laugardagur, júlí 28, 2018

Druslugangan

Einhverjum strákavitleysingum fannst viðeigandi að vera með steggjun meðan á Druslugöngunni stóð og fengu fyrir það orð í eyra frá Sóleyju Tómasdóttur. Ekki varð ég vör við neitt af þessu en fannst hinsvegar mjög miður þegar ég sá fólk með skilti (ég náði bara að lesa á eitt skiltið, sambærilegt því sem sést hér á mynd) þar sem stóð á ensku að kynlífsvinna væri vinna (eins og hver önnur, býst ég við að merkingin hafi verið). Mér finnst verulega óviðeigandi að tefla fram fótgönguliðum frjálshyggjumanna sem vilja frjálsan markað með konur, svona í miðri Druslugöngunni þar sem viðhorf til kvenna er eitt helsta viðfangsefnið.

Að öðru leyti var gangað mögnuð að vanda og afar áhrifaríkt að hlusta á ræðurnar á Austurvelli. Tvær af þolendum Aðalbergs Sveinssonar töluðu og sýndu með því ótrúlegan kjark, en þær hafa ásamt þeirri þriðju komið fram í fjölmiðlum fyrr á árinu og skýrt frá hvernig hann beitti þær kynferðislegu ofbeldi. Blaðamaður Stundarinnar sem fjallað hefur um þessi mál hefur fengið bréf frá lögmanni hans, honum Villa Vill, þar sem hann krefst 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna (ónákvæms) orðalags. Kærum stúlknanna hafði verið vísað frá enda var Aðalbergur ekki bara lögga heldur varð formaður Lögreglufélags Reykjavíkur eftir að hann var kærður fyrir kynferðisbrot gegn barni (hann var aldrei látinn víkja frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð) og framdi eitt brotið í sumarbústaðaferð með Páli Winkel fangelsismálastjóra.* Kerfið passar uppá sína.

Á tímum minnkandi blaðalesturs er ekki víst að allir hafi lesið greinar um málið eða viðtölin við stúlkurnar þrjár. En í dag, fyrir framan mannfjölda mikinn, stóðu Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir á sviði og nefndu geranda sinn með nafni: Aðalbergur.**
Megi kerfið og vinir hans innan þess skammast sín fyrir að hafa tekið afstöðu gegn þessum hugrökku stúlkum. Baráttu þeirra er ekki lokið, saga þeirra mun ekki gleymast.


___
* „Eins og hefur komið fram í Mannlífi voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í umræddu sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.“ (Mannlíf.)

** Villi hefur eflaust setið sveittur við í allt kvöld að skrifa allskyns hótunarbréf til þeirra sem voru á Austurvelli og klöppuðu stúlkunum lof í lófa fyrir hugrekkið.


Efnisorð: , ,