fimmtudagur, desember 28, 2017

Rakettu-Sævar eyðileggur gamlársvöld

Það kom á óvart hve undirtektirnar voru góðar þegar Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari lagði það til í gær að banna almenna notkun flugelda. Það er að segja að almenningur hætti að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld. Svona orðaði hann það í samtali við Vísi:
„Það er gífurlega mikil mengun af þessu og sérstaklega á dögum eins og gamlársdag þegar mengunarský mun koma til með að liggja yfir borginni. Þá veldur þetta fólki með öndunarörðugleika miklum óþægindum þannig að það getur ekki notið lífsins eins og fólk sem er svo heppið að þjást ekki af þessu. Sömuleiðis getur þetta valdið dýrum streitu og þá er sumt fólk jafnvel hrætt við þetta.”
Langflest fólk sem tjáði sig t.d. við frétt um tillögu Sævars á Vísi var mjög sammála honum. Svo virðist sem almenningur sé bara ekkert svo hrifin af mengun og hávaða sem fylgir flugeldum.
„En þessi efni hanga í loftinu enn lengur en þessa klukkutíma sem verið er að skjóta upp.
Það eru alls kyns þungmálmar í þessum rakettum sem þjóna engum tilgangi í daglegu lífi.“

„Algerlega sammála Sævari. Vert að minnast á öll slys á fólki á þessum tíma árs, að mínu mati eiginlega hálf galið að almennir borgarar séu að höndla með flugelda. Styð þessa tillögu Sævars!“

„Sammála þessu. Bara í næsta húsi við mig hafa tvö börn lent í alvarlegum tilvikum varðandi flugelda. Ung stúlka hefur aðeins um 30% sjón á öðru auga eftir flugeld. Bróðir hennar fékk 1-2 ári síðar flugeld í höfuðið en var svo heppinn að vera með hjálm, sem var varúðarráðstöfun fjölskyldunnar út af því sem gerðist.
Sjálfur fékk ég um 10 ára gamall fruss út blysi upp í auga. Blysið hafði gleymst í poka á gamlárskvöld og ég krakkinn var að reyna að kveikja í því.“

„Sammála. Væri áhugavert að sjá niðurstöður könnunar á áliti landsmanna á þessu. Held að það muni koma á óvart hve margir væru því fylgjandi. Mengunin er orðin yfirgengileg plús allt hitt sem nefnt er. Óvæntar sprengingar allan sólarhringinn, þá helst í kringum háttatíma barna og eftir að maður er farinn að sofa, í svona hálfan mánuð í kringum áramót. Þetta var skelfilegt fyrir hundinn okkar sem fékk næstum taugaáfall þrátt fyrir að vera á róandi.“

„Hárrétt! Við þurfum loksins að hugsa meira um umhverfið en þá augnabliks fullnægingu að sjá rakettu fara á loft með tilheyrandi hávaða. Mengunin er gríðarleg og hávaðinn og ljósið veldur dýrum miklu stressi.“

„Góð grein og alveg hárrétt! Við brennum miljarða um áramót og til hvers? Fyrir börnin okkar? Ég held ekki! Þessi púðuruppákoma er sennilega fleirum til ama en gleði. Eldra fólki, ungbörnum, gæludýrum og margt fleirum.“

„Mér þykir þessi skoðun Sævars til fyrirmyndar, lýsir afstöðu raunverulegs, alvöru umhverfisverndarsinna. Ekki nóg með það, heldur sýndi Sævar frábært fordæmi og lagði inn virðulega upphæð með beinum hætti til björgunarsveita, í stað þess að fjárfesta í 1000 ára gamalli uppfinningu frá austurlöndum fjær.“
Auðvitað trommuðu upp nokkrir sem voru ósammála, og vildu umfram allt að hin mikla sprengjuveisla gamlárskvöldsins væri í heiðri höfð. Ekkert skrítið við það svosem, aldrei geta allir verið sammála um allt. En það sem kom mér á óvart var hverjir það voru og hvaða rök þeir notuðu flestir. Í fyrsta lagi voru þetta næstum allt kallar sem oft tjá sig í athugasemdakerfum, og hafa t.d. nýverið talað gegn #metoo, og yfirleitt gegn feminisma. Semsagt menn sem eru á skjön við allt sem til framfara telst.

Og rök þeirra, og annarra sem tjáðu sig gegn „flugeldabanni“ voru undantekningalítið frelsisrökin (að öllum sé frjálst að gera hvað sem er svo framarlega sem það skaði ekki aðra; svo eru rök um skaðsemi endalaust dregin í efa), með vænu dassi af 'ekkert má nú lengur'.
„þetta er einusinni à àri þar sem er einhver mengun af ràđi.... og hvađ međ þađ þò heyrist ì stöku rakettu af og til? Aumingjavæđingin lìkt og einhver sagđi hèr neđar af fullun þunga“

„Aumingjavæðingin heldur afram“

„þetta eru nokkrir klukkutimar einu sinni a ari“

„það er bara ekkert mitt að stjorna öðrum frekar enn aðrir mer.“

„Yfir öllu er nú hægt að væla!“
Sjálfur stakk Sævar upp á málamiðlun, eins og DV segir frá í dag, og hún er þessi:
„1) fólk skýtur aðeins upp á Gamlárskvöld
2) tekur til eftir sig og
3) ónáðar ekki fólk og dýr með stöðugum sprengingum og hávaða dagana fyrir og eftir“
Atriði númer tvö minnnir mig á að eftir síðustu áramót stóðu leifarnar af stærðar skottertu á gagnstétt rétt hjá heimili mínu vikum ef ekki mánuðum saman. Alveg óþolandi sóðaskapur.

Það er reyndar ákveðinn galli við það að vera á móti flugeldasprengingum að björgunarsveitir selja flugelda til að fjármagna lífsnauðsynlega starfsemi sína. Kannski er mál að því linni. Nokkrir athugasemdarar komu með tillögur um hvernig megi halda björgunarsveitum gangandi.
„Sameina landhelgisgæsluna og björgunarsveitir svo að þeirra eina haldreipi sé ekki að selja lífshættulegt drasl til almennings“.

„Setja þær á fjárlög og málið er leyst.“

„Ef fólk hefur áhyggjur af afkomu björgunarsveitanna, þá getur það gefið til þeirra andvirði flugeldanna.“
Það má með sanni segja að flugeldum er skotið upp oftar en bara á gamlárskvöld. Hér í kringum bloggheimilið er strax byrjað að sprengja.

Ég tek undir með þeim sem tók undir með tillögu Sævars og bætti við: „Skelfilega leiðinlegur tími framundan.“

Efnisorð: , , ,