sunnudagur, september 16, 2018

Dagur íslenskrar náttúru

Á degi íslenskrar náttúru er ágætt að rifja upp nokkrar hættur sem náttúru landsins stafar af manna völdum.

Virkjanir eru fyrirhugaðar í Hvalá á Ströndum, Þjórsá (Hvammsvirkjun; Skipulagsstofnun telur umhverfisáhrifin „áhrif á landslag verulega neikvæð og áhrif á ferðaþjónustu og útivist talsvert neikvæð“ en hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjun skella skollaeyrum við því og ætla bara víst að virkja) og síðast en ekki síst í annarri hverri sprænu sem er ekki innan rammaáætlunar. Ágætt er að lesa grein Ólafs Hallgrímssonar sem hann skrifaði [Frbl. bls. 26] í tilefni af tíu ára afmæli Kárahnjúkavirkjunar, og nefnist greinin: Höfum við gengið til góðs?

Dýrin
Fuglum landsins er bráður bani búinn næstu mánuði: gæsir og rjúpur verða drepnar í stórum stíl.
Hreindýraveiðar, þar á meðal á nýkelfdum kúm.
Hvalveiðar, þar á meðal á kálffullum kúm. Einnig eru drepin blendingsafkvæmi sem eiga annað foreldri sem er af þeirri tegund sem bannað er að veiða.

Laxeldi í sjókvíum
Áður hefur nokkuð verið skrifað um sjókvíaeldi hér á blogginu en um hríð var algerlega gefist upp á að færa allt til bókar (þ.e.a.s. bloggs) sem rætt og ritað er með og gegn því að norskur eldislax sé alinn í sjókvíum við Íslandsstrendur. Hér verða þó rifjaðar upp nokkrar fréttir undanfarinna mánaða og nokkur athyglisverð ummæli.

Í tilefni dagsins er þó viðeigandi að byrja á ársgömlum skrifum Ómars Ragnarssonar, en það er engin tilviljun að dagur íslenskrar náttúru er haldinn á afmælisdegi Ómars. Hann tekur þannig til orða:
„Það hefur margoft komið fram hjá andófsmönnum gegn hömlulítilli gróðafíkn innlendra og erlendra sjókvíaeldismanna, að málið snúist um það að rækta geldfisk og færa eldið úr sjókvíum þar sem sleppingar hafa reynst óviðráðanlegar.

Og að unnendur laxveiða séu ekki á móti laxeldi í samræmi við nýja tækni og kröfur, sem gerðar væru í staðinn fyrir hið skaðlega og úrelta sjókvíaeldi.

En sjókvíafíklarnir breiða kyrfilega yfir þetta atriði í málflutningi sínum.“
Dr. Kjetil Hindar rannsóknastjóri norsku Náttúrufræðistofnunarinnar í Þrándheimi birti pistil á þjóðhátíðardegi þarlendra og allt það sem hann sagði í þeim pistli er mikilvægt. Ekki síst vegna þess að rannsóknir hans á erfðablöndun milli eldislax og villts lax hafa verið rangtúlkaðar. Hið rétta er að
„Stýrðar tilraunir í náttúrulegum árkerfum í Noregi og Írlandi sýna að áhrif eldislaxa á villta stofna geta komið fram samstundis. Áhrifin geta falið í sér erfðafræðilegar og lífsögulegar breytingar og samdrátt í fjölgun viðkomandi stofna. Þetta gerist þrátt fyrir að hver eldislax hafi takmarkaða hæfileika til að komast af í náttúrunni.“ Lesið meira hér.
Þess má geta að í maí var sýnd heimildarmynd um reynslu Norðmanna og Skota af fiskeldi. Blogghöfundi tókst af einskærum klaufaskap af missa af sýningu myndarinnar og er því ekki dómbær á gæði hennar eða áhrifamátt, en hún hlaut ekki góða dóma hjá Einari K Guðfinnssyni formanni Landssambands fiskeldisstöðva.

