sunnudagur, apríl 22, 2018

Skáldastyrkir árið 1918

Allt þetta ár hefur Ríkisútvarpið daglega flutt örstutta þætti um líf Reykvíkinga á fullveldisárinu 1918.* Þetta er eitt sögulegasta ár síðustu aldar: frostavetur, eldgos, mannskæð inflúensa, fullveldi.** En þar sem þetta er upplestur úr bréfum, dagbókum, auglýsingum og þessháttar þá ber fleira á góma en þessir stórviðburðir. Þættirnir sem bera heitið R1918 varpa þannig ljósi á hugarheim og iðju hárra sem lágra.

Í einum þáttanna er lesin upp*** tilkynning frá stjórnarráðinu um skáldastyrk til skálda og listamanna. Þar eru þessir taldir upp sem styrkhafar (þeirra tíðar starfslauna listamanna) árið 1918.

Einar H. Kvaran rithöfundur
Einar Jónsson myndhöggvari
Guðmundur Magnússon rithöfundur [Jón Trausti]
Guðmundur Guðmundsson skáld [skólaskáld]
Jóhann Sigurjónsson rithöfundur [og leikskáld]
Valdimar Briem vígslubiskup***
Guðmundur Friðjónsson skáld
Jakob Thorarensen skáld
Sigurður Heiðdal sagnaskáld [fyrsti forstöðumaður á vinnuhælinu Litla-Hrauni]
Ásgrímur Jónsson málari
Jóhannes Kjarval málari
Ríkharður Jónsson myndasmiður.

Ekki eru nöfn allra þessara karla jafn kunnugleg***** en margir þeirra eru aftur á móti enn mjög þekktir og teljast meðal fremstu manna á sínu sviði enn þann dag í dag. Mættu fávísir menn sem mæla gegn opinberum fjárstyrkjum eða listamannalaunum íhuga þennan nafnalista og velta fyrir sér hvort þessum fjármunum hafi verið á glæ kastað.


___
* Hver þáttur er örstuttur, yfirleitt rúm mínúta, og enginn nær fullum þremur mínútum að lengd.

** Frostaveturinn hófst fyrir alvöru í janúar 1918. Kötlugosið hófst laugardaginn 12. október og því lauk mánudaginn 4. nóvember. Á meðan á gosinu stóð stakk spænska veikin sér niður, í lok október. Á Íslandi dóu á sjötta hundrað manns úr veikinni, rúmlega helmingur í Reykjavík. Þar lést fyrsti inflúensusjúklingurinn föstudaginn 1. nóvember og næstu vikur var bærinn í greipum dauðans. (Vísindavefurinn).

*** Á vefsíðu þáttarins eru lesarar hvers þáttar af R1918 kynntir (Reykvíkingar dagsins í dag ljá Reykvíkingum frá árinu 1918 rödd sína og lesa valda texta frá því ári), sú sem les Skáldastyrk heitir Kristín G. Ísfeld og er kennari á eftirlaunum.

**** Valdimar Briem vígslubiskup fékk sennilega ekki styrk í nafni embættis síns enda er það hann sem orti meðal annars Nú árið er liðið, Í Betleheim er barn oss fætt, og Kallið er komið sem er númer 271 í Sálmabókinni og er oft í minningagreinum merkt höfundinum sem Vald.Briem. eða V. Briem.

***** Tenglar við nöfnin vísa á frekari upplýsingar um styrkþegana. Þeir voru á aldrinum 30-70 ára, tveir þeirra létust úr spænsku veikinni: Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) í nóvember 1918 og Guðmundur skólaskáld í mars árið eftir.

Efnisorð: