sunnudagur, desember 09, 2018

Einn féll af stalli og svo hinir sem lengur hafa svamlað í feninu

Það er er tvennt eða kannski þrennt margt sem ég á enn ósagt um Klausturgate og afleiðingar þess.

1.
Það er óþolandi hvað fólk tyggur endalaust upp ógeðslegustu orðin sem fyllisvínin af Klausturbarnum notuðu. Orð sem notuð var um Ingu Snælad (orð sem ég minnist ekki að hafa séð eða heyrt síðan Tígulgosinn lagði upp laupana) er nú skrifað í annarri hverri athugasemd og fréttaþulir eru látnir lesa þetta upp og leikkonur leiklesa það á sviði. (Afhverju leikkonur? Mér er sá gjörningur óskiljanlegur.) Vinsamlega hættið að nota þetta viðbjóðslega orð. Það var nógu slæmt að heyra það og lesa það í nákvæmlega þeirri frétt sem fjallaði um þann hluta upptökunnar.

2.
Ég hélt því fram í fyrri bloggfærslu að allir (nema stækir Simma-aðdáendur) væru sammála í athugasemdakerfum fjölmiðlanna, allir verðu konurnar sem ráðist var á, allir fordæmdu þingmennina sex sem mæltu fram, hlustuðu á og hlógu saman að kvenfyrirlitningu, hinseginfyrirlitningu og fötlunarfyrirlitningu.

En það er samt ekki svona einfalt. Það var nefnilega samhljómur og allir saman í liði að kveða niður svona viðhorf og orðbragð meðan það voru bara fréttir og birtar upptökur, eða talað var við konurnar (og eftir atvikum aðra) sem bar á góma á Klausturbarnum. Og í raun var furðulegt hve margir, sem hafa allt á hornum sér þegar konur/feministar tala um ýmis baráttumál sín eða ræða lífsreynslu sína í #metoo, voru alltíeinu með konum í liði þegar valdamiklir karla voru að níða þær.

En þegar viðtöl eða tilvitnanir í orð þekktra feminista komu fram á sjónvarsviðið, sérstaklega ef feministinn hét Hildur Lilliendahl, eða einhver vogaði sér að minnast á eitraða karlmennsku, þá umhverfðust andfeministarnir aftur í sitt gamla far og fóru að æpa. Um leið afhjúpuðu þeir fávisku sína því öllum sem hafa kynnt sér kvennabaráttu síðustu ára mátti vera ljóst að feministar hafa árum saman verið að tala um orðbragð og hegðun karla eins og þá sem átti sér stað á Klausturbarnum, og að það hefur lengi verið umfjöllunarefni feminsta og kynjafræða að skoða birtingarmyndir karlmennskunnar, ekki síst neikvæðar birtingarmyndir sem Klausturgate er auðvitað skýrt dæmi um.

En andfeministarnir sem hafa árum saman rifist um feminisma við feminista hafa enn ekki fattað þetta, og hafa því greinilega aldrei nennt að kynna sér hvað feminismi snýst um — og hafa þó ýmsir feministar eytt miklum tíma í að rökræða við þá og útskýra, aftur og aftur. En nei, andfeministarnir sjá bara Klausturgate sem afmarkað fyrirbæri. Sjá ekki tenginguna við raunverulegt líf kvenna, rannsóknir fræðikvenna og baráttu feminista. En aðallega fór auðvitað í taugarnar á andfeministunum að einhver skyldi voga sér að segja karlmennsku eitraða.

3.
Stundin birti upptöku af málþinginu sem var haldið um stjórnmál og Klausturgate um daginn. Fínir fyrirlestrar og umræðurnar ágætar. Það var þó ögn óþægilegt að hlusta á Þorsteinn Víglundsson. Ekki það, hann sagði ekkert stuðandi, var ekki dónalegur eða hrokafullur eða var neitt að verja drykkjusvínin á Klausturbarnum. Nei það sem var óþægilegt var að allt sem hann sagði hljómaði svo vel — og hljómaði svo ansi líkt því sem Gunnar Bragi sagði heilagur á svipinn þegar hann þóttist vera He for She. Hvernig er annað hægt en hugsa hvort Þorsteinn meini nokkuð með því sem hann segir, því ekki gerði Gunnar Bragi það.
Þingmenn — þá á ég við karlana — ættu kannski að halda eins og eina rakarastofuráðstefnu sín á milli og ræða hve mikinn trúverðugleika þeir hafa allir tapað á þessu ógeðlega fyrirlitningartali Klausturbarsvínanna og þá sérstaklega hegðun og orðbragð Gunnars Braga.

Ekki bætir heldur úr skák að einn af þeim þingmönnum sem áður hafði þá áru yfir sér að vera í hópi góðu gæjana (ef þeir eru yfirleitt til; ég er efins) hefur einnig reynst hafa annan mann að geyma. Mér finnst sjálfsagt að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar segi af sér þingmennsku.* Mér finnst það hinsvegar ekki jafn brýnt og að Klaustursvínin segi af sér. Munurinn liggur aðallega í því að Ágúst Ólafur réðst ekki gegn samstarfskonum sínum, þar af leiðir þarf þolandi áreitni hans ekki að vinna með honum alla daga, það þurfa hinsvegar konurnar sem Klaustursvínin hrakyrtu að gera segi þau ekki af sér.

Með því að þessi hegðun Ágústs Ólafs komst í fréttir er orðið ljóst að hann hefur ekki öðruvísi viðhorf til kvenna en Klaustursvínin (og önnur karlrembusvín). Vilji kona tala við hann einslega álítur hann það tilboð um kynlíf (ég er nokkuð viss um að ef karlmaður vill tala við hann einslega hvarflar vart að honum eða öðrum karlrembum að þá sé næsta skref að stunda kynlíf). Hafni konan tilburðum hans til að hefja leika þá verður hann foj og hrakyrðir hana. Hann gengur að því gefnu að konur sem vilja tala við hann vilji sofa hjá honum og ef þær hætta við (eða ætluðu sér það aldrei) þá eru þær vondar og svikular manneskjur og eigi skilið að hraunað sé yfir þær. Hljómar ekki ósvipað ummælum Klaustursvína um konur sem „leika sér að karlmönnum“. Þessvegna er Ágúst Ólafur ekki mikið skárri en þeir — en þó eru þeir verri því þeir ötuðu svo margar manneskjur auri og heilu jaðarhópana að því verður ekki jafnað saman.

Semsagt, Ágúst Ólafur er enn einn úlfurinn í sauðagæru og dregur enn úr trúverðugleika þingmanna sem hafa þóst styðja kvennabaráttuna. Og ég ítreka: dregur úr trúverðugleika allra karlmanna sem þykjast vera með okkur í liði.

Það hlýtur að vakna sá grunur hjá fleirum en mér að þeir hafi kannski allan tímann allir verið að þykjast.

___
* [Viðbót] 11. desember skýrði þolandi kynferðislegrar áreitni Ágústs Ólafs Ágústssonar frá málavöxtum og eru þeir á nokkuð annan veg en Ágúst Ólafur sagði í yfirlýsingu sinni.


Efnisorð: , , , ,