miðvikudagur, nóvember 28, 2018

He for she — barátta Gunnars Braga Sveinssonar fyrir konur

Þegar Gunnar Bragi Sveinsson var enn í Framsóknarflokknum með Sigmund Davíð í forsæti þá var Gunnar Bragi mikill talsmaður jafnréttis. Framsóknarflokkurinn verðlaunaði hann fyrir að hafa „sett jafnréttismál á dagskrá. Í ræðum á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna hafi hann talað fyrir jafnrétti og mikilvægi þess að fá karlmenn með í baráttuna fyrir kynjajafnrétti“. Hann hlaut líka athygli erlendra fjölmiðla fyrir (þá fyrirhugaða) ráðstefnu um jafnrétti sem ætluð var körlum eingöngu, svokallaða rakarastofuráðstefnu. Um tíma leit út fyrir að Gunnar Bragi væri mikill feministi.*

En svo situr hann þögull hjá (eða skrapp hann á klósettið og ummælin féllu á meðan?**) þegar Bergþór Ólason samflokksmaður hans í Miðflokknum notar viðurstyggileg orð um Ingu Sæland. Kallarnir í hennar flokki Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson hreyfðu engum mótmælum þegar þeir heyrðu þessi orð um flokksformann sinn. Þetta virðist bara þykja eðlilegt meðal þessara kalla að tala svona um konur. Meðal þingmanna að tala um þingkonu. Meðal karla að tala um samstarfskonu sína.
Viðstaddir voru semsagt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir (sem ræddu málin á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn) ásamt Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptöku. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika.
Það var auðvitað fleira sagt í þessu samtali sem þykir fréttnæmt, sendiherraráðningin þykir tíðindum sæta (það plott var reyndar strax augljóst)***.

En hér þykir mér mikilvægt að ræða aðkomu Gunnars Braga. Hann talar reyndar sjálfur illa um þingkonur**** (í öðrum hluta viðtalsins sem birtur var rétt áðan). Talar niðrandi um útlit þeirra og gáfur — eina þeirra kallar hann „helvítis tík“. Eina konan sem er viðstödd reynir að benda körlunum á að þeir myndu ekki tala svona um karlmenn en þeir hlæja að því. Hún tekur að einhverju leyti þátt í að rakka konur niður en gerir veikburða tilraunir til að koma böndum á kvenfyrirlitningu Gunnars Braga og kumpána. En þeir halda áfram, alveg ótrauðir í því sem varla verður kallað he for she.

En þetta er nú málið. Sama hvað karlar þykjast jafnréttissinnaðir og miklir feministar þá fella þeir grímuna í einrúmi eða í hóp annarra karla (mjóróma píp einnar konu er bara yfirgnæft). Svona tala karlar um konur, líka fínu jafnréttissinnuðu karlarnir.

Það var svosem vitað fyrir en það er stundum gott að fá staðfestingu.

___
Ath. lesa má allar „leyniupptökur af þingmönnum“ í einni beit hér hjá Stundinni.

* Alveg hafði ég gleymt að Sigmundur Davíð hefði verið „valinn einn fremsti karlkynsfemínisti heims af Financial Times árið 2015“, þar til Stundin rifjaði það upp daginn eftir að þessi bloggfærsla var skrifuð.

** Í smástund voanaði ég að Gunnar Bragi hefði þá afsökun að hafa verið fjarstaddur þennan hluta samtalsins en það var áður en Stundin birti þann hluta viðtalsins þar sem augljóst var að hann dregur ekki af sér þegar kemur að því að níða konur.

*** RÚV rekur hvernig „Sendiherrastöður hafa ítrekað verið notaðar sem útleið úr stjórnmálum í gegnum tíðina. Einkum og sér í lagi fyrir karlmenn sem gegnt hafa ráðherraembætti og/eða verið formenn í sínum flokkum.“

**** Blogghöfundi láðist algerlega að minnast á ömurleg ummæli sem Gunnar Bragi viðhafði um Friðrik Ómar söngvara (sem má m.a. lesa hér].

[Enn ein viðbótin:] Og úff úff úff, enn bætist við ógeðið sem þessir menn létu útúr sér. Þeir gerðu líka grín að Freyju Haralds. Og enginn þeirra mótmælti neinu af þessu.

Efnisorð: , , ,