sunnudagur, júní 03, 2018

Sjómannadagurinn 2018

Svarfdælingurinn Þorleifur Ágústsson (1900-1984) sjómaður og bóndi í Hrísey á Eyjafirði, síðar frystihússtjóri þar og loks yfirfiskimatsmaður á Norðurlandi segir sögu sína í sjötta hefti Aldnir hafa orðið (1977). Hér á eftir fara brot úr frásögn hans.

„Þar sem faðir minn hafði ofurlítinn búskap, var ég smali og sat kvíærnar í þrjú sumur og á margar góðar endurminningar frá því starfi. En snemma vandist ég einnig sjónum, því fyrst þegar ég man eftir mér gerði faðir minn út árabát og tólf ára fór ég minn fyrsta róður. Mér er það glöggt í minni þegar ýtt var úr vör og allir sestir undir árar, að þá tóku allir ofan höfuðföt sín og formaðurinn las sjóferðabænina upphátt. Þetta var gert áður en fyrstu áratogin voru tekin en bænin er mér því miður gleymd.

Ég fékk að fljóta með upp á hálfan hlut. Það bætti hlut minn þegar ég fór að róa fyrir alvöru, að ég var fljótur að beita línuna. Alltaf var mikið kapp lagt á þa, að komast sem fyrst í róðurinn, til þess að geta lagt línuna á bestu miðin, sem þá voru misjöfn, eins og ætíð, þrátt fyrir það, að alls staðar væri fiskur. […]

Vorið 1916 réði ég mig á kútter Talisman, sem var 74 tonn að stærð. Eigandinn var Þorsteinn Jónsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Dalvík. Skipverjar voru 17 talsins. Þar var enginn mótoristi, enda eingöngu notuð segl. […] Segja mátti, að það væri valinn maður í hverju rúmi, að undanskildum okkur, þremur viðvaningum, sem ekki höfðum áður farið á handfæraveiðar á svo stóru skipi. […]

Fiskur var nægur, ekki vantaði það, og okkur strákunum gekk vel að draga þann gula. Mikið kapp var í mannskapnum. Skipið fylltum við á rúmlega mánaðar tíma, enda góðar gæftir og engar frátafir, enda vorum við oft þreyttir. Það get ég sagt, að þessi túr var mikill og góður skóli fyrir mig síðar á ævinni, enda voru þeir yfirmenn, sem áður voru nefndir, ágætir stjórnendur og kunnu vel sjómannsverkin á allan hátt.

Sjóferðirnar urðu ekki fleiri á Talismann í bráð, því í ljós kom, þegar líða tók á sjóferðina og farmur að aukast að skipið þoldi þetta ekki og fór að leka, sem þó kom ekki að verulegri sök vegna árvekni yfirmanna. Þegar heim var komið og búið að losa skipið og ræsta það, var því lagt á Dalvík og þar lá það um sumarið. Um haustið dró vélbátur það til Akureyrar og þar var það sett á land til eftirlits. Sú skoðun leiddi í ljós, að Talismann var ekki sjóhæfur lengur og fór nú fram á honum mikil viðgerð. Og að sex árum liðnum fór skipið svo sína síðustu ferð, sem kunnugt er. Skipið strandaði á Sauðanesi við Önundarfjörð, er það var á suðurleið árið 1922. Er sá sorgaratburður mörgum enn í minni.“

Sautján ára réð Þorleifur sig á seglskipið Önnu sem gerði út á handfæraveiðar á Vestfjarðamiðum með tólf manna áhöfn. „Árin 1918 til 1921 dvaldist ég enn heima, var á mótorbátum á sumrin en við skepnuhirðingu á vetrum og annaðist kvikfénað föður míns, en einn vetur var ég vetrarmaður […] í Ólafsfirði.“

Hann flyst síðan úr Svarfaðardalnum til Hríseyjar ásamt foreldrum sínum 21 árs gamall. „Þar voru verkefnin á ýmsan hátt stærri, bæði á sjó og landi, þótt verkahringurinn væri sá sami og ég hafði vanist í uppvextinum.“

„Við kunnum vel við okkur í Hrísey, enda var hún okkur ekki með öllu ókunnug, að minnsta kosti ekki hvað mig snerti, því ég hafði oft komið þar og þekkti þar margt fólk, sem nú varð nágrannar okkar. Ég hafði meira að segja orðið svo frægur að fara fótgangandi frá Dalvík til Hríseyjar og var það frostaveturinn 1918. Þannig var Eyjafjörður þá, fullur af hafís, sem allur fraus saman og varð að einni íshellu landa á milli og út í hafsauga. Samgöngur voru litlar eða nær engar í fimm vikur. Allan þann tíma var heljar kuldi og voru þetta allt mikil umskipti frá því, sem venjulegt var.

Þegar ég fór gangandi á ísnum, vorum við Zophonías, vinnumaður á Bakka saman á ferðinni og vorum að flytja hey frá Dalvík og vorum við með hest og sleða. Aldrei hefur mér fundist þessi leið eins löng og þá, enda þurftum við að fara marga króka, því hafísinn var svo ósléttur og svo mikið var af borgarísjökum, sem sneiða þurfti hjá á leiðinni. En hvergi var ísinn neitt viðsjárverður þegar við fórum þessa ferð, enda búin að vera grimmdarfrost í lengri tíma, og allt fór þetta vel hjá okkur. En ekki datt mér þá í hug, að ég ætti eftir að eiga heima í Hrísey í 36 ár, en sú varð þó raunin og jafnframt var þetta yndislegasta tímabil ævi minnar.“

Veturinn 1923-1924 var Þorleifur á Akureyri og lauk prófi í siglingafræði og vélfræði. Sumarið 1925 var hann stýrimaður á síldarskipinu Líf, sem var 45 tonna. Næst lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hann var á vertíðum 1926-1928 og seinna árið trúlofaðist hann tilvonandi eiginkonu sinni Þóru Magnúsdóttur frá Streiti á Berufjarðarströnd í Suður-Múlasýslu.

Þorleifur segir tvær sögur af erfiðum sjóróðrum. Þetta er sú seinni.

„Árið 1938 var ég á bátnum Óla Björnssyni. Formaður var Garðar Ólason. Tíðin var rysjótt. Við fórum í fyrsta róðurinn miðvikudagskvöldið fyrir skírdag í vestan kalda. Haldið var vestur með landi og undir Skaga. Mótvindur var alla leiðina, þar til við fórum að nálgast Skaga. Það dró úr kvikunni en hvassar hrynur voru af og til. Línan var lögð meðfram Skaganum, út á móts við Skagatá. Línudrátturinn gekk eftir ástæðum vel, en alltaf var að hvessa af vestri, og lukum við ekki drætti fyrir en klukkan fimm á skírdag. Var þá komið bullandi rok og óx sjónvonskan meira og meira, eftir því sem austar kom. Aflinn var tregur hjá okkur, mest steinbítur, en lítið af þorski.

Heim var svo haldið og eftir svo sem einn klukkutíma kom mikill brotsjór á bátinn að aftan, svo að hann ætlaði að sogast niður. Við vorum þrír í lúgarnum, en Garðar í stýrishúsinu. Við, sem niðri vorum, urðum fljótt áskynja um, hvað var að gerast. Vélin var lítið notuð undan veðrinu. Það kom sér vel, að Garðar kunni vel til verka og reynd að bjarga því sem bjargað varð, því við reyndum ekki að fara til dekks. Línan var í stömpunum á bæði borð. Stamparnir fylltust og þyngdu bátinn mikið. Eftir brotsjóinn var báturinn svo mjög í kafi, að allt benti til þess, að illa mundi fara. En viti menn, báturinn kom smátt og smátt upp, á svo lítilli ferð, að aðeins var haldið í horfinu. Nú fórum við upp á dekk, opnuðum lestarhlerana lítið eitt og ruddum öllu, sem við gátum, fyrir borð. Negldum við svo lestarhlerana fasta og athuguðum allar aðstæður.

Veðurofsinn var enn sá sami og kominn blindbylur. Við fórum á hægri ferð og vorum lengi á leiðinni og aldrei sáum við land fyrr en við komum til móts við Siglufjörð. Við vorum orðnir slæptir og ákváðum að leita hafnar á Siglufirði, og um leið og við komum inn í fjarðarmynnið, var sem við værum komnir í höfn, og þegar við sáum ljósin í kaupstaðnum, urðum við fegnir. Þá var komið langt fram á nótt og enn versta verður, þótt sjólítið væri á firðinum. Enginn var á ferð er við lögðumst að Skaftabryggjunni og bundum bátinn þar. Fengum við okkur nú hressingu og létum líða úr okkur þreytuna.

