fimmtudagur, júní 28, 2018

Samræmd stafsetning forn

Undanfarið hef ég séð — aðallega í athugasemdum — tuðað yfir 'pólitískum réttrúnaði'. Í gær skrifaði svo Egill Helgason pistil þar sem hann segir Brynjar Níelsson hafi sett „fram þá kenningu að eitthvað sem hann kallar pólitíska rétthugsun sé meiri ógn við lýðræðið í heiminum en Trump“ — en í fyrirsögn notar Egill frasann 'pólitískur rétttrúnaður'. Já ég er semsagt að tala um orðalagið en ekki þusið í Brynjari eða hvað Agli finnst um það (þótt sjálfsagt sé að benda fólki á að hægt er að lesa það hér, og að mannvinurinn Brynjar skrifar sjálfur athugasemd við pistil Egils).

Mér finnst mun eðlilegra að þýða enska frasann political correctness sem pólitíska rétthugsun fremur en rétttrúnað. Hugsun er auðvitað annað en átrúnaður. Rétttrúnaður er eitthvað sem á betur við um rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Einhverntímann var birtur hér pistill þar sem hugtakinu var gert skil undir yfirskriftinni tillitssemi, sem er enn að mínu mati ágæt skilgreining.

En þessi bloggfærsla mín verður styttri en ég lagði upp með því ég get varla sett á mikla ræðu um að allir sem nota rétttrúnaðar hugtakið fari villur vega — það kemur nefnilega í ljós að hér á bloggheimilinu hefur nokkurnveginn verið til jafns notað rétttrúnaður og rétthugsun. Obbosí.

Einnig hefur komið í ljós að orðið skrítið er jafnoft skrifað skrýtið. Eflaust eru fleiri dæmi um mismunandi stafsett orð. Í stuttu máli: mér ferst.

Aðhyllist þó enn þá hugmynd að aðgát skuli höfð í nærveru sálar, jafnvel þótt það sé uppnefnt sem pólitískur rétttrúnaður eða pólitísk rétthugsun af þeim sem geta ekki hvikað frá sjónarhorni hvítra gagnkynhneigðra ófatlaðra karlmanna, sem sjá alla agnúa á tjáningu annarra um heiminn.






Efnisorð: , ,