mánudagur, desember 11, 2017

„Er ekki komið gott núna? Hvenær linnir þessu?“

Enn streyma fram sögur kvenna úr ýmsum starfstéttum. Og æ oftar sjást athugasemdir karlmanna sem sjá ástæðu til að mótmæla — ekki ofbeldi, mismunun og áreitni sem konur verða fyrir — heldur allri þessari tjáningu og afhjúpun. „Er ekki komið gott núna? Hvenær linnir þessu?“

Athygli mín var vakin á pistli eftir Einar Steingrímsson. Hann dregur upp gamalt skemmtiefni sitt og Evu Hauksdóttur en þau pönkuðust mikið á viðhorfskönnun sem gerð var hjá Reykjavíkurborg um kynferðislega áreitni á vinnustað. Ég nenni ekki að elta ólar við það raus, en þetta eru niðurlagsorð Einars þar sem hann er að tala um frásagnir kvenna síðustu vikna:

„En það er slæmt að láta eins og þetta vandamál sé margfalt stærra í sniðum en raunin virðist vera; fjöldi frásagna af þessu tagi myndar ekki gögn sem segja til um hversu algengt þetta er, hvað þá hversu margir karlmenn stundi slíka hegðun. Og það er sérlega vont að krefjast þess að allir karlmenn taki ábyrgð á hegðun þeirra karla sem koma illa fram. Það er ekkert jákvætt við það að reyna að koma inn sektarkennd hjá þeim fjölmörgu, líklega langflestum, sem eru saklausir af alvarlegri hegðun af þessu tagi. Það er alveg jafn neikvætt og að krefjast þess að allar konur taki ábyrgð á þeim konum sem bera karla röngum sökum eða stunda umgengnistálmanir.“

Viðhorf Einars hefur auðvitað ekkert breyst. Hann notar alltaf tækifærið til að berjast gegn kvennabaráttu. Nú gegn sögum kvenna um kynferðislega áreitni. Pistill hans birtist á tveimur stöðum, annarsvegar á Pressunni og hinsvegar á Kvennablaðinu. Þar þurfti ekki lengi að svipast um áður en annar pistill gegn #metoo umræðunni blasti við, sá er eftir Þorkel Ágúst Óttarsson:

„Það eru tvær hliðar á öllum málum. Þetta þóttu lengi svo augljós sannindi að það tók því ekki að nefna það. Nú lætur fólk eins og það sé bara ein hlið á málinu og sú hlið er upplifun meints brotaþola. 
[…]
Og það leiðir okkur að næsta atriði. Nýju möntrunni um að kynferðisleg áreitni skuli undir engum kringumstæðum líðast. Þegar fólk nefnir „zero tolerance“ fæ ég sting í hjartað. 
[…]
Karlar spyrja í óvissu sinni hvar mörkin liggi. Bara það að menn sjái ástæðu til að spyrja vekur ugg af tveim ólíkum ástæðum: Það er ógnvekjandi ef karlar átta sig ekki á því að það að bera sig eða þvinga einhvern til kynmaka er ekki í lagi. Það ætti að vera augljóst að það er ekki ásættanleg hegðun. Það er líka ógnvekjandi ef karlar þora ekki að kyssa konu á stefnumóti af ótta við að verða ásakaðir um kynferðisáreitni eða eru hræddir við að daðra af því að það yrði ef til vill notað gegn þeim.
[…]
Að síðustu þá óttast ég upphafningu fórnarlambsvæðingarinnar. Fólk nýtur viðurkenningar sem fórnarlömb, en mjög fáir öðlast viðurkenningu fyrir getuna til að hrista hlutina af sér. Vinkonu minni var nauðgað og hún einsetti sér að láta það ekki skilgreina hver hún væri.“
Þetta eru auðvitað bara valin dæmi úr pistli Þorkels. Mér finnst síðasta tilvitnunin mögnuð, ábendingin um að konur geti nú hrist þetta af sér (ef þær kippa sér ekkert uppvið þetta er augljóst að köllum eigi áfram að líðast að áreita þær). Og svo endalausa málsvörnin fyrir karla, vorkunnsemin í garð þeirra sem ekkert skilja í umræðunni og „þora ekki“ eða „eru hræddir við að daðra“. Eftir að hafa lesið ótal sögur um kynferðislega áreitni þá eru karlmenn semsagt ennþá óvissir hvar línan liggur. Það er magnað skilningsleysi.

