föstudagur, apríl 05, 2019

Kjarasamningar tókust

Sem oftar er ég sammála Illuga Jökulssyni og í þetta sinn um nýgerða kjarasamninga. Félagsmenn verkalýðsfélaganna eiga að vísu eftir að samþykkja, og það getur alveg verið að það renni ekki smurt ofan í þá að launahækkanirnar séu lægri en vonast var og skili sér seint og skattalækkanirnar líka, hvað þá að eiga að fórna kaffitímum. Það kemur allt í ljós. En samt er þetta eflaust allt mikið meira en samtök atvinnulífsins höfðu hugsað sér (nema þetta með kaffitímana; því atvinnurekendur eru eins og forstjóri Icelandair sem vill kreista meira vinnuframlag útúr starfsfólkinu). Mér finnst reyndar Illugi fara aðeins framúr sér varðandi sérlegan sendiboða SA og skil ekkert í honum að hrósa Halldóri Benjamín. Ekki langar mig að hrósa ríkisstjórninni fyrir hennar þátt, en dáist hinsvegar að verkalýðsforystunni að hafa ekki hvikað frá því að stjórnvöld yrðu að vera þátttakandi í kjaraviðræðunum.

Eins og Illugi hef ég tekið eftir (og skrifað um) útreiðinni sem verkalýðsforystan fékk t.d. í leiðurum Fréttablaðsins.
„Alls konar fólk, allt frá PR-mönnum atvinnurekenda til leiðarahöfunda Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, fór um þau hrakyrðum verstum – óhikað var talað um þau eins og nánast „sturlað“ og „sjúkt“ fólk. Með sínum „vitfirrtu“ kröfum myndu þau aldrei ná samningum, enda væri það alls ekki markmið þeirra – markmið þeirra væri beinlínis að leggja samfélagið á hliðina og allt í rúst.

Já, þetta var beinlínis fullyrt.“
Og ég hef líka tekið eftir að enginn af leiðurum Fréttablaðsins hefur atyrt Skúla Mogensen fyrir að hafa rústað Wow með þeim afleiðingum að rúmlega þúsund manns misstu vinnuna. Ekkert talað um að leggja samfélagið á hliðina og allt í rúst þegar kemur að svoleiðis gosum. En verkalýðsforystan sem var að berjast fyrir bættum kjörum fyrir lægst launaða fólkið, það sætti árásum.

En með öllum sömu fyrirvörum og Illugi gerði, þakka ég Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Ragnari Þór Ingólfssyni sérstaklega, og einnig Drífu Snædal og Vilhjálmi Birgissyni og fleirum forsvarsmönnum verkalýðsfélaga fyrir að berjast ótrauð fyrir bættum kjörum þrátt fyrir andstyggilegan mótbyr.

Efnisorð: ,