sunnudagur, júlí 08, 2018

Vefst ekki fyrir þeim appelsínugula að taka afstöðu gegn fólki

Geggjun bandarískra stjórnvalda undir stjórn Trump hefur á sér margar hliðar. Allar ógeðfelldar.
„Fulltrúar Bandaríkjanna á fundi Alþjóðaheilbrigðis- stofnunarinnar (WHO) í Genf lögðust gegn samþykkt þar sem hvatt var til brjóstagjafar.

Í samþykktinni, sem var unnin eftir niðurstöðum rannsókna sem hafa farið fram í mörg ár, segir að móðurmjólk sé hollasti valmöguleikinn fyrir ungabörn og að þjóðir skyldu vinna að því koma í veg fyrir villandi herferðir þurrmjólkurframleiðanda.

Búist var við því að tillagan yrði samþykkt vandkvæðalaust en fulltrúar Ekvador hugðust leggja hana fram.

Fulltrúar Bandaríkjanna voru ekki á sama máli og vildu að tillögunni yrði vísað frá og virtust taka afstöðuna vegna hagsmuna framleiðanda þurrmjólkur.

Þegar tillögunni var ekki vísað frá skiptu Bandaríkin um gír og hótuðu að leggja harða tolla á Ekvadora og að draga til baka hernaðaraðstoð sína í landinu.“ [Vísir]
Rússar enduðu svo á að leggja fram tillöguna enda lítt hræddir við hótanir Bandaríkjastjórnar — og engar hótanir komu reyndar úr þeirri áttinni enda ekki lengur við minnimáttar ríki að eiga.

Það þarf varla að taka það fram að Obama-stjórnin hafði stutt áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar varðandi brjóstamjólkurgjöf. 800.000 færri börn myndu deyja í heiminum árlega ef brjóstagjöf væri alltaf fyrsti kostur.

Þessi átök voru nýjasta dæmið um að Trump-stjórnin tekur afstöðu með stórfyrirtækjum gegn almenningi í allskyns málum á sviði heilsu- og umhverfisverndar. Bandaríkjastjórn hefur t.a.m. reynt að draga úr möguleikum á að setja viðvörunarmerkingar á ruslfæði og sykraða drykki í Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum, svo fátt eitt sé nefnt af ömurlegri stefnu Bandaríkjastjórnar um þessar mundir, og lesa má um í frétt New York Times.

Lobbíistar frá barnamatariðnaðinum sóttu fundinn í Genf en staðan í þeim bransa er uggvænleg fyrir gróðapunga því eftir því æ fleiri konur sem búa í auðugum löndum kjósa að gefa brjóst fremur en fóðra börn á þurrmjólk, og hefur salan því allsekki verið nógu góð. En þeir kætast þó við tilhugsunina um aukna sölu í þróunarlöndum — þið vitið, þar sem vatnið sem á að blanda mjólkurduftinu saman við er oft óhæft til drykkju.

Það er hægt að draga þetta saman í nokkur orð: stjórn Trumps einkennist af mannhatri.

Efnisorð: , , , ,