sunnudagur, desember 24, 2017

Skild'a vera bókajól?

Á bloggheimilinu hefur áhugi á pólitík minnkað svo mjög að ekki er lengur fylgst með fréttum af neinu viti og aldrei kveikt á alþingisrásinni. Yfirskrift fréttar á Stundinni vakti þó athygli: „Vildu tafarlaust afnám bókaskatts fyrir kosningar
en greiddu atkvæði gegn því í gærkvöldi
“, og þetta var innihald fréttarinnar:

Þingmenn allra flokka á Alþingi lögðu fram sameiginlegt frumvarp um afnám virðisaukaskatts af bókum þann 26. september síðastliðinn,

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður bókaskatturinn afnuminn á kjörtímabilinu, en sú ráðstöfun kemur ekki til framkvæmda á komandi fjárlagaári. Miðað við tekjur af virðisaukaskatti af bókum undanfarin ár má ætla að afnám hans kosti ríkissjóð um 350 milljónir króna á ársgrundvelli. Þetta er álíka há fjárhæð og meirihluti fjárlaganefndar vill að útgjöld hins opinbera vegna styrkja til stjórnmálaflokka verði hækkuð um strax á næsta ári í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Þingmenn stjórnarmeirihlutans felldu breytingartillögu stjórnarandstöðunnar um að gert yrði ráð fyrir afnámi virðisaukaskatts af bókum í fjárlögum ársins 2018.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn tillögu Ágústar Ólafs Ágústssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, um afnám virðisaukaskatts af bókum í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir voru, fyrir fáeinum vikum, á meðal flutningsmanna frumvarps um að bókaskatturinn yrði afnuminn strax um áramótin, en greiddu öll atkvæði gegn afnámi bókaskattsins í gærkvöldi.
Á blaðsíðu 13 í stjórnarsáttmálanum segir:
„Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum.“
Það skref var hægt að stíga á föstudag en vilji til þess var ekki fyrir hendi hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ekki hjá Lilju Alfreðsdóttur menningar- og menntamálaráðherra sem lagði frumvarpið um afnám virðisaukaskatts á bækur fram í haust, ekki hjá Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi menningar- og menntamálaráðherra sem var meðflutningsmaður frumvarpsins.

Þetta eru kveðjurnar til bókaþjóðarinnar.

Vænta má að annað verði eftir þessu.


Efnisorð: ,