miðvikudagur, ágúst 08, 2018

Afrekaskrá Fangelsismálastofnunar og fangelsismálastjóra

Það var ekki fyrr en klukkan að verða ellefu í gærkvöld, þriðjudag, sem fréttir bárust af því að fangi hefði strokið af Vernd á laugardagskvöld. RÚV birti fréttina að ganga tvö síðastliðna nótt, aðfararnótt miðvikudags. Í hádeginu í dag staðfesti svo Páll Winkel fangelsismálastjóri að fanginn væri enn ófundinn. Hálfsjö í kvöld var svo loks nafn strokufangans birt sem og lýsing á honum. Hann heitir semsagt Björn Daníel Sigurðsson og myndir af honum fylgja fréttum RÚV og Vísis.

Björn Daníel var dæmdur í febrúar í fyrra fyrir frelsissviptingu, líkamsárásir, hótanir og kynferðisbrot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Hann fékk fjögurra ára dóm, en er þegar kominn á Vernd. (Á það hefur verið bent í athugasemdakerfum fjölmiðla að líklega hafi hann setið lengi í gæsluvarðhaldi fram að dómi og komi sá tími til frádráttar hinni eiginlegu fangelsisvist.) Það er alveg galið að það sé enginn greinarmunur gerður á alvarleika brota, og hvort þau beinast gegn lífi og heilsu annarra, þegar menn fá að fara á Vernd.

Konan sem Björn Daníel misþyrmdi segir í viðtali við DV að áður en hann var á Vernd hafi hann farið í meðferð á Hlaðgerðarkot, og af orðum hennar má skilja að hann hafi stungið af frá Hlaðgerðarkoti því hún rakst á hann í Smáralind. Hún hafi látið Fangelsismálastofnun vita af veru hans þar en samt hafi hann fengið að fara á Vernd. Aftur á móti lét Fangelsismálastofnun hana ekki vita af stroki hans frá Vernd um helgina. Hún var því algerlega grunlaus um að Björn Daníel gengi laus (eða þar til vinir hennar sögðu henni frá stroki hans) og gat því ekki forðað sér.

Hvenær verður eiginlega Páli Winkel vikið úr starfi? Syndaregistur hans er að verða ansi langt. Bankabófarnir fengu að velja sér hvenær og hvert þeir fóru í sína afplánun, og eftir Kvíabryggjuvistina fengu fljótlega að fara á Vernd. Páll horfði á klám með löggu sem einnig er barnaníðingur, að börnum viðstöddum, rétt áður en barnaníðingurinn braut á barni, og Páll fær að komast upp með að segjast vera of fullur til að bera vitni um málsatvik, sem átti sinn þátt í því að málið var fellt niður. Núna strýkur hættulegur fangi (sem hefði sennilega ekkert átt að vera á Vernd) og það líða heilu dagarnir þar til fjölmiðlum berst vitneskja um málið, og þá er tregðast við að nafngreina fangann, næstum eins og almenningi eigi ekki að gefast kostur á að vísa á hann — eða forðast hann.

Ef Björn Daníel Sigurðsson brýtur af sér áður en hann finnst, þá er það á ábyrgð Páls Winkel.

Efnisorð: , , , ,