fimmtudagur, apríl 19, 2018

Sumardagurinn fyrsti

Skáldið Jóhann Gunnar Sigurðsson væri líklega öllum gleymdur ef Skólaljóðanna nyti ekki við. Þar er sagt frá því að hann hafi fæðst 1882 og alist upp á Snæfellsnesi en síðar tekið stúdentspróf og sest á skólabekk í prestaskólanum. „En þá veiktist hann af berklum, og dró það hann til dauða á skömmum tíma aðeins 24 ára gamlan. Flest beztu kvæði sín yrkir Jóhann, eftir að honum er ljóst, að hann á skammt ólifað.“
VORKVEÐJA
Ég veit þú ert komin, vorsól.
Vertu ekki að fela þig.
Gægstu nú inn um gluggann.
Í guðs bænum kysstu mig.

Þeir eru svo fáir aðrir,
sem una sér hjá mér.
Já, vertu nú hlý og viðkvæm.
Þú veizt ekki, hvernig fer.

Því það er annað að óska
að eiga sér líf og vor
en hitt að geta gengið
glaður og heill sín spor.

Já krakkar mínir, það þarf ekki alltaf að vera hopp og hí þótt það sé sumardagurinn fyrsti.

Efnisorð: