fimmtudagur, júní 21, 2018

Myndir af börnum ýta við okkur

Í heimi sem er mettaður af myndefni hafa myndir af börnum í háska eða hræðilegum aðstæðum orðið eftirminnilegar og á stundum átt þátt í að vekja til umhugsunar eða jafnvel breyta almenningsáliti. Hér verða birtar slíkar myndir og byrjað á þeirri sem tengist ömurlegri innflytjendastefnu Trumps, sem hann hefur þurft að bakka með að hluta vegna almennrar fordæmingar.


Ljósmynd af hágrátandi 2ja ára stelpu frá Hondúras verður á forsíðu Times, í breyttri mynd þó.

Frétt Vísis:

„Bandaríska tímaritið Time hefur birt forsíðuna á næsta eintaki blaðsins. Á því má sjá stúlku sem aðskilin var frá foreldrum sínum á landamærum Mexíkó, ásamt Donald Trump, starandi á hvort annað undir fyrirsögninni „Velkomin til Bandaríkjanna.“

Myndirnar eru klipptar saman en upprunalega myndin sem stúlkan var á hefur vakið mikla athygli. Stúlkan á myndbandinu er tveggja ára gömul og er frá Hondúras og var ljósmyndin tekin þegar verið var að handtaka móður hennar fyrir að hafa komið ólöglega inn í Bandaríkin.

Stúlkan er ein af um 2.300 börnum sem aðskilin var frá fjölskyldu sinni vegna umdeildrar stefnu Bandaríkastjórnar, stefnu sem Donald Trump tilkynnti að látið yrði af í gær, þótt enn sé alls óvíst hvað verði um þau börn sem þegar hafi verið aðskilin frá foreldrum sínum, líkt og stúlkan á myndinni.“ [Vísir]

Upprunalega myndin er þessi.













Og TIME forsíðan mun líta svona út.





















Ef farið er aftur í tímann rifjast upp myndir af sýrlenskum börnum, ýmist á flótta eða fórnarlömb sprengjuárása í heimalandi sínu.

Omran Daqneesh var fimm ára þegar þessi mynd var tekin (17. ágúst 2016), eftir að loftárás var gerð á Aleppo. Tíu ára gamall bróðir hans lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar. Faðir þeirra hefur síðar sagst vera ósáttur við að teknar hefðu verið myndir af syni sínum í óleyfi til að nota í áróðursskyni gegn stjórn Assads.
— Ljósmyndari: Mahmoud Rslan, heimamaður í Aleppo.

Alan Kurdi, 3ja ára Sýrlendingur af kúrdískum uppruna, var meðal þeirra flóttamanna sem drukknuðu þegar bátur á leið frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Kos sökk þegar sjóferðin var nýhafin. Hann rak á land við Bodrum í Tyrklandi og þar var þessar myndir teknar.
— Ljósmyndari: Nilüfer Demir, tyrknesk.



















Af öllum hræðilegum myndum af sveltandi börnum er þessi sem var tekin í mars 1993 þegar hungursneyð geisaði í Súdan (nú Suður-Súdan) mars 1993 ein sú minnisstæðasta, og vakti hún upp deilur um hvort ljósmyndaranum hefði ekki verið nær að flæma hrægamminn burt og bjarga barninu.

Myndin birtist í New York Times 26. mars 1993, og skv. Wikipediu segir síðari tíma heimild að barnið á myndinni hafi verið drengur að nafni Kong Nyong sem lifði hungursneyðina af en lést árið 2007.
— Ljósmyndari: Kevin Carter, hvítur suðurafríkubúi, (stytti sér aldur ári síðar).















Tvær myndir eru mér minnistæðar frá Víetnamstríðinu. Önnur er af manni sem tekinn er af lífi með byssuskoti, hin er tekin 8. júní 1972 eftir Napalmsprengjuárás Suður-Víetnama á suður-víetnamskt þorp sem Víetcong hafði hertekið. Myndin sýnir hina níu ára gömlu Phan Thị Kim Phúc hlaupa allsnakta og skaðbrennda frá napalmsprengingu.

















Þá víkur sögunni aftur til Bandaríkjanna. Þótt afnám kynþáttaaðskilnaðar í skólum hafi verið lögfest árið 1954 var það ekki fyrr en 1960 sem grunnskólanemendur af afrískum uppruna hófu skólagöngu í ‘blönduðum’ skóla. Þá sóttu foreldrar Ruby Bridges, sem þá var sex ára, um skólavist fyrir hana í skóla sem eingöngu hvít börn höfðu gengið í fram að því en fyrst þurfti hún að ná inntökuprófi sem eingöngu var lagt fyrir svört börn og ekki ætlast til að þau réðu við.

Ruby var ein af sex börnum í New Orleans sem náðu prófinu, þar af hættu foreldrar tveggja þeirra við alltsaman, en foreldrar fjögurra stelpna ákváðu að senda þær í hvíta skólann sem yrði þá blandaður skóli. Þrjár stelpnanna fóru þó í annan skóla en Ruby, hún ein fór í skólann sem öll börnin höfðu upphaflega ætlað að sækja, en hann var stutt frá heimili hennar. Eins og Ruby voru þremenningarnir einu svörtu nemendurnir í sínum skóla (raunar tæmdust skólastofurnar af hvítum börnum því foreldrarnir þoldu ekki tilhugsunina um svört bekkjarsystkin), og allar þurftu þær fylgd alríkislögreglumanna í skólann til að byrja með.

Mynd tekin 14. nóvember 1960 af Ruby Bridges að fara í nýja skólann sinn í fyrsta sinn í fylgd alríkislögreglumanna.
— Ljósmyndari: ónafngreindur starfsmaður dómsmálaráðuneytisins.


Olíumálverk Normans Rockwell af Ruby á leið í skólann er jafnvel frægari en ljósmyndin. Það hékk um tíma í Hvíta húsinu þegar Obama réð þar ríkjum, en bar fyrst fyrir augu almennings sem opnumynd í tímaritinu Look í janúar 1964.












Óskandi væri að fleiri börn þyrftu ekki að þjást fyrir gjörðir fullorðna fólksins. Að ekki þurfi að festa á filmu fleiri börn í háska og kvöl, dáin eða deyjandi, svo að við tökum við okkur.

Enn mikilvægara er að ráðamenn um allan heim sjái að sér.

Efnisorð: , , , , , , ,