Eftir svo sem tveggja tíma dvöl við bryggjuna, vorum við orðnir nokkuð hressir og héldum út og tókum stefnuna inn á Eyjafjörð og heim til Hríseyjar. Glaðir og hressir komum við heim til okkar. Þarna hafði verið um beinan lífsháska að ræða. Og það eitt get ég sagt, að hvorki í Vestmannaeyjum eða í annan tíma, hefur brúin milli lífs og dauða verið veikari en í þessari eftirminnilegu sjóferð.“

Lýkur nú tilvitnun í frásögn Þorleifs Ágústssonar í Aldnir hafa orðið. Ári eftir þessa hættuför réðist hann sem skipstjóri á síldarbát en hætti með öllu sjómennsku árið 1949 eftir gifturíkan 36 ára feril. Ekki fylgdi gæfan öllum skipum, og verða því hér rifjaðar upp fréttir af hörmulegum endalokum þilskipsins Talisman, sem Þorleifur minntist á í frásögn sinni.

Skipskaði.
Þilskipið Talisman strandar.
12 menn drukna.

Þilskipið Talisman, frá Akureyri
hefir strandað á Vestfjörðum og
talið að 12 menn hafi farist, en
4 bjargast. Fregnir af þessu sorg-
lega slysi eru enn mjög ógreini-
legar og ber ekki vel saman. Skip-
ið var á leið hingað frá Akureyri
og átti að stunda veiðar héðan á
vertíð. Það mun hafa strandað ut-
arlega við Dýrafjörð.
[Vísir 27. mars]


Mannskaðinn
Nánari fréttir eru nú komnar
af slysinu, sem varð aðfaranótt
laugardagsins, þegar Talisman
strandaði. Skipið sigldi á land ut-
arlega við Súgandafjörð, vestan-
verðan, ekki fjarri prestssetrinu
Stað. Stórhríð var, og mikið brim.
Sjö menn bárust í land á stór-
mastri skipsins, en þrír þeirra dóu
af vosbúð og kulda. Skipið hafði
fengið áfall á Húnaflóa og lask-
ast nokkuð og skipstjórinn meiðst.
[Vísir 28. mars]


Hörmulegt slys
Skip strandar. 12 menn farast.

Fiskiskipið „Talisman“ frá
Akureyri eign Ásgeirs Péturssonar
strandaði í fyrrinótt um 12 leitið
utarlega við Súgandafjörð vestan
verðan í Kleifarvík nærri Stað.
Stórviðri var á og frost. Skips
höfnin var 16 manns, sjö þeirra
komust á land á stórsiglunni um
fimmleitið f gærmorgun; skiftu
þeir sér og fundust fjórir skamt
frá Flateyri af mönnum er voru á
leið til Súgandafjarðar; voru þeir
lifandi, en tveir þeirra þó mjög
þjakaðir. Súgfirðingar leituðu og
fundu tvo látna skamt frá Stað
og einn með lífsmarki, sem dó
þó skömmu síðar. Átta lík hafa
rekið í fjörunni. Skipið hefir liðast
í sundur. Tólf hafa alls farist.

„Talisman“ hafði fengið áfall
mikið í Húnaflóa, káetukappinn
losnað og skipið fyllst af sjó. Kort
öll o. þ. h. farið. Skipstjórinn
meiðst all mikið.

Þeir sem fórust.

Frá Akureyri: Mikael Guð
mundsson skipstjóri, lætur eftir
sig konu og börn, Stefán Ás-
grímsson mótoristi, lætur eftir sig
konu og börn. Stefán Jóhannes-
son, Ásgeir Sigurðsson og Bene-
dikt Jónsson.

Af Siglufirði: Bjarni Emilsson
og Gunnar Sigfússon.

Af Eyjafirði: Tryggvi frá Skeiði,
Þorsteinn Jónsson frá Grímsnesi,
Sæmundur Friðriksson Glerár-
hverfi, Jóhannes Jóhannesson frá
Kúgili og Sigurður Þorkelsson.

Skipið er brotið í spón.
[Alþýðublaðið 27. mars 1922]



Efnisorð: ,