þriðjudagur, mars 05, 2019

Verkföll mega ekki bitna á neinum

Það kemur sumum á óvart að það stefni í verkföll. Þeim finnst ótrúlegt að fólk sem vinnur lægst launuðu störfin hafi í atkvæðagreiðslu kosið að fara í verkföll. Einnig kemur það sama fólki á óvart að skoðanakannanir sýni stuðning við verkföll. Mér finnst merkilegt að nokkur manneskja sem fylgist með fréttum skuli láta sér þetta koma á óvart. En sannarlega eru margir sem tala gegn verkalýðshreyfingunni og í sumum kreðsum virðist almenn skoðun að allar kröfur láglaunafólks séu öfgar sem muni kollsteypa þjóðfélaginu.

Það fer auðvitað aðallega eftir pólitískum línum og að einhverju leyti eftir efnahagslegri afkomu fólks hvað því finnst um kröfur verkalýðshreyfingarinnar og boðuð verkföll.

En það sem mér finnst fyndnast er þegar óskapast er yfir því að þau fyrstu til að fara í verkfall verði starfsfólk á hótelum og í hópferðaakstri; lykilfólk í ferðaþjónustu.
„Það eru til margar leiðir til verkfalla því er það mér algjörlega óskiljanlegt að byrja á því að blóðga ferðaþjónustuna varanlega í fyrstu lotu.“ [Úr aðsendri grein í Frbl. í dag.]
Voða er lélegt af verkalýðsfélögin einbeiti sér að fyrirtækjum þar sem áhrifin af verkföllunum koma strax í ljós: túristar sem kvarta og eigendur fyrirtækjanna hringja í Bjarna (frænda) og heimta að eitthvað verði gert (t.d. semja við verkalýðsfélögin) til að þeir geti áfram rekið hótelin sín og rúturnar. Nei, það er alveg glötuð leið til að beita verkföllum sem bíta til að koma fyrirtækjum almennt og sérstaklega ferðaþjónustunni — þessari áberandi og mikilvægu atvinnugrein — í skilning um að hún verði að sætta sig við að hækka launin við starfsfólkið og hvetja til samninga. Allt annað en það! Það eru margar leiðir til verkfalla, eins og maðurinn sagði, og það verður að finna aðra leið.

Eftir miklar vangaveltur hef ég fundið starfsstétt sem heppilegt er að senda í verkfall: lyftuverðir.

Efnisorð: