þriðjudagur, október 02, 2018

Enn er frægur karlmaður sakaður um nauðgun og enn er hlaupið í vörn

Frægur íslenskur tónlistarmaður er sakaður um nauðgun. Þeir sem ræða málið í fjölmiðlum (sem viðmælendur eða í athugasemdakerfum) skiptast í tvo hópa (sem aðallega samanstanda af karlmönnum): Þá sem saka beint eða óbeint konuna sem lagði fram ásökunina um að vera að ljúga, og þá sem skella sér á lær af kátínu vegna þess að tónlistarmaðurinn er giftur konu sem er þekktur feministi. Nei fyrirgefið, það eru þrír hópar sem ræða þetta mál: Þriðji hópurinn samanstendur af þeim sem fara háðslegum orðum um vinkonur eiginkonunnar fyrir að gefa ekki út opinberar yfirlýsingar um málið. Tónlistarmaðurinn er algjört aukaatriði. En konurnar, þær eru úthrópaðar.

Heimsfrægur íþróttamaður hefur einnig verið ásakaður um nauðgun, sem einnig er fréttaefni þessa dagana. Til er það fólk sem heldur að í hvert sinn sem frægðarmenni eru sögð hafa beitt konur kynferðisofbeldi þá sé það alltaf lygi vegna þess að konurnar séu alltaf á höttunum eftir peningum eða frægð.

Það vill svo til að fjölda kvenna er nauðgað af karlmönnum sem eru ekki frægir, kæra þá stundum en ásaka þá stundum opinberlega eða segja vinum sínum frá. Það ratar hinsvegar ekki í fjölmiðla, vegna þess að ekki er um fræga menn að ræða. Það á varla að hvíla sú skylda á konum sem er nauðað eða beittar annarskonar kynferðisofbeldi eða -áreiti af hálfu fræðgarmennis að þær þegi umfram hinar.

Það er staðreynd að sumir karlar sem eru frægir eru kynferðisofbeldismenn. Þeir nota sér sumir frægðina, þeir sækjast sumir sjálfir eftir peningum og frægð til þess að eiga auðveldari aðgang að konum, og sumir þeirra trúa því að allar konur vilji þá. Það að vera frægur, auðugur eða hæfileikaríkur er ekki gulltrygging fyrir því að karlmenn komi vel fram við konur. Dæmin um annað eru fjölmörg.

En samt er alltaf sama sagan. Engu er trúað uppá uppáhalds íþróttamanninn eða kvikmyndaleikstjórann eða tónlistarmanninn. Jafnvel eftir að menn játa eða eru dæmdir sekir er haldið áfram að bera blak af þeim.

Nauðgaraverjendur eru víða. Sem er í sjálfu sér rökrétt vegna þess að nauðgarar eru víða.

___
[Viðbót] Það er víst rétt að geta þess að ég hef verið mikill aðdáandi Sigur Rósar, svo ekki er það vegna þess að ég hafi eitthvað á móti tónlistinni sem ég tek þessa afstöðu.

Efnisorð: ,