fimmtudagur, janúar 31, 2019

Pálmatré í janúar

Það er stórundarlegt þegar umræðuefnið þessa dagana er aðallega kuldinn (og hugsanlegt heitavatnsleysi) og ófærðin að talið berist í næstu andrá að pálmatrjám. Það er líka furðulegt að láta sér detta í hug að planta hér trjám sem eiga rætur að rekja (!) til suðrænna landa með mildara loftslag. Gler á víst að vera utanum og upphitun og líklega þá gervibirta líka. Allt eins ónáttúrulegt og hægt er. Ég skil þetta bara ekki. Hér er pistill eftir konu sem skilur þetta ekki heldur. Mér finnst þetta hallærislegt og glatað. Svo kemur þetta beint ofaní braggamálið sem gerir þetta enn verra; dönsku stráin og ógnarkostnaðurinn ættu að vera víti til varnaðar, en virðast nú eiga að varða veginn að annarri klikkaðri framkvæmd.

Nú vona ég að hneykslun minni á þessu máli sé ekki tekið þannig að ég hljóti að vera á móti list í almannarými eða bara list almennt (verandi nú nýbúin að lýsa áliti mínu á Seðlabankamálverkunum). Það er síður en svo, sem ég get vonandi sannað með því að vísa á pistil um útilistaverkin í Breiðholti sem var birtur hér á blogginu.

En rétt eins og nektarmyndir eiga ekki við á vinnustöðum þá eiga pálmatré ekki heima í nyrstu höfuðborg jarðkúlunnar. Jafnvel þótt pálmatrén komin í glerkúpul heiti listaverk og séu eftir virta listakonu.

Það er góð stefna að hafa útilistaverk sem víðast. En þarna tel ég að skotið hafi verið langt yfir markið. Þetta er bara rugl.

Efnisorð: ,