Stundin fjallaði 22. júní um kaup á laxeldiskvóta í Noregi, þar sem Arnarlax keypti kvóta á 5 milljarða, en Arnarlax framleiðir 8.000 tonn á Íslandi og greiðir ekkert til íslenska ríkisins fyrir laxeldisleyfin. Þar segir:
„Ef Ísland myndi selja laxeldisfyrirtækjum á Íslandi leyfi á sama verði og á uppboðinu í Noregi þá myndi íslenska ríkið fá milljarða króna í kassann. Verðið fyrir 8 þúsund króna framleiðslu Arnarlax myndi til dæmis vera nærri 20 milljarða króna ef sama verð yrði greitt fyrir framleiðsluleyfin á Íslandi og í Noregi.“
Fyrirsögn í Fréttablaðinu 28. júní: „Laxeldisfyrirtæki þurfa að eitra fyrir laxalús í Tálknafirði og Arnarfirði. Laxalús er orðin svo mikil í Tálknafirði og Arnarfirði að nota þarf eitur til að drepa hana. Hitastig sjávar ekki eins mikil vörn gegn laxalús og talið var.“
Sagt er frá því í fréttinni að
„Á vef Landssambands fiskeldisstöðva (LF) kemur fram að í íslensku fiskeldi hafi aldrei verið notuð lúsalyf og að hin skaðlega lús eigi erfitt uppdráttar hér á landi vegna lágs hitastigs sjávar. Ljóst er að laxalúsin hefur lifað af síðustu tvo vetur og hefur valdið fyrirtækjum búsifjum.“

„Jón Örn Pálsson sjávarútvegsfræðingur segir þetta staðfestingu á því að hitastig sjávar að vetri til sé ekki nægileg vörn gegn laxalúsinni. „Þessar fréttir staðfesta þetta. Talning á lús staðfestir að lúsinni fækkar ekki. Hún hins vegar fjölgar sér ekki á köldum vetrum. Nú er hins vegar spurning hvað fiskeldisfyrirtækin gera til að hvíla staðina,“ segir Jón Örn.“ 
5. júlí skrifaði Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Vatnsdal áhugaverða grein um stofnun veiðifélag Vatnsdalsár og þá búbót sem útleiga lax- og silungsveiðihlunninda er í sveitum landsins, og segir hann árnar vera lífgjafa sveitanna. 5. júlí skrifaði Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Vatnsdal áhugaverða grein um stofnun veiðifélag Vatnsdalsár og þá búbót sem útleiga lax- og silungsveiðihlunninda er í sveitum landsins, og segir hann árnar vera lífgjafa sveitanna.
„Ég fullyrði að meirihluti þessara jarðeigna er í eigu þeirra sem búa í sveitunum. Bak við þessa jarðeigendur eru fjölskyldur sem lifa og starfa í sveitinni, á sama hátt og fjölskylda afa og ömmu gerði um og eftir árið 1930. Ég er ekki viss um að ég nyti þeirrar ánægju að sjá þrjú barnabörn vaxa úr grasi á bökkum Vatnsdalsár ef tekjurnar af veiðunum hefðu ekki ávallt skipt sköpum í búsetu í dalnum.“ Niðurlagið hljóðar svo: „Við óttumst að hömlulítið fiskeldi í sjókvíum geti spillt lífríki ánna og þar um leið lífi og búsetu í sveitum Húnaþings, Borgarfjarðar og raunar byggðum um land allt.“
Séra Gunnlaugur Stefánsson formaður Veiðifélags Breiðdæla skrifar 12. júlí um laxeldi í Berufirði sem er á vegum Fiskeldis Austfjarða en „í meirihlutaeigu norskra eldisrisa“. Full ástæða er til að lesa allan pistil Gunnlaugs en hér vænn skammtur:
„Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var þar 1,1 milljón laxa í tíu opnum sjókvíum. Álitið er að hrygningarstofn villtra laxa sé um 100 þúsund fiskar á Íslandi. Eldisfiskarnir í Berufirði eru frjóir og af norskum stofni. Bannað er í Noregi að nýta framandi stofna í eldi.



En Fiskeldi Austfjarða hefur enga heimild í leyfum í þessu eldi fyrir laxi af norskum uppruna. Það er klárt lögbrot og sambærilegt við að kúabændur færu að flytja inn norska erfðavísa án leyfis til að nýta í ræktun íslenskra kúa – og látið átölulaust. Sömuleiðis hefur Fiskeldi Austfjarða enga heimild í leyfum til að losa fosfór í sjóinn sem er uppistaðan í mengandi úrgangi frá eldinu. Þá hefur þessi eldisiðja aldrei farið í umhverfismat. Hvernig er hægt að taka mark á opinberum eftirlitsstofnunum sem láta þetta allt viðgangast eða er verið að hygla eldisiðjunni umfram aðra?

Laxeldið í Berufirði hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum. Í desember gekk bálviðri yfir Austfirði með kuldatíð í kjölfarið og lagðist hart á eldið. Samkvæmt lýsingum Matvælastofnunar þá losnaði um festingar í einni kví, 285 tonn af laxi sýktust og var slátrað og voru urðuð að stærstum hluta á landi.



