sunnudagur, febrúar 18, 2018

Talsmenn abrahamísku trúarbragðanna sammála um að misþyrmingar á börnum séu bara alltílæ

Egill Helgason spáir því að frumvarp sem banni umskurð drengja verði svæft í nefnd. Og það má svosem vera að þingið guggni af ótta við að vera sakað um gyðingaofsóknir. Það væru þó vond málalok að vernd barna víki fyrir glórulausum fornum siðum.

Óttar Guðmundsson geðlæknir er á gyðingahaturslínunni, það er að segja lætur sem frumvarpinu sé beint gegn gyðingum en sé ekki ætlað til verndar ómálga börnum. Það er andstyggilegur málflutningur. Og jafnvel þótt kæmi í ljós að upphafsmenn frumvarpsins gerðu það til að klekkja á gyðingum (tilhvers svosem veit ég ekki) eða múslimum (ég vona að það eigi heldur ekki við) þá ætti alltaf að setja það í lög að ekki megi gera ónauðsynlegar og varanlegar aðgerðir á líkama barna, bara vegna þess að foreldrunum finnist það við hæfi.* En Óttar er þekktur fyrir að vera með asnalegar skoðanir á flestum hlutum, og maður ætti eiginlega ekki að kippa sér upp við að hann saki mann og annan um gyðingahatur uppúr þurru.

Það olli mér hinsvegar miklum vonbrigðum að sjá séra Bjarna Karlsson mæla gegn frumvarpinu. Hann sem hefur verið málsvari flóttamanna, talað á feminískum nótum og virst vera einn af boðberum nýrra tíma í þjóðkirkjunni.
„Væri ekki ráð í stað þess að glæpavæða hérna heilu menningarheimana, að við efndum til samtals þar sem við fengjum að heyra ólíkar raddir og reynslu karlmanna í tengslum við umskurn?[**] Fengjum að fræðast af gyðingum, múslimum, Bandaríkjamönnum o.fl. menningarheildum og reyndum að skilja hvað um er að ræða þegar umskurn er annars vegar. Hættan er nefnilega sú að þetta málefni verði bara farvegur fyrir meðvitaða og ómeðvitaða þörf okkar fyrir það að vera hreinni, upplýstari og betri en annað fólk.“
Mér virðist sem Bjarni sé einmitt að þykjast vera upplýstari og betri en annað fólk — hann sé svo mikið betri í fjölmenningunni, enda vill hann ekki „banna siðvenju rúmlega helmings Bandaríkjamanna og árþúsundagamla hefð gyðinga og múslima o.fl. menningarheima“. Eitthvað virðist hann þó gleyma börnunum, þessum sem Jesúsinn hans lét sér sérlega annt um.

Ekki bætti úr skák þegar Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur tjáði sig um frumvarpið og sagði:
„Umskurður sveinbarna er einn útbreiddasti menningar/trúarsiður sem fyrirfinnst í mannlegum samfélögum. Almennt er talið að rúmur þriðjungur karla í heiminum sé umskorinn. Ástæður eru gjarnan sambland af menningar/trúararfi, hreinlætisástæðum, samkennd, jákvæðri sjálfsmynd og heiðri. Umskurður drengja er algengastur í Mið-Austurlöndum en stór hluti t.d. Bandaríkjamanna er einnig umskorinn. Umskurður drengja er hvergi bannaður í heiminum frekar en ungbarnaskírn okkar kristinna, né stangast framkvæmdin á við nokkur mannréttindi.“
Hvað með réttindi þeirra karlmanna sem sitja uppi með varanlegan skaða eftir aðgerð sem var framkvæmd á þeim án þeirra leyfis þegar þeir voru börn?

„Umskurði drengja er ekki ætlað að meiða, niðurlægja eða skerða lífsgæði með nokkrum hætti, heldur hið gagnstæða.“
Nei en það er nú samt stundum niðurstaðan.

Fríkirkjan hefur í mínum huga hingað til verið boðberi framfara og bættra tíma: Hjörtur Magni með fyrstu prestum ef ekki sá alfyrsti sem blessaði hjónabönd samkynja hjóna, löngu áður en lögin leyfðu að gefa mætti þau saman. Nú spyr hann:
„Væri ekki mannúðlegra í upplýstu samfélagi að læra að virða menningarlegan fjölbreytileika og efla þroskaða umræðu við þá sem eru okkur framandi?“
Prófa að hugsa um mannúð í sambandi við lítil börn, og læra að virða rétt þeirra til halda öllum sínum líkamshlutum, Hjörtur Magni. Það er ekki nóg að hafna gömlum siðum á borð við fordæmingu samkynhneigðra (sem sannarlega er enn ofarlega í huga margra trúfélaga, trúarleiðtoga og hreinlega í heilu samfélögunum) ef það á sérstaklega að halda uppá þennan gamla tilgangslausa og úrelta sið, sem engum gerir gott. Hvaða hugsun liggur að baki því að verja þetta?

Til að kóróna allt skrifar Agnes M. Sigurðardóttir umsögn við frumvarpinu. Agnes er fyrsta konan í biskupsembætti. Maður skyldi halda að það embætti (burtséð frá einum forvera hennar í starfi) ætti að hafa í huga aðferðir Jesú sem var umhugað um börnin. Hvað skyldi hún segja?
„Biskup og þjóðkirkjan bera almennt virðingu fyrir siðum og venjum annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.“

„réttur barna til að fá að alast upp við trúarlegar og menningarlegar grundvallarhefðir foreldra sinna og alls síns fólks, sem getur mótað sjálfsmynd þeirra.“

„Hættan sem blasir við verði frumvarpið að lögum, er sú að Gyðingdómur og Islam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir. Allar slíkar öfgar skulum við forðast.“
Jú hún segir það sama og hinir frjálslyndu prestar, stendur þétt með hinum abrahímsku trúarbrögðunum og finnst allt réttlætanlegt sem þau boða eða framkvæma. Ja kannski ekki allt, en allavega þetta: Að skera í kynfæri á nýfæddum sveinbörnum. Af því að það er réttur barnanna að alast upp með forhúðarlaust tippi; það er hefð og annað séu öfgar. Forðumst öfgar og klippum tippi.


Mikið er ég fegin að vera trúlaus og þurfa ekkert að halda með þessu liði.

___
* Ég get fallist á að það sé fullstrangt að setja fólk í 6 ára fangelsi ef það lætur umskera barn sitt.

[**] Hér má lesa fjölmargar frásagnir karlmanna (á ensku) sem eru sársvekktir ef ekki fullir heiftar vegna þess að þeir voru umskornir, yfirleitt gegn eigin vilja og alloft með ömurlegum afleiðingum sem kvelja þá daglega. Margir þeirra virðast vera Bandaríkjamenn sem voru ekki umskornir vegna trúarskoðana foreldra þeirra, heldur vegna hreinlætisástæðna (í stað þess að kenna strákum að þrífa undir forhúðinni er hún skorin af) og vegna þess að pabbi þeirra væri umskorinn, eða stráknum gæti verið strítt ef hann væri öðruvísi en hinir strákarnir. Ekkert af þessu er góð ástæða fyrir að fjarlægja hold sem er fullt af taugaendum og hefur hlutverki að gegna þar sem það er frá náttúrunnar hendi.

Hér má svo sjá afar óþægilegar myndir af afleiðingum slíkra aðgerða.

Á þessari síðu er m.a. „áhugaverð heimildarmynd um hugmyndir og upplifun manna af því að vera með umskorið typpi“ — og svo eru brot úr myndum Mel Brooks.

Efnisorð: , , , , ,