þriðjudagur, maí 01, 2018

1. maí 2018

Fréttablaðið kom í morgun hulið auglýsingakápu. Ansi smellið hjá Húsgagnahöllinni að nota 1. maí til að auglýsa að í dag yrði opið og sérstök afsláttarkjör að auki. Starfsfólkið þurfti semsé ekki bara að mæta í vinnuna heldur var beinlínis ætlast til að það yrði extra mikið að gera hjá þeim. Kapítalisminn í essinu sínu alveg.

Ljósmæður hafa fengið kaldar kveðjur undanfarið frá ríkinu (les: Svandísi Svavarsdóttur)sem ekki vill semja við þær um hærri laun — og í dag tók steininn úr þegar fjármálaráðuneytið (les: Bjarni Ben) byrsti sig og sagði að þær mættu ekki neita að vinna yfirvinnu.

Hér er vert að minnast á kaupaukakerfi, og ofurlaun forstjóra. Einn þeirra fær 18 milljónir á mánuði.

Á sama tíma óttast málsvarar kapítalismans áhrifin sem kjarasamningar pöbulsins geti haft á framvindu efnahagsmála og halda því fram að það sé „sótt að markaðshagkerfinu um þessar mundir og til lengri tíma litið eru það kannski alvarlegustu afleiðingar fjármálahrunsins“.

Kjarabaráttan árið 2018 snýst ekki síst um húsnæðismál. Leiga hækkar og hækkar í meðförum leigufélaga, og venjulegt fólk getur vart með góðu móti borgað himinháa húsaleigu. Hrekst á endanum heim til foreldranna — en auðvitað eiga ekki þess allir kost. Fasteignaverð er slíkt að margt fólk á engan möguleika á að kaupa húsnæði. Háar leigugreiðslur hafa áhrif á alla afkomu fólks, það hefur minna milli handanna getur ekki borgað fyrir tómstundir barna sinna. Í 'góðæri' ætti ekki fjöldi fólks að þurfa að herða sultarólina.

Níðst er á starfsmönnum sem vinna þjónustustörf í ferðaiðnaði eða ýmiskonar verkamannavinnu. Látin vinna of langa vinnudaga, of marga daga í röð, látin hýrast í kompum á vegum vinnuveitandans, eru ekki upplýst um réttindi sín. Jaðrar við þrælahald á stundum. Svo stingur vinnuveitandinn opinberu gjöldunum í vasann ef hann þá yfirleitt gefur nokkuð upp af rekstrinum, og svíkur þannig samfélagið um skatt sem á að fara í samneysluna.

Fólk flýr úr störfum sínum sem hjúkrunarfræðingar og leikskólakennarar vegna lélegra kjara, manneklu sem eykur álag á þá sem eftir verða. Það bitnar á börnunum, og letur líka aðra til að læra til þessara starfa, sem bitnar á öllu samfélaginu.

Illa er farið með öryrkja og aldraða sem margir hverjir lepja dauðann úr skel. Krónu á móti krónu skerðingin mun hafa verið afnumin hjá öldruðum, en ekki hjá öryrkjum. Björgvin Guðmundsson kallar þetta grófa mismunun.

Börn búa við fátækt. Fullorðið fólk, sumt í fullri vinnu, er fátækt.

En hey, sjáiði ekki veisluna drengir.

___
[Viðbót, vegna pistils sem bloggara sást yfir, og bætir verulega við það sem rætt er hér fyrir ofan]
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB sagði í tilefni dagsins:
„Það virðist alltaf vera þeir hópar sem eru á lægstu laununum sem eiga að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Á meðan finnst þingmönnum, ráðherrum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana fullkomlega eðlilegt að þeirra laun hækki um upphæðir sem eru úr öllu samhengi við það sem launafólk í landinu þekkir. Það er einfaldlega engin þolinmæði eftir gagnvart ofurlaunum og bónusum fyrir stjórnendur fyrirtækja og þá sem sýsla með peninga.

Í síðustu kjarasamningum hafa stéttarfélög lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa. En það þarf að gera betur því lægstu laun eru allt of lág. En hvers vegna finnur fólk ekki fyrir því að lægstu launin hafa hækkað? Á því er einföld skýring. Á meðan verkalýðshreyfingin hefur beitt sér sérstaklega fyrir hækkun lægstu launa hafa stjórnvöld ekki gengið í takt. Dregið hefur verið markvisst úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins, persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun, vaxtabætur og barnbætur hafa verið skertar verulega og húsnæðisbætur sömuleiðis. Þetta er algerlega óþolandi og gegn þessu þurfa stéttarfélögin og bandalög þeirra að berjast.“

Efnisorð: , , ,