fimmtudagur, mars 22, 2018

Alþjóðlegur dagur vatnsins

Mikið uppnám varð fyrr á árinu þegar drykkjarvatn á höfuðborgarsvæðinu reyndist mengað. Það voru þó sárasaklausir jarðvegsgerlar (var okkur sagt) sem höfðu skolast útí vatnsból þegar hlánaði og engin hætta á ferðum, en í vissum hverfum var viðkvæmu fólki ráðlagt að sjóða neysluvatn. Í smástund leið manni þó eins og ástandið væri orðið ískyggilega líkt og í Flint, Michican, og vatn-úr-krananum væri liðin tíð, og þar með ein helsta forsenda þess að þykja Ísland byggilegt. Það var samt ágætt að við fengum að upplifa þetta ástand (enn betra hvað það stóð stutt) því þá getum við kannski eitthvað betur sett okkur í spor þess stóra hluta mannkyns sem á þess ekki kost að drekka ómengað beint úr krananum að vild.

Einsog við vorum nú hvekkt á þessu óhagræði að þurfa hugsanlega að sjóða vatn er furðulegt sinnuleysi margra fyrir þeim áformum að leggja háspennulínu yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Ómar Ragnarsson hafði sitthvað um þetta alltsaman að segja:
„Nú er sótt að flestum undirstöðum ímyndar Reykjavíkur og nágrennis sem auglýst hafa verið sem "hreinust í heimi" á öllum sviðum.
Innan við ár er síðan 40 ára ófremdarástand sjávar í Skerjafirði birtist á ný, sem var kannski ekki aðalatriðið, heldur það að þrjóskast var í lengstu lög við að leyna ástandinu.
Nýslegið er met í svifryksmengun, þrítugfalt yfir heilsuverndarmörkum með arsen, kvikasilfur, blý og brennisteini, og nú eru það gerlar í kalda vatninu í Reykjavík. 
Þessi nýjasta kemu frá vatnsverndarsvæði borgarinnar, en Landsnet lýsir yfir einbeittum vilja til að vaða sem stærstu gerð af nýrri háspennulínu í gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins með tölu með öllu því raski og mengunarhættu sem því fylgir. [breið- og skáletrun höfundar] 
"Virkjanaæðið" sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði það, birtist meðal annars í því að á sama tíma sem virkjanamenn telja alltof dýrt að fara með línur í jörðu á skárri leið en yfir vatnsverndarsvæðin öll austan höfuðborgarsvæðisins og líka alltof dýrt að leggja línur í jörð á leið Vesturlínu til Ísafjarðar og Bolungarvíkur, telja þeir að leikur einn sé að leggja línur í jörð yfir þvert Vestfjarðahálendið og um alla firði Ísafjarðardjúps á leiðinni frá nýrri virkjun í Ófeigsfirði á Ströndum alla leið vestur á Ísafjörð.“ 
Fyrir þau sem vilja rifja upp þessar hugmyndir um (eða aðallega gegn) raflínulögn og vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins, má lesa tíu ára gamla tillögu þáverandi borgarfulltrúa um að bannað verði að leggja raflínur yfir Heiðmörk; og ársgamalt bréf sem Hraunavinir ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands sendu kjörnum fulltrúum bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsstjórum, þar sem „vakin er athygli á þeirri hættu sem steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðar lagningar háspennulína um vatnsverndarsvæði“.

Margar hættur steðja að vatnsbólunum. Heilsíðuauglýsingar Veitna, sem birtar voru í dag í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins, minntu á að vatnsbólin eru á ábyrgð okkar allra. Á vefsíðu er ítarlegri texti og þar segir meðal annars:
„Vatnsbólin sem við sækjum vatnið okkar í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að þessi svæði mengist ekki t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.“
Einnig þetta:
„Við hjá Veitum höfum dálitlar áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið og sérstaklega því þegar verið er að flytja olíu í miklu magni um Suðurlandsveg sem er í útjaðri vatnsverndarsvæðisins.“
Sannarlega er olíumengun áhyggjuefni. Það má þó ekki gleyma því að mikil mengunarhætta myndi fylgja lagningu raflínu gegnum eða í nálægð við vatnsverndarsvæðið.

Stöndum ávallt vörð um vatnsbólin, leyfum aldrei slíka framkvæmd.

Efnisorð: ,