þriðjudagur, apríl 17, 2018

Trúfélög ræða umskurð drengja (aðrir mannréttindi barna)

Það er ekki fullt út úr dyrum á ráðstefnu Samráðsvettvangs trúfélaga og lífsskoðunarfélaga um umskurð drengja. Hefði ég vitað það fyrirfram hefði ég mætt á staðinn. Í staðinn fylgist ég æsispennt með streymi frá ráðstefnunni.

Ólafur Þór Gunnarsson læknir, sem er einn þeirra þingmanna sem lagt hafa frumvarpið fram, var fyrstur í ræðustól og kom með öll hin bestu rök í málinu. Ekki er víst að allir ræðumenn muni ræða af jafn mikilli skynsemi.

En nú þarf ég að einbeita mér að ræðu Salvarar Nordal.

Meira síðar.


Rétt í þessu:
Sænski rabbínin að tala. Segir Íslendinga öðruvísi en aðrar Norðurlandaþjóðir, og nefnir hlaðið grjót sem hún sá á leiðinni frá flugvellinum til Reykjavíkur. Ekki er ljóst hvort hún átti við vörður eða furðulegu skúlptúrana sem spruttu upp fyrir nokkrum árum. Var hún að giska á að þetta væru trúarleg tákn eða laug því einhver í hana? Ég er aldeilis hlessa.

Endalaust hamrað á því að bann við umskurði gangi gegn trúfrelsi. Fólk hafi rétt á að ala upp börn í trú; einsog það sé ekki hægt án þess að skera af þeim líkamsparta? Og eru þá stúlkur ekki aldar uppí neinni trú úr því ekkert er krukkað í þær? Meira ruglið.

Sveinn Svavarsson talaði fyrir hönd Intact Iceland, samtaka gegn umskurði. Hann eins og margir aðrir þurfti að tala hratt enda mælendaskrá löng og tíminn stuttur. En hafi mér ekki misheyrst því meir, var ég sammála öllu sem hann sagði.

Skellti hinsvegar uppúr þegar lesin voru upp skilaboð frá kaþólsku kirkjunni (sá sem átti að tala missti af fluginu) og þar var því haldið fram að kaþólska kirkjan hefði velferð barna í huga.

En já, allt trúaða liðið stendur saman, og í miðjum sal situr Agnes biskup. Öss.

Nú hefur fólk utanúr sal tækifæri til að tjá sig eða spyrja.

Bandarískur gyðingur er fyrstur í pontu til að styðja bannið. Mikilvæg rödd.

Ónei, Jón Valur Jensson. Segir eitthvað um að þótt kristnir stundi ekki umskurð banni Nýja testamentið það ekki. Þetta er punktur sem hann dregur ekki fram þegar hann ræðir fóstureyðingar. Hann er farinn að æpa.

Loka-lokaorð flutti einhver sem var óskaplega glaður með þetta samtal ólíkra trúarbragða. Það má svosem taka undir það (fyrir utan að þau voru ekki ósammála um neitt svo þetta tók varla mikið á). En úr því þau eru svona góðir vinir — er þá ekki næsta skref að þau leysi málefni Palestínu/Ísrael?

Hér lýkur því sem varð óvart bein lýsing á beinni útsendingu.

__
[Viðbót] Frétt og myndskeið frá ráðstefnunni.

Efnisorð: , ,