þriðjudagur, júlí 24, 2018

Ekki seinna vænna

Það er er farið að styttast til jóla. Réttir fimm mánuðir í dag. Síðustu jól eflaust orðin dauf í minningunni, en ef mér leyfist að rifja upp þá voru þau jól eins og mörg jól þar á undan ansi streituvaldandi. Ekki endilega aðfangadagskvöldið sem slíkt heldur allur desembermánuður, jafnvel nóvember líka. Allt sem þurfti að gera og kaupa, allt sem þurfti að vera tilbúið á réttum tíma og slá í gegn. Öll boðin og tónleikarnir og búðarferðirnar með linnulausri jólatónlist. Allan tímann samt mikil áhersla á að hafa gaman, njóta, finna stemninguna, samkenndina. Afleiðingin jafnvel sú að ekkert var eftir af jólaskapinu þegar jólin gengu í garð, bara spurning um að koma þessu frá, en brosa auðvitað fyrir hina.

Þá er ótalið álagið vegna útgjaldanna sem voru kvíðvænleg og of mikil, eins og alltaf. Ekki bara tónleikamiðar og matarkostnaður heldur jólagjafir til allra. Allra, og barnanna þeirra. Jólagjafir sem þótt valið sé eitthvað ódýrt (eða heimatilbúið: auka álag) þá safnast þegar saman kemur svo flest fólk stendur frammi fyrir enn einum alltof háum kreditkortareikning á komandi ári.

Ástæða þess að ég ræði þetta á miðju sumri er að nú er lag að breyta þessu. Ef jólin eru kvíðvænleg og einkennast af álagi og of mikilli peningaeyðslu en alltof lítilli ánægju, og fólk vill en hefur ekki þorað að ræða það upphátt, þá er núna besti tíminn. Viljinn til að breyta hvernig jólin eru haldin er nefnilega ekki nóg, það þarf að semja um það við aðra. Stórfjölskyldan, nánustu aðstandendur, vinir og samstarfsfólk eða hvaða fólk það er sem er á jólagjafalistanum eða er boðið eða býður á tónleika og uppákomur sem æskilegt er að fækka í framtíðinni; það þarf að segja öllu þessu fólki, eða að minnsta kosti til að byrja þeim sem næst standa, að svona verði jólin ekki í framtíðinni. Leggja upp með eigin óskir: vil svona en ekki svona. Vil hætta að gefa (allar þessar) jólagjafir, vil ekki fara á jólatónleika annarra manna barna, vil ekki þurfa að bjóða þessu fólki í mat, vil ekki þurfa að hafa/borða mat sem er ekki góður bara vegna þess að það er hefð — svona sem dæmi.

Kosturinn við að gera þetta núna er að það er langt frá síðustu jólum og langt til næstu jóla.* Fólk man ekki svo vel hvað 'gæti hafa komið uppá' um síðustu jól (hvort sem eitthvað kom uppá eða ekki) sem gæti hafa valdið þessum miklu straumhvörfum, og það er nægilega langt til næstu jóla til að þeir sem móðgast verða búnir að jafna sig þegar komið er fram í desember. Svo er bara spurningin um að standa fast við sitt og gá hvort það lifi það ekki allir örugglega af. Eftir að hafa upplifað aðdraganda jóla og jólin sjálf á eigin forsendum í eitt sinn er hægur vandinn að endurskoða á næsta ári (ágætt að gera það eftir að desemberkortareikningurinn hefur verið greiddur) hvort hverfa eigi aftur til fyrri hátta.

En meðan ég man. Þá mætti líka fljótlega taka upp þá erfiðu umræðu sem stóð yfir um síðustu áramót, en það er hvort skjóta eigi upp flugeldum. Ég set hér fyrir neðan slóðir á nokkrar greinar sem birtar voru** og vert er að hafa í huga þegar maður á miðju sumri vill undirbúa gamlárskvöld með góðum fyrirvara svo enginn geri sér væntingar um mengunarfylltan himininn.

____
* Það hefði verið viðeigandi að skrifa þennan pistil 24. júní en þá voruð þið öll að horfa á boltaleik og ekki viðræðuhæf.

** Mín eigin úttekt á umræðunni um síðustu áramót.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum, svarar spurningunni Er reykurinn af flugeldum skaðlegur?

Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands: Metmengun þrátt fyrir aðvaranir – hvað nú?

Eftir áramót voru nefnilega birtar niðurstöður mælinga sem gerðar voru við Grensásveg á fyrstu klukkustundum nýs árs. „Hæsta sólarhringsmeðaltal svifryks frá upphafi mælinga; hærra en í eldgosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Það sem var sérstakt við nýársdag var að styrkur svifryks hélst hár nær allan sólarhringinn en venjulega fellur styrkurinn hratt þegar líða fer á nóttina. Ástæðan er samspil veðuraðstæðna og mikils magns ryks í andrúmsloftinu.“

Og pistill Sifjar Sigmarsdóttur frá því fyrir áramótin þar sem hún sagði meðal annars:
„Það eru áramót. Allir eru kátir. Það er borðað, drukkið, hlegið, horft á Áramótaskaupið og vonandi hlegið aðeins meira. Þvínæst halda allir út. Í næturkuli, laust fyrir miðnætti, taka landsmenn sig til og sýna fram á einstakan samtakamátt þjóðar er þeir fylla andrúmsloftið af ryki og þungmálmum sem fara upp í lofthjúpinn og síðan út í umhverfið. Efnin enda í vatninu, í æti lífvera og loks í lífríkinu sem við sjálf nærumst á. Fólk með astma og öndunarfærasjúkdóma er í hættu. Fólk slasast, húð brennur, augu eyðileggjast. Dýr ærast. Líkur eru á að flugeldarnir hafi verið framleiddir við bágbornar og hættulegar aðstæður. Kannski af þrælum.

Þurfum við að velkjast í vafa um hvaða augum framtíðin mun líta þessa andartaks skemmtun okkar á áramótum?“
Það er ekki seinna vænna að ræða hvort við viljum ekki, hvert fyrir sig, leggja okkur fram um að breyta þessu.


Efnisorð: , ,