Nú hefur það gerst eftir hvassviðri, sem gekk yfir Austfirði um miðjan júní, að stórar laxatorfur sáust á stökki í Hvítárvík 21. júní og aftur í Fossárvík 29. júní, en báðir staðir eru skammt innan við eldiskvíarnar í Svarthamarsvík í Berufirði. Reynslan staðfestir að eldisfyrirtækin tilkynna ekki um slysasleppingar fyrr en þær eru öllum ljósar seint og um síðir. Laxatorfur við strendur Berufjarðar hljóta að beina augum að eldiskvíunum og slysasleppingum þaðan. Þetta hefur verið tilkynnt Fiskistofu, en óhægt er um vik með eftiráeftirlit, þegar strokufiskur hefur dreift sér um allan sjó.“
Og Gunnlaugur segir það sama og margir aðrir:
„Alls staðar í veröldinni, þar sem laxeldi fer fram í opnum sjókvíum, sleppur fiskur. Það hefur reynslan líka staðfest hér á landi. Þess vegna vekur furðu hjá fagfólki á alþjóðavettvangi, að íslensk stjórnvöld skuli leyfa opnar sjókvíar með frjóum fiski af framandi stofni í nýju fiskeldi í stað þess að allt eldi fari í lokuð kerfi með geldfiski.“
Svo tóku veitingahús í Reykjavík sig til og tilkynntu að þau hygðust sniðganga lax úr sjókvíaeldi og taka þátt í baráttu gegn slíkri framleiðslu.

Talsmaður Landssambands fiskeldisfyrirtækja og fyrrverandi þingforseti Einar K Guðfinnsson „segir yfirlýsingar nokkurra veitingamanna ekki valda þeim áhyggjum“.

En í sömu frétt og Einar Guðfinnsson blæs á veitingamenn sem séu eiginlega lélegir kúnnar hvorteðer, allavega miðað við stórar verslunarkeðjur í útlöndum, kemur fram að það gengur illa fyrir Arnarlax að fá alþjóðlega vottun fyrir sjálfbæra samfélags- og umhverfisvæna sjávarvöruframleiðslu.
„Nú stendur yfir vottunarferli vegna eldisins í Tálknafirði og í kjölfarið fara hin eldissvæði fyrirtækisins í gegnum sama ferli.

Hinn 4. júlí síðastliðinn birti ASC skýrsludrög þar sem gerðar eru athugasemdir við ýmsa þætti í framleiðsluferli fyrirtækisins sem uppfylla ekki skilyrði vottunarinnar. Dauði fugla og annarra dýra í návígi eldisins er tíðari en staðlar vottunarinnar leyfa og engar upplýsingar liggja fyrir um viðbrögð eða fyrirbyggjandi aðgerðir fyrirtækisins til að koma í veg fyrir fleiri slík tilvik. Tíðni óútskýrðs laxadauða (22 prósent hjá Arnarlaxi) er einnig of há til að uppfylla skilyrði vottunaraðilans.

Þá fer umfang lúsavandans einnig upp fyrir leyfilegt viðmið og skortur er á að áhrif hans á villta laxastofninn hafi verið rannsökuð.

Öryggisáætlunum um borð í þjónustubátum við eldið er einnig ábótavant; þær ýmist ekki fyrir hendi eða ekki aðgengilegar.“
Og til að gera langa sögu stutta þá fékk Arnarlax í Tálknafirði ekki þessa alþjóðlegu gæðavottun. „Neikvæð staða lífríkis á botni Tálknafjarðar, tíðni laxadauða í kvíum og umfang lúsavandans eru helstu ástæður þess að sú kynslóð sem nú er alin í laxeldi Arnarlax í Tálknafirði fær ekki ASC-vottun.“ 

24. ágúst sagði Fréttablaðið frá því að auglýsingar gegn sjókvíaeldi hafi verið fjarlægðar úr Leifsstöð.

6. september. Þótt Einar Guðfinnsson hafi sagt að fiskeldisfyrirtæki kipptu sér ekki upp við sniðgöngu einstakra veitingastaða á eldislaxi var Arnarlax með ás uppi í erminni. Kokkar vöknuðu upp við vondan draum: Arnarlax var orðinn styrktaraðili kokkalandsliðsins. En matreiðslumenn sögðu sig úr klúbbi matreiðslumeistara (sem samdi við Arnarlax) og fjórtán landsliðsmenn ákváðu að hætta frekar í landsliðinu heldur en vera í samstarfi við laxeldisfyrirtækið, og svo fór að samningnum við Arnarlax var rift. Þetta er með snautlegri ímyndarhressingarherferðum.

8. september. Umhverfisstofnun bíður með áminningu á meðan Arnarlax sækir um undanþágu.
„Tveir landeigendur í Arnarfirði hafa ítrekað krafist aðgerða af hálfu Umhverfisstofnunar vegna meintra brota á starfsleyfi Arnarlax á svæðinu. Þeir hafa nú kvartað til umhverfisráðuneytisins vegna þeirrar málsmeðferðar sem brot Arnarlax á starfsleyfi hafa fengið hjá stofnuninni.

Arnarlax tæmdi sjókvíar við Hringsdal í Arnarfirði 7. mars síðastliðinn og hóf útsetningu seiða þar á ný þremur mánuðum síðar, 6. júní. Þetta fer í bága við starfsleyfi fyrirtækisins en í því segir að eldissvæði skuli hvíla milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hvorki virðist deilt um brotin af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax.“

„Ari Wendel, annar landeigendanna, hefur staðið í stappi við Umhverfisstofnun vegna málsins frá því seiðin voru sett út í vor. Þeir hafa krafist þess að starfsemin verði stöðvuð og seiðin verði flutt burt úr kvíum tafarlaust til að svæðið fái fullan hvíldartíma samkvæmt starfsleyfinu. Ari segir að eitt stærsta æðarvarp á Vestfjörðum sé nokkur hundruð metra frá kvíastæðinu og aukin botnmengun og brot á hvíldartíma geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir æðarfuglinn, fæðu hans og annað lífríki á svæðinu.

„Það sem okkur finnst svo sérkennilegt er að eftirlitsstofnanir skuli ekki bregðast við heldur sýna þeim meðvirkni sem stofnunin á að hafa eftirlit með og vera í rauninni að hjálpa þeim við að finna svigrúm til að brjóta reglurnar og starfsleyfið,“ segir Ari en þeir hafa kvartað undan málsmeðferð stofnunarinnar til Umhverfisráðuneytisins en ekki enn fengið viðbrögð.“
11. september, frétt um laxalús: Dæmi um sáramyndun og slæm áhrif á velferð vegna lúsarinnar. Arnarlax og Artic Sea Farm hafa samtals í fjórum tilvikum frá árinu 2017 notað lúsaeitur, bæði til að baða laxfiska sem og að gefa þeim lyfjafóður. Dæmi eru um mjög lúsugan fisk og hefur lúsin haft neikvæðar afleiðingar á velferð dýranna.

Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar fiskeldisfyrirtækja um að fiskar sleppi næstum aldrei og ef þeir sleppa náist þeir strax og ef þeir nást ekki strax þá synda þeir ekki langt og lifa ekki lengi, syndi allsekki upp í ár og eignist enn síður afkvæmi. En samt er það svo að eldislax hefur veiðst á stöng í ám. Í Vatnsdalsá hafa veiðst eldislaxar, þar af einn sem veiddist í byrjun september (veiðimaðurinn var sá hinn sami og sagði sig úr klúbbi matreiðslumeistara), og í frétt 14. september segir frá því að tveir laxar sem bera öll merki þess að vera ættaðir úr sjókvíaeldi hafi veiðst í Eyjafjarðará. Eyjafjörður er, eins og segir í fréttinni, nokkuð langt frá sjókvíaeldi. Þess má geta að ein ástæða þess að laxeldiskvíarnar eru einkum á Vest- og Austfjörðum er að þá séu þær langt frá laxám og sé því bara allsengin hætta á að eldislax komist í kynni við villtan lax. Nema auðvitað kann eldisfiskur að synda, þótt uppeldi í sjókvíum gefi ekki mikið færi á löngum sundæfingum.

Ekki er allur eldisfiskur lax. Í gær birtist frétt um fyrirhugað eldi á regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði. Náttúruverndarsamtök Íslands og veiðifélög eru á móti fiskeldinu því það muni stofna villtum stofnum í hættu, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur gefið grænt ljós á starfsleyfi. Sérstaklega er skemmtilegt að sagt er að „ekki séu skilyrði fyrir því að laxalús þrífist á Austfjörðum“. Ekki frekar en á Tálknafirði, eða hvað?

Læt ég þá tali um fiska í náttúru Íslands lokið að sinni. Mæli hinsvegar með nýrri bók með úrvali greina um sambúð lands og þjóðar eftir Halldór Laxness, hvar má lesa hina stórgóðu grein Hernaðurinn gegn landinu.











Efnisorð: , ,