sunnudagur, júní 02, 2019

Sjómannadagurinn 2019

Nú hillir undir að aftur verði kosið um stjórn hjá Sjómannafélagi Íslands og er vonandi að sú kosning fari heiðarlega fram þetta sinn, og auðvitað er óskandi að Heiðveig María Einarsdóttir verði formaður nýrrar stjórnar.

Þann sautjánda apríl 2003 var í þeim hluta Morgunblaðsins sem hét Viðskipti/Atvinnulíf (einnig kallað blað B) næstum heil opna lögð undir viðtöl við konur í sjómannastétt. Meginviðtalið er við Ragnheiði Sveinþórsdóttur og Þórunni Ágústu Þórsdóttur. Einnig var talað við Sigrúnu Elínu Svavarsdóttur sem er „eina konan sem lokið hefur 4. stigs skipstjórnarnámi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, skipherrastiginu svokallaða, en það gerði hún árið 1981“.

Viðtölin eru hér mjög stytt.*

TVÆR konur stunda nú nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og mun önnur ljúka fyrsta stigs prófi í vor. Frá upphafi skólans hefur ein kona útskrifazt af öðru stigi, fjórar af því þriðja en aðeins ein hefur lokið fjórða stiginu, skipherrastiginu svokallaða. Aðeins þrjár konur hafa lokið fjórða stigs námi frá Vélskólanum, sú fyrsta 1978 og sú síðasta 2001. Það er ekki algengt að konur afli sér menntunar til stjórnunarstarfa á sjó, en tvær ungar stúlkur eru nú að nýta sér þá menntun sína.

Þórunn Ágústa Þórsdóttir brautskráðist frá Vélskóla Íslands og Ragnheiður Sveinþórsdóttir lauk þriðja stigs stýrmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, báðar í desember árið 2001. Þær voru þannig samtíða í námi, þá einu konurnar á skólabekk með hátt í 200 karlmönnum. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að þeim varð strax vel til vina.

Þórunn Ágústa:
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vélum og langaði til að láta á það reyna hvort að þetta væri ekki eitthvað sem ég gæti lagt fyrir mig. Líklega er áhuginn sprottinn frá föður mínum sem útskrifaðist úr Vélskólanum árið 1979, sama ár og ég fæddist. Þegar ég var í maganum á mömmu gekk ég undir nafninu vélstjórinn á meðal skólafélaga pabba en þeir hættu að kalla mig það þegar ég fæddist. En það rættist víst úr mér, þó þeir hafi greinilega ekki gert ráð fyrir því. Þó ég hafi ekki farið mikið með pabba til sjós þegar ég var lítil, kom ég oft til hans um borð og fékk stundum að ræsa og drepa á vélinni og þótti það ógurlega spennandi.“

Ragnheiður hóf nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík haustið 1998, strax að loknu skyldunámi og lauk þriðja stigi skipstjórnarmenntun þremur árum síðar, aðeins 19 ára gömul. Hún er þriðja konan sem klárar þriðja stig stýrimannanáms frá skólanum og aðeins ein kona hefur lokið fjórða stigi, skipherrastiginu. Ragnheiði er, líkt og Þórunni, sjómennskan í blóð borin. Hún er fædd og uppalinn í Reykjavík en fór fyrst til sjós þegar hún var 16 ára gömul og var á sjó í sumarog jólaleyfum frá náminu, aðallega á fraktskipum. Frá því að hún kláraði námið við Stýrimannaskólann hefur hún verið á ýmsum bátum frá Vestmannaeyjum, bæði togurum og netabátum en nú síðast var hún á Guðmundi VE á nýafstaðinni loðnuvertíð.

Þær Þórunn og Ragnheiður eru sammála um að viðhorf til bæði vélstjórnar- og skipstjórnarnáms þurfi að breytast. Námið sé mjög hagnýtt og sífellt fleiri sæki sér þessa menntun, án þess endilega að ætla sér að starfa til sjós. „Þetta nám hefur ekki verið metið að verðleikum. Skipstjórnarnámið snýst til dæmis um miklu meira en siglingafræði og stöðugleika skipa,“ segir Ragnheiður. „Í náminu er til að mynda kennd hagfræði, markaðsfræði, fiskifræði, fiskvinnsla og meðferð afla, auk fleiri hagnýtra greina sem vitaskuld nýtast víðar en einmitt í sjómennskunni.“

Þær stöllur segja miklar ranghugmyndir uppi um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og námi tengdu greininni. Það hafi haft í för með sér að konur skorti hreinlega kjark til að mennta sig á þessum vettvangi.

„Ef konur hafa á annað borð áhuga á því að mennta sig í sjávarútvegi þá er ekkert sem mælir gegn því að þær láti af því verða. Ég þekki til kvenna sem segja sig hafa langað til að læra vélstjórn en ekki treyst sér til þess vegna þess að litið er á starfið sem karlmannsstarf,“ segir Þórunn og Ragnheiður segir svipað viðhorf ríkjandi varðandi skipstjórnarmenntunina.

