föstudagur, janúar 19, 2018

Skepnuskapurinn í garð Noru Mørk

Það er einstaklega ömurlegt að fylgjast með því stafræna kynferðisofbeldi sem norska handknattleikskonan Nora Mørk hefur orðið fyrir. Í haust var brotist inn í símann hennar og persónulegum myndum af henni í framhaldinu dreift á netinu. Hún hefur kært fimmtán karlmenn fyrir drefinguna, en með hverjum deginum sem líður kemur betur í ljós hve myndirnar hafa farið víða. Eða öllu heldur, hverjir það eru (meðal annarra) sem hafa geð í sér að skoða myndir af konu sem þeir vita fullvel að berst gegn dreifingu myndanna. Leikmenn norska karlalandsliðsins í handbolta hafa þannig skemmt sér við að skoða myndirnar af henni.
„Danska blaðið BT segir frá því að myndirnar af Noru hafi þannig verið að ganga í búningsherbergjum danskra handboltaliða í tvo mánuði. Í gær var einnig sagt að myndirnar hafi verið að ganga innan norska unglingalandsliðsins í íshokkí.

BT fékk það staðfest frá dönskum handboltmönnum að myndirnar væru út um allt þó að viðkomandi heimildarmenn þeirra hafi ekki viljað koma fram undir nafni eða segja með hvaða félagi þeir spiluðu.“
Það hlýtur að vera hræðileg raun fyrir Noru Mørk að fólk í hennar íþróttagrein, jafnvel einhverjir sem hún þekkir, séu svo níðingslegir að vilja skemmta sér við að skoða myndirnar og auka þannig á niðurlægingu hennar.
„Ég verð nakin og berskjölduð alla mína ævi. Ég mun aldrei vita hverjir hafa séð mig. Ég finn fyrir pressunni af því á hverjum degi, öll kvöld og allar nætur,“ segir Nora en hún endaði yfirlýsinguna síðan á þessari setningu:

„Ég hef samt ekki misst trúna á öllum karlmönnum,“ skrifaði Nora.
Það er sjálfsagt ágætt að hún hefur ekki misst trú á karlmönnum, en ekki eykur þetta trú mína á þeim.

Í öðrum #metoo fréttum er þetta helst: Ríkissjónvarpið hefur enn og aftur kvikmynd eftir Roman Polanski á dagskrá. Þarf ekki að fara að taka eitthvað til í hausnum á þeim sem kaupa inn efni fyrir Sjónvarpið?

Efnisorð: , , , , ,