bildnis eines politischen Menschen en var gefin út hér á landi 1944 undir heitinu Lögreglustjóri Napoleons: Joseph Fouché. Magnús Magnússon íslenzkaði.

Efnisorð: , , ,