„Margar konur langar til að starfa til sjós en viðhorfið hefur verið þannig að þær hafa ekki kjark til að láta drauminn rætast,“ segir Ragnheiður og bætir við að sjómennskan hafi breyst mikið síðustu árin og líkamlegt erfiði sé ekki eins mikið og áður. „Það hafa glettilega margar konur hafið nám við skólana en því miður hafa þær ekki allar klárað. Það á vonandi eftir að breytast,“ segja þær.

Þórunn er aðeins þriðja konan sem klárar vélstjórnarnám við Vélskóla Íslands og sú fyrsta sem útskrifast frá skólanum í heil 18 ár eða frá því að Rannveig Rist, núverandi forstjóri ÍSAL, útskrifaðist frá skólanum. Hún viðurkennir að það hafi vissulega verið skrýtið að hefja nám við skólann, eina konan í hópi hátt í 200 karlmanna. „Fyrsta daginn leið mér eins og í dýragarði, það mynduðst hópar af strákum fyrir utan skólastofuna því allir vildu berja augum stelpuna í Vélskólanum,“ segir Þórunn.

„Það var líka erfitt fyrir okkur að ganga inn í matsal sjómannskólans til að byrja með, þar sátu allir strákarnir úr bæði Vélskólanum og Stýrimannaskólanum. Ég þorði ekki að stíga fæti þar inn fyrstu vikurnar,“ segir Ragnheiður og er greinilega skemmt við tilhugsunina. „En þegar Kennaraskólinn hóf að nýta matsalinn líka breyttist kynjahlutfallið konum í hag og þá var líka haft orð á því að hávaðinn og skvaldrið í salnum hefði aukist til muna. En við féllum ótrúlega fljótt inn í hópinn og urðum fljótlega einar af strákunum,“ segja vinkonurnar.

Ragnheiður vill lítið gera úr þeirri staðreynd að hún er sennilega eina konan sem hefur nýlega gegnt yfirmannsstöðu á íslensku fiskiskipi. Hún segir að skipsfélagarnir taki sér eins og hverjum öðrum nýliða. „Viðbrögðin eru ekkert öðruvísi en á öðrum vinnustöðum, nýliðum er alltaf misjafnlega tekið. Ég varð að minnsta kosti ekki vör við mikla fordóma. Það eru þó alltaf til einhverjir sem segja að það sé ekki hægt að nota konur til sjós en eftir nokkra daga eru þeir nú yfirleitt farnir að kalla mig elskuna sína og verða hálf klökkir þegar ég fer frá borði. Ef maður sýnir dugnað og áhuga á starfinu þá hverfa strax allir fordómar. Ég hef gengið í öll störf um borð og það hafa sjaldan komið upp vandamál.“

Þær Þórunn og Ragnheiður segjast þó hafa orðir varar við fordóma í garð kvenna sem stunda sjóinn, sumir karlmenn bókstaflega neiti að vinna með konum. „Margir eru hræddir við að hafa konur um borð, sérstaklega í löngum veiðiferðum. Þar getur einangrunin orðið mikil og sumir eru hræddir við afleiðingar þess, án þess þó að tilgreina sérstaklega hverjar þær ættu að vera. Það hefur heyrst að eiginkonur sjómanna hafi sett sig upp á móti því að útgerðir ráði konur á skip sín!“ Vinkonurnar segja að fólk hafi einnig oft undarlega mynd af þeim konum sem starfi til sjós. „Myndin er gjarnan sú að þær séu hálfgerðar karlkonur og ýmsar ranghugmyndir á lofti. Það er auðvitað alrangt, það sést bara á okkur sem erum svona fínar og sætar,“ segja þær Þórunn og Ragnheiður hlæjandi að lokum.

Þá er komið að viðtalinu við Sigrúnu sem útskrifaðist með skipstjórnarréttindi árið 1981.
Sigrún segir að sér hafi yfirleitt verið vel tekið hvar sem hún kom um borð, þrátt fyrir að í þann tíma hafi verið afar sjaldgæft að konur réðu sig í skipspláss. „Vissulega voru einstakir gamlir sjóhundar sem fussuðu og sveiuðu, vildu ekkert hafa með einhverja stelpu á dekki, hvað þá ef að hún var yfirmaður þeirra. En það bráði nú fljótt af þeim. Það er dálítið sérstakt að það voru helst miðaldra menn sem frekar voru tortryggnir í minn garð en þeim allra elstu fannst mjög skemmtilegt að starfa með konu til sjós.“
Þegar viðtalið er tekið árið 2003 er Sigrún grunnskólakennari á Stykkishólmi.
Sigrún hefur samt ekki sagt alveg skilið við sjómennskuna, því hún bregður sér oft til sjós á sumrin. „Mér finnst nauðsynlegt að fá smá sjávarloft í lungun öðru hverju. Ég hef leyst af á sumrin í siglingunum og hef líka verið á eyjaferjunni Særúnu. Ég efast hinsvegar um að ég myndi vilja vera til sjós allan ársins hring. En draumurinn er
að fá sér lítið trilluhorn til að geta skroppið út á sjó og jafnvel náð sér í soðið,“ segir Sigrún.

Til hamingju með daginn, sjómenn af öllum kynjum!

___
* Beinir tenglar á viðtölin þurfa að vera þrír: Fyrri blaðsíða opnunnar og seinni bls. og baksíðan.

Efnisorð: ,