fimmtudagur, janúar 10, 2019

Fröken klukka

Enn er rætt hvort breyta eigi klukkunni á Íslandi svo hún verði nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins. Almenningur er beðinn að gefa álit sitt og hefur úr þremur kostum að velja.

A. Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.

B. Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins (dæmi: kl. 11:00 nú, verður kl. 10:00 eftir breytingu).

C. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana.
Hjá Vísi er búið að setja valkostina í töflu (neðst í fréttinni) og gera grein fyrir kostum og göllum við hvern og einn.

Annars ætti að gera það að skilyrði fyrir að svara spurningunni og/eða að tjá sig í athugasemdum vefmiðla að gefa upp hvort viðkomandi er það sem kallað er A eða B týpa, það er að segja morgunhani eða nátthrafn. Nokkuð ljóst að morgunhönum hugnast núverandi fyrirkomulag og eru eflaust í hópi þeirra sem skilja ekki afhverju fólk fer ekki bara fyrr að sofa. Þeir merkja því eflaust við A liðinn, enda A týpur.

Blogghöfundur er í síðarnefnda hópnum, eins og sjá má á hvað klukkan er þegar þessi bloggfærsla er birt.

Það mætti seinka klukkunni um tvo tíma mín vegna.

Efnisorð: ,