fimmtudagur, nóvember 08, 2018

Þarf alltaf að vera vín?

Forsíða Fréttablaðsins í dag kom mér mjög á óvart. Gleðilega á óvart, svo það sé tekið fram. Þar eru settar fram ýmsar tölulegar staðreyndir um áfengisdrykkju en mest bar þó á spurningunni Þarf alltaf að vera vín?

Tölulegu upplýsingarnar eru t.d. þær að þeim sem greinast með skorpulifur fjölgar um 10 prósent á hverju ári á Íslandi, og helst í hendur við aukna dagdrykkju. Þá kemur fram að Ísland er í 10. sæti yfir þau lönd þar sem flestir neyta áfengis. Einnig er rifjað upp að í lok sumars kom út ein umfangsmesta fjölþjóðlega rannsókn seinni tíma á áhrifum áfengis á heilsu fólks, þar sem niðurstöðurnar kollvörpuðu þeirri mýtu að einn eða tveri drykkir á dag teldust heilsubætandi.

Inni í blaðinu er svo talað við fólk sem hefur ýmist hætt að drekka eða aldrei á ævinni bragðað vín, og segja þau t.a.m. frá edrúlífinu og því hvernig þeim líður innan um drukkið fólk. Einn viðmælenda ræðir hópþrýsting og að það hafi verið litið á það sem vandamál að hún drykki ekki.

Allt er þetta gott og blessað og hugnast blogghöfundi. En það sem vakti undrun mína í morgunsárið þegar forsíða blaðsins blasti við var ósamkvæmnin. Fréttablaðið er nefnilega einn þeirra fjölmiðla sem hefur auglýst áfengi (það heitir umfjöllun og kynning) af miklum móð árum saman, og hefur þannig og með leiðaraskrifum beitt sér gegn lögum sem kveða á um að bannað sé að auglýsa áfengi. og oft og iðulega lagt orð í belg varðandi frumvörp um að selja áfengi í matvöruverslunum og þá ávallt verið hlynnt því brennivíni í búðir.

Það er auðvitað ekkert nýtt að fjölmiðlar séu ósamkvæmir sjálfum sér (hér er minnst á Vikuna sem hampar bæði megrunarkúrum og kökuuppskriftum) og í stundum er það auðvitað jákvætt að 'láta báðar raddir heyrast'. En forsíðan og þriggja blaðsíðna umfjöllunin stingur samt svo í stúf að það er eins og blaðið hafi verið tekið yfir af góðtemplurum sem hafa engan skilning á gildi þess að drekka áfengi sem oftast og hafa engan sans fyrir frjálsum markaði eða mikilvægi sölu áfengisauglýsinga. Betur ef svo væri.

Efnisorð: , , ,