Okkur hinum, sem þekkjum eðlileg mörk í mannlegum samskiptum, þykir óþægilegt að lesa allar þessar sögur. Þær segja frá niðurlægjandi orðum og athöfnum, sem hafa fyllt konurnar sem fyrir þeim urðu ótta, þeim fundist þær sviknar, niðurlægðar, þær hafa misst sjálfstraustið, traustið á viðkomandi geranda og oftast líka traustið samstarfsfólki sem stóð ekki með þeim. Stundum eru það einstaklingar og einstök atvik, stundum er vitað að gerandinn áreitir margar konur í sömu starfsstétt, stundum eru margir gerendur í einu, viðhlæjendur og þeir sem leggja sig fram um að verja hegðun gerenda. Í sumum tilvikum virðist sem heilu vinnustaðirnir séu svo karlmiðaðir og kvenfjandsamlegir að þær konur sem hætta sér þar inn séu álitnar veiðibráð sem sjálfsagt sé að ofsækja með öllum ráðum. Þannig virkuðu til að mynda margar frásagnir kvenna í tækni- upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði á mig.

Það er líka óþægilegt að lesa frásagnir kvenna úr fjölmiðlum. Að karlmenn (sem sumir gefa sig út fyrir að vera feministar) sem taka viðtöl við konur séu að spá í hvernig sé að sofa hjá þeim. Að karlmenn reyni við fjölmiðlakonuna sem tekur viðtal við þá. Að þeir séu umtalsillir í garð þingkvenna.* Og einna magnaðast fannst mér að lesa þessa frásögn.
„Þegar átak stjórnmálakvenna var til umfjöllunar spurði samstarfsmaður mig hvenær fjölmiðlakonur ætluðu að stofna hóp. Ég sagði það vera góða spurningu en minntist þess ekki að hafa verið beint áreitt í starfi. Tveimur klukkutímum seinna þurfti ég ítrekað að biðja annan kollega um að hætta þegar hann ætlaði að lýsa fyrir mér kynlífsathöfn sem hann hafði stundað með konu sem ég þekki. Ég reyndi að labba í burtu en hann greip í mig eins og til að fara í gamnislag. Þegar ég svo loks skokkaði í burtu tók hann sig til og hrópaði yfir fréttastofuna að ég gæti gert þetta við einn tiltekinn samstarfsfélaga okkar sem er náinn vinur minn. Ég skalf smá og fannst ég standa nakin á miðju gólfinu. Öðrum virtist finnast þetta fyndið.“
Semsagt, á fjölmiðli, í miðri #metoo umræðunni sem getur ekki hafa farið framhjá fjölmiðlamönnunum, þykir þetta eðlilegt og fyndið. Fjölmiðlar eru fjórða valdið, eiga að hafa aðhald með stjórnvöldum og öðrum valdastofnunum samfélagsins. En mörgum fjölmiðlamönnum — karlmönnum — virðist ekki þykja þörf á að skoða valdbeitingu innan eigin vinnustaðar. Eða valdaójafnvægi karla og kvenna yfirleitt. Heldur halda þeir valdbeitingunni áfram, jafnvel þótt fjölmiðlarnir sem þeir vinna við séu uppfullir af fréttum um hvernig áhrif svona hegðun hefur á konur, (og hvað þá vinnustaðamóralinn og áhuga kvenna á að vinna í því umhverfi).

Hvar er von ef fjölmiðlamenn læra ekkert af fréttunum sem þeir flytja?

____
* Úr sögu nr. 43: Ef Alþingisrásin var í gangi voru þingkonur í pontu kallaðar: „Feitar mellur“ og „hórur“ og ALLTAF kallaðar „kerlingar.“ Og hlegið að klæðaburði. Þegar ég gerði athugasemdir við þetta var ég sögð viðkvæm, kölluð femínisti (eins og það sé móðgun lol) og þeir urðu fúlir og jaðarsettu mig þannig að þeir hættu að tala við mig. Þegar ég gekk inn á ritstjórn var sagt: „úú, passið ykkur, femínistinn er mættur.“ Ég sagði upp stuttu síðar.
Þessi saga er líka frá fjölmiðlakonu, saga nr. 61: „Þegar karlkyns yfirmaður minn skildi ekkert í þessari #freethenipple-væðingu og ákvað að vera fyndinn á hverjum degi á meðan þær fréttir riðu yfir með óviðurkvæmilegum athugsemdum um myndir af brjóstum á miðlinum sem og hvort og hvenær ég og fleiri konur á vinnustaðnum værum að taka þátt í þessu.“


Efnisorð